Fræðsluráð

16. desember 2015 kl. 13:00

í Krosseyri, Linnetsstíg 3

Fundur 338

Mætt til fundar

  • Rósa Guðbjartsdóttir formaður
  • Einar Birkir Einarsson aðalmaður
  • Hörður Svavarsson aðalmaður
  • Sverrir Garðarsson aðalmaður
  • Algirdas Slapikas varamaður

Auk ofantalinna og undirritaðra sátu fundinn: Magnús Baldursson, sviðsstjóri, Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir, þróunarfulltrúi leikskóla, Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla, Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi, Kristinn Guðlaugsson, áheyrnarfulltrúi skólastjóra grunnskóla, Kristín Guðnadóttir, áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara, Sigríður Ólafsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna, Sigrún Kristinsdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, Arnrún Einarsdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastarfsmanna og Inga Lína Sigríður Jóhannsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna.

Ritari

  • Vigfús Hallgrímsson þróunarfulltrúi grunnskóla

Auk ofantalinna og undirritaðra sátu fundinn: Magnús Baldursson, sviðsstjóri, Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir, þróunarfulltrúi leikskóla, Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla, Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi, Kristinn Guðlaugsson, áheyrnarfulltrúi skólastjóra grunnskóla, Kristín Guðnadóttir, áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara, Sigríður Ólafsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna, Sigrún Kristinsdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, Arnrún Einarsdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastarfsmanna og Inga Lína Sigríður Jóhannsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna.

  1. Almenn erindi

    • 1410618 – Dagforeldrar - leyfisbeiðnir

      Lögð fram umsókn frá Silvíu Sif Birgisdóttur um starfsleyfi til að starfa sem dagforeldri í Hafnarfirði og umsókn um framlengingu starfsleyfis frá Heiðrúnu Björgvinsdóttur. Daggæslufulltrúi mælir með umsóknunum.

      Fræðsluráð samþykkir leyfisbeiðnirnar.

    • 1106012 – Viðmiðunarstundaskrá grunnskóla

      Lögð fram greinargerð um viðmiðunarstundaskrá allra grunnskóla í Hafnarfirði skólaárið 2015-2016

      Þróunarfulltrúi grunnskóla kynnti umrædda greinargerð.

    • 1409495 – Grunnskóli, stofnun nýs skóla

      Lagt fram minnisblað þróunarfulltrúa grunnskóla vegna starfsáætlunar, skólanámskrár og viðmiðunarstundaskrár Framsýnar.

      Lögð fram eftirfarandi tillaga frá formanni:
      “Fræðsluráð samþykkir fyrir sitt leyti umsókn frá Framsýn skólafélagi ehf. dagsettri 16. september 2014 um stofnun grunnskóla í Hafnarfirði.
      Samþykktin er bundin því að rekstraraðilar uppfylli öll skilyrði reglugerður nr. 699 frá 25. júlí 2012 um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum og skólahald samkvæmt erlendri eða alþjóðlegri námsskrá og námsskipan og hljóti viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðherra skv. henni.
      Samþykktin tekur til greiðslu skv. 7. gr. reglugerðarinnar fyrir allt að 45 nemendur í 8. ? 10. bekk skólaárið 2016-2017, en nemendum fjölgi síðan ár frá ári þar til hámarki verður náð. Fjöldi fjöldi nemenda og greiðslur sveitarfélagsins verða bundin í þjónustusamningi milli Framsýnar skólafélags ehf og Hafnarfjarðarbæjar, fáist rekstrarleyfi hjá mennta- og menningarmálaráðherra.”

      Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram eftirfarandi bókun og tillögu að frestun afgreiðslu:
      “Fulltrúar Samfylkingar og VG gera alvarlegar athugasemdir við það að taka eigi ákvörðun í þessu máli hér án þess að nokkur tillaga hafi legið fyrir fundinum. Hér er að koma í ljós að fulltrúar meirihlutans ætla sér að keyra í gegn ákvörðun um einkarekinn grunnskóla án þess að treysta sér til þess standa að bakinu málinu sjálfir og án þess að um það fari fram eðlileg umræða. Í stað þess að bæjarstjórn marki stefnu og taki ákvörðun um hvort hefja eigi rekstur fleiri einkaskóla á grunnskólastigi er nú lagt til af hálfu fulltrúa Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks að þeirri ákvörðun verði útvistað til menntamálaráðuneytisins.
      Er þetta því miður í samræmi við þær aðferðir sem einkennt hafa einkavæðingu opinberrar þjónustu á Íslandi og vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins, þar sem vegið er að rekstri skóla sem bæjarfélagið rekur sjálft og allri umræðu um grundvallaratriði er vikið til hliðar. Sú breyting er hér að verða á að nú er sú stefna og þau vinnubrögð bökkuð upp af fulltrúum Bjartrar framtíðar. Engin umræða hefur til dæmis átt sér stað varðandi það hvort bæjarbúar séu almennt hlynntir því að grunnskólar fái að velja sér nemendur og innheimta skólagjöld. Hvort tveggja er mikil breyting frá því sem verið hefur og eðlilegt er að ræða hvaða afleiðingar sú stefna hefur í för með sér, m.a. fyrir rekstrargrundvöll bæjarrekinna hverfisskóla.
      Við bendum á að samhliða þessu er verið að skera niður í rekstri annarra grunnskóla og fækka kennurum sem nemur a.m.k. 13 heilum stöðugildum í kennslu miðað við óbreyttan nemendafjölda. Á sama tíma og framlög til einkarekinna skóla eru hækkuð ár frá ári án þess að nokkur krafa sé gerð um sambærilega hagræðingu í þeim rekstri.
      Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja til að afgreiðslunni verði frestað og meirihlutinn leggi fram raunverulega tillögu um afgreiðslu sem þeir sjálfir eru reiðubúnir að standa að baki og greinargerð sviðsins með greiningu á áætluðum kostnaði og ábata af verkefninu og áhrifum þess almennt. Í framhaldinu getur þá átt sér stað lýðræðisleg umræða í samfélaginu áður en bæjarstjórn tekur fullnaðarákvörðun.”

