Fræðsluráð

8. júní 2016 kl. 08:00

í Krosseyri, Linnetsstíg 3

Fundur 351

Mætt til fundar

  • Rósa Guðbjartsdóttir formaður
  • Einar Birkir Einarsson aðalmaður
  • Hörður Svavarsson aðalmaður
  • Adda María Jóhannsdóttir aðalmaður
  • Sverrir Garðarsson aðalmaður

Auk ofantalinna og undirritaðra sátu fundinn: Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir, þróunarfulltrúi leikskóla, Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla, Kristín Guðnadóttir, áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara, Sigríður Ólafsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna, Sigrún Kristinsdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra,Inga Nína Sigríður Jóhannsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna.

Ritari

  • Elísabet Sverrisdóttir ritari

Auk ofantalinna og undirritaðra sátu fundinn: Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir, þróunarfulltrúi leikskóla, Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla, Kristín Guðnadóttir, áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara, Sigríður Ólafsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna, Sigrún Kristinsdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra,Inga Nína Sigríður Jóhannsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna.

  1. Almenn erindi

    • 1409495 – Grunnskóli, stofnun nýs skóla

      Þjónustusamningur lagður fram til afgreiðslu. Fulltrúar Framsýnar mæta til fundarins.

      Fulltrúar Framsýnar mættu á fundinn og veittu upplýsingar um stöðu innritunar, fyrirhugaða starfsemi og áherslur skólans.

      Fræðsluráð samþykkir fyrirliggjandi þjónustusamning og vísar honum til afgreiðslu í bæjarstjórn. Fram kom á fundinum að kostnaðarþætti tillögunnar verður mætt að fullu með breytingum sem verða á fjárhagsáætlun. Breytingarnar eru til komnar vegna minna fjárframlags til Barnaskóla Hjallastefnunnar á yfirstandandi fjárhagsári en áætlanir gerðu ráð fyrir, vegna færri nemenda og vegna þess að miðstig skólans hættir. Gerð verður nánari grein fyrir kostnaðarþætti tillögunnar í viðauka við fjárhagsáætlun 2016 sem lagður verður fram síðar í mánuðinum.

      Samþykkt með 3 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar, en fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar greiddu atkvæði á móti.

      “Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna geta ekki samþykkt tillögu um nýjan einkarekinn grunnskóla í Hafnarfirði. Ljóst er að með þjónustusamningi við skólann aukast útgjöld bæjarins um tugi milljóna. Í gögnum er ekki gerð fullnægjandi grein fyrir húsnæðismálum skólans og óljóst hvort þau uppfylli kröfur grunnskólalaga um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustað, ekki síst hvað varðar skólalóð. Þá teljum við rekstrarforsendur skólans hæpnar ef miða á við að Hafnarfjarðarbær greiði eingöngu með 45 nemendum þegar forsvarsmenn skólans hafa gert ráð fyrir 120 nemendum til þess að rekstur skólans gangi upp til lengri tíma. Þá má einnig benda á þversagnir í innsendum gögnum varðandi jafnt aðgengi nemenda að skólanum. Eins er augljóst að fyrirhuguð innheimta skólagjalda mun leiða til þess að ekki eigi allir kost á að sækja skólann.
      Að ofansögðu teljum við engar forsendur til að samþykkja þjónustusamning um nýjan grunnskóla við Framsýn-Skólafélag.
      Við ítrekum fyrri bókanir okkar og gerum alvarlegar athugasemdir við þá forgangsröðun sem birtist í þessum gjörningi að kosta tugum milljóna til þess að fjármagna einkaskóla í stað þess að láta umframfjármuni renna til leik- og grunnskóla sem bæjarfélagið rekur sjálft.

      Adda María Jóhannsdóttir
      Sverrir Garðarsson”

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar bóka:
      “Það er ánægjulegt að afgreiða fyrirliggjandi þjónustusamning fyrir hönd fræðsluráðs. Í fyrirliggjandi þjónustusamningi er ýmislegt sem telst nýmæli í samningi sem þessum og má þar nefna þak á skólagjöld, aukið eftirlit með innritun barna, auknar kröfur um mat á þörfum vegna sérkennlu, að hagnaði verði varið í innra starfið en ekki í arðgreiðslur og öflugra ytra mat á skólastarfi. Þá er samningurinn gerður til 2ja ára með endurskoðun að ári liðnu. Skólinn fengið viðurkenningu Menntamálastofnunar og uppfyllir því öll skilyrði hvað varðar skólastarf og húsnæði. Ekki verður nauðsynlegt að auka fjárheimildir á þessu ári vegna skólans, þar sem rými skapast við að miðdeild Barnaskóla Hjallastefnunnar hættir og dekkar allan kostnað bæjarins á árinu. Þess ber að geta að síðastliðin tvö ár hefur inngjöf í hafnfirskt skólastarf verið töluverð, ekki síst vegna þess að kennurum hefur fjölgað um 50 á tímabilinu á meðan nemendum hefur fjölgað um rúmlega 100.”

    • 1406405 – Frístundaheimili og niðurgreiðslur, starfshópur

      Tillögur um breytingar á gjaldskrám lagðar fram til afgreiðslu. Sjá tillögur í skýrslu starfshóps. Eina breytingin sem verður á henni er að miða breytingar á frístundastyrkjunum frá og með 1. nóv, í stað 1. sept eins og gert er ráð fyrir í tillögunni. Annað sumsé óbreytt. Gerð verður nánari grein fyrir kostnaðarþætti tillögunnar í viðauka við fjárhagsáætlun 2016 sem lagður verður fram síðar í mánuðinum.

      Fræðsluráð samþykkir tillögur starfshóps um breytingar á gjaldskrá og niðurgreiðslum á fræðslu- og frístundasviði. Kostnaði sem til fellur á yfirstandandi fjárhagsári verður mætt með viðauka við fjárhagsáætlun sem lagður verður fram síðar í mánuðinum. Fræðsluráð fagnar samróma niðurstöðu starfshópsins og að þessar breytingar á gjaldskrám séu orðnar að veruleika. Með auknum systkinaafslætti og niðurgreiðslu frístundastyrkja er stigið mikilvægt skref í að minnka kostnað barnafjölskyldna í bæjarfélaginu og er það í takti við fjölskylduvænar áherslur bæjarstjórnar. Hækkun á systkinaafslætti tekur gildi 1. september og breyting á frístundastyrkjum frá 1. nóvember.

      “Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna hefðu viljað sjá að breytingar á frístundastyrkjum tækju gildi 1. september eins og þverpólitískur starfshópur, skipaður fulltrúum allra flokka í bæjartjórn, lagði fram tillögu um. Með breytingunum eru stigin mikilvæg skref í þá átt að jafna aðgengi barna og unglinga að skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Þessi töf á breytingu frístundastyrkja getur haft áhrif á innritun barna að hausti þegar flestir skrá börn sín í tómstundir en er augljóslega gerð til að spara fjármuni. Minnt er á að starfshópurinn bókaði sameiginlega um að við gerð næstu fjárhagsáætlunar þurfi að tryggja að málefni barnafjölskyldna hafi forgang og að áfram verði unnið markvisst að frekari lækkun þjónustugjalda.

      Adda María Jóhannsdóttir
      Sverrir Garðarsson”

Ábendingagátt