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar bóka:
      “Umsókn Framsýnar hefur verið til umfjöllunar á tíu fundum fræðsluráðs undanfarna 15 mánuði og ljóst að til afgreiðslu færi að koma. Engu að síður vilja fulltrúar Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks verða við ósk minnihlutans um að fresta afgreiðslu, þar sem fullmótuð tillaga lá ekki fyrir fundinum. Boðað er til aukafundar fræðsluráðs föstudaginn 18. des kl 8:15.”

    • 1511142 – Samstarfssamningur, Golfklúbburinn Setberg

      Lögð fram lokadrög að samstarfssamningi við Golfklúbbinn Setberg.

      Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi, kynnti drög að samstarfssamningi við Golfklúbbinn Setberg.

      Tillaga um að samningsdrög verði samþykkt af fræðsluráði. Samþykkt með þremur atkvæðum Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar en fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna sitja hjá.

    • 1510468 – Fjárhagsáætlun fræðslu- og frístundaþjónustu 2016

      Kynnt fjárhagsáætlun vegna fræðslu- og frístundaþjónustu fyrir árið 2016.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar bóka:
      “Í fjárhagsáætlun ársins 2016 hækkar framlag til fræðslu? og frístundamála um nærri 800 hundruð milljónir króna milli ára.
      Á næsta skólaári, frá 1. ágúst 2016 fjölgar nemendum um 103 í grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar. Með því að taka upp gildandi reglur um úthlutun kennslustunda hjá Reykjavíkurborg mun kennslustundum í skólum Hafnarfjarðarbæjar fækka um 3%. Þessi ráðstöfun mun á engan hátt skerða þjónustu við nemendur, en útfærsla kennsluúthlutunar er á verksviði skólastjórnenda á hverjum stað. Markmiðið er að nýta fjármagn betur og meðal annars leggja áherslu á og auka svigrúm til að bæta aðbúnað í skólunum, sbr. endurnýjun á tölvum o.fl.
      Nemendum á leikskólaaldri bæjarins fækkar um 83 börn á milli ára. Við því hefur verið brugðist m.a. með því að leggja niður deildir innan leikskóla og nýjar innritunarreglur á leikskóla tóku gildi sl. vor. Þar er gert ráð fyrir að börn séu tekin inn á leikskóla bæjarins tvisvar á ári, innritunaraldurinn lækkar í skrefum næstu misserin og leikskólagjöld haldast óbreytt þriðja árið í röð. Þá hefur stöðugildum verið fjölgað um þrjú og hálft vegna starfsmanna sem gefst nú kostur á endurmenntun í fjarnámi. Reyndin er sú að starfsmönnum í leikskólum bæjarins fjölgar líka vegna lækkaðs innritunaraldurs.
      Að gefnu tilefni skal það tekið fram að fjárveitingar til Barnaskóla Hjallastefnunnar taka mið af reglugerð um að sveitarfélög skuli greiða að lágmarki 75% af viðmiðunargjaldi sem Hagstofa Íslands reiknar út í september hvert ár. Ekki er gert ráð fyrir breytingu þar á enda um lögbundið hlutfall að ræða.”

      Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna bóka:
      “Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna harma þann niðurskurð sem stefnt er að á fræðslusviði. Gert er ráð fyrir verulegri fækkun kennara í leik- og grunnskólum sem reknir eru af Hafnarfjarðarbæ eða því sem nemur rúmlega 26 stöðugildum miðað við óbreyttan nemendafjölda. Þá er einnig boðaður niðurskurður í öðru starfsmannahaldi og fjárveitingar til þróunarstarfs eru skornar niður um helming á milli ára. Ómögulegt er að sjá hvernig þessu verði náð án þess að skerða þjónustu við leik- og grunnskólabörn. Á sama tíma leggur meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar til að fjárframlög til Barnaskóla Hjallastefnunnar verði hækkuð umtalsvert á milli ára. Engin niðurskurðarkrafa er gerð til Barnaskóla Hjallastefnunnar eða annarra einkarekinna skóla í Hafnarfirði.
      Á sama tíma og aukin krafa er um að inntökualdur á leikskóla verði lækkaður hefur núverandi meirihluti einnig farið í stórfelldar lokanir á leikskóladeildum í stað þess að nýta þau pláss sem fyrir hendi eru til að stíga frekari skref til lækkunar inntökualdurs eins og fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna hafa margsinnis lagt til. Nú hefur verið ákveðið að loka starfsstöð Brekkuhvamms við Hlíðarbraut (Kató) og Kaldárselsdeild Víðivalla. Leikskólaúrræðin sem meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar hefur lokað á árinu eru þá orðin samtals fjögur sem bætast þá við þau tvö leikskólaúrræði sem þegar var búið að loka á árinu.”

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar bóka:
      “Það er miður hvernig fulltrúar minnihlutans eru með málflutningi sínum að reyna að ala á glundroða, óöryggi og óánægju á meðal foreldra og starfsfólks í leik- og grunnskólum bæjarins. Því er alfarið vísað á bug að breytingar á kennsluúthlutun skerði þjónustu í málaflokknum og að uppsagnir í röðum starfsmanna séu yfirvofandi þrátt fyrir að margítrekað sé búið að reyna að útskýra að svo er ekki, hér á þessum fundi og annars staðar. Það er ábyrgðarhluti að tala um viðkvæman og mikilvægan málaflokk sem þennan á raunsæjan og réttan hátt í stað upphrópana og síendurtekinna rangfærslna.”

    • 1508478 – Bóka- og bíóhátíð barnanna í Hafnarfirði

      Kynnt staða á undirbúningi bóka- og bíóhátiðar.

      Greint frá því að undirbúningur sé hafinn með samstarfi við leik- og grunnskóla bæjarins, Bókasafn Hafnarfjarðar og Bæjarbíó og að stefnt sé að því að hátíðin verði haldin þriðju viku febrúarmánaðar.

    • 1512151 – Áskorun vegna skólabókasafna

      Lögð fram áskorun frá bókasafns- og upplýsingafræðingum á skólasöfnum grunnskólanna í Hafnarfirði.

      Lagt fram til kynningar.

    • 1512176 – Móttaka flóttafólks

      Sviðsstjóri upplýsti um undirbúning sviðsins fyrir komu flóttafólks til Hafnarfjarðar.

      Sviðsstjóri og þróunarfulltrúi leikskóla fóru yfir stöðu mála.

    • 1508473 – Skólaskipan á Völlum

      Lögð fram fundargerð 4. fundar starfshóps um skólamál á Völlum.

      Lars Imsland, skólastjóri Hraunvallaskóla, mætti á fundinn og kynnti hugsanlega útfærslu á skólastarfinu í Hraunvallaskóla skólaárið 2016-2017.

      Lögð er fram tillaga er frá starfshópnum til fræðsluráðs á þessa leið:
      „Starfshópur um skólamál á Völlum leggur til við fræðsluráð að húsnæðismál Hraunvallaskóla skólaárið 2016-2017 verði leyst með lausum kennslustofum sem nú eru nýttar af leikskólanum. Þetta er lagt til í fullu samráði við skólastjórnendur Hraunvallaskóla.
      Jafnframt leggur hópurinn áherslu á að undirbúningi að nýjum leik- og grunnskóla verði flýtt og hönnun hans sett af stað flótlega á næsta ári svo fyrsti áfangi hans verði tilbúinn til notkunar haustið 2017. Stofnaður verði starfshópur skipaður hagsmunaaðilum sem hafi það hlutverk að móta skólagerð og áherslur og hugmyndafræði skólans.“

      Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna bóka:
      “Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna telja mikilvægt að mótuð verði skýr stefna varðandi spjaldtölvuvæðingu í grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar. Slíkt stefna hlýtur að eiga að markast af faglegri nálgun en ekki skyndiviðbrögðum og töfralausnum í húsnæðismálum grunnskólum bæjarins. Mikilvægt er að jafnræðis sé gætt varðandi kennslugögn og aðstöðu sem nemendum í grunnskólum bæjarins stendur til boða.”

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar bóka:
      “Bent er á að fulltrúi Samfylkingarinnar stendur að og tók fullan þátt í gerð þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir sem fulltrúi hans í starfshópnum um skólamál á Völlum. Því er jafnframt fagnað að fulltrúar VG og Samfylkingar vilji móta stefnu um spjaldtölvuvæðingu í grunnskólunum.”

      Fræðsluráð tekur jákvætt í tillöguna og óskar viðbragða starfsfólks og skólaráðs Hraunvallaskóla við henni á næsta reglulega fræðsluráðsfundi.

Ábendingagátt