Fræðsluráð

29. október 2018 kl. 08:15

í Krosseyri, Linnetsstíg 3

Fundur 403

Mætt til fundar

 • Kristín María Thoroddsen aðalmaður
 • Margrét Vala Marteinsdóttir aðalmaður
 • Sigrún Sverrisdóttir aðalmaður
 • Birgir Örn Guðjónsson aðalmaður
 • Vaka Ágústsdóttir áheyrnarfulltrúi
 • Bjarney Grendal Jóhannesdóttir áheyrnarfulltrúi
 • Kristjana Ósk Jónsdóttir varamaður

Auk ofantalinna og undirritaðra sátu fundinn: Fanney D. Halldórsdóttir, sviðsstjóri, Hrund Apríl Guðmundsdóttir, aðstoðarmaður sviðsstjóra, Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi, Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla, Jenný D. Gunnarsdóttir, þróunarfulltrúi leikskóla, María Pálmadóttir, áheyrnarfulltrúi skólastjórnenda grunnskóla, Sólveig Kristjánsdóttir, áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara, Inga Líndal Finnbogadóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, Áshildur Hlín Valtýsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskóla, Helga Hrönn Óskarsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna.

Ritari

 • Valgerður Sveinbjörnsdóttir Ritari

Auk ofantalinna og undirritaðra sátu fundinn: Fanney D. Halldórsdóttir, sviðsstjóri, Hrund Apríl Guðmundsdóttir, aðstoðarmaður sviðsstjóra, Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi, Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla, Jenný D. Gunnarsdóttir, þróunarfulltrúi leikskóla, María Pálmadóttir, áheyrnarfulltrúi skólastjórnenda grunnskóla, Sólveig Kristjánsdóttir, áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara, Inga Líndal Finnbogadóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, Áshildur Hlín Valtýsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskóla, Helga Hrönn Óskarsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna.

 1. Almenn erindi

  • 1809341 – Mönnun í leik- og grunnskólum Hafnarfjarðar, fyrirspurn

   Gögn og minnisblað með samantekt svara við fyrirspurn Sigurðar Þ. Ragnarssonar um mönnun í leik- og grunnskólum lögð fram.

   Lögð fram fyrirspurn

   Sigurður Þ. Ragnarsson tekur til máls og leggur frma svohljóðandi fyrirspurn:

   Bæjarfulltrúi Miðflokksins leggur fram eftirfarandi fyrirspurnir.
   1. Þekktur er landlægur mönnunarvandi réttindafólks í leik- og grunnskólum landsins. Athygli vekur að árið 2016 (nýrri tölur liggja ekki fyrir) var hlutfall leiðbeinenda í grunnskólum Hafnarfjarðar 8% á meðan hlutfallið var 3% í Kópavogi. Því er spurt.
   a) Hvernig sundurliðast heildarfjöldi grunnskólakennara og leiðbeinenda í grunnskólum Hafnarfjarðar skólaárið 2018-2019 sundurliðað eftir skólum (bæði fjöldi og hlutfall). Hver er heildarfjöldi annars starfsfólks sundurliðað eftir skólum. Fram komi nemendafjöldi í hverjum skóla.
   b) Hversu margir sem annast kennslu í grunnskólum Hafnarfjarðar (grunnskólakennarar og leiðbeinendur) eru í hlutastarfi (1-49%) (50-74%) (75-99%)(100%)?
   c) Hve margir af starfandi leiðbeinendum innan grunnskóla Hafnarfjarðar hafa lokið háskólaprófi, sundurliðað eftir skólum (hlutfall og fjöldi)?
   d) Eru öll stöðugildi í grunnskólum bæjarins mönnuð? Vantar fólk?
   e) Hvað eru eða hyggjast fræðsluyfirvöld gera til að fjölga réttindafólki í grunnskólum bæjarins?
   2. Í 9. gr. laga nr. 87/2008 segir í 2. tl. (lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla):
   *Að lágmarki 2/3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skulu teljast til stöðugilda leikskólakennara.
   Því er spurt.
   a) Hvernig sundurliðast heildarfjöldi leikskólakennara og annara starfsmanna í leikskólum Hafnarfjarðar (bæði fjöldi og hlutfall). Hver er heildarfjöldi uppeldismenntaðra starfsmenna (aðrir en leikskólakennarar).
   b) Hvað eru eða hyggjast fræðsluyfirvöld gera til að fjölga leikskólakennurum á leikskólum bæjarins svo lagaskylda sé uppfyllt [2/3]?
   c) Eru öll stöðugildi í leikskólum bæjarins mönnuð? Vantar fólk?

   Til máls tekur Adda María Jóhannsdóttir. Til andsvars kemur Sigurður Þ. Ragnarsson.

   Friðþjófur Helgi Karlsson tekur til máls.

   Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa framkomnum fyrirspurnum til fræðsluráð.

   Fulltrúar minnihluta fræðsluráðs leggja fram eftirfarandi bókun;
   Það er alvarleg þróun að frá 2016 skuli leiðbeinendum í grunnskólum Hafnarfjarðar hafa fjölgað um 100%, eða úr 8% í tæp 16% á tveimur skólaárum. Ljóst er að þróunin er algjörlega óviðunandi og að huga þarf sérstaklega að starfsaðstöðu og starfskjörum í þessum skólum.
   Þá vekja tveir grunnskólar athygli fyrir hátt hlutfall leiðbeinenda, Víðistaðaskóli og Hraunvallaskóli. Af þeim sem annast kennslu í þessum skólum (kennarar leiðbeinendur) eru 23,7% leiðbeinendur í Víðistaðaskóla og 23,1% í Hraunvallaskóla. Á sama tíma er þetta hlutfall áberandi lægst í Hvaleyrarskóla 6,1% og í Áslandsskóla 7,8%. Eru fjölmennir skólar síður eftirsóknarverðir hjá kennurum?
   Þá vekur athygli að fjöldi leiðbeinenda án háskólaprófs raðast á þrjá skóla, 5 í Hraunvallaskóla, 2 í Setbergsskóla og 1 í Víðistaðaskóla. Í öðrum skólum eru allir leiðbeinendur með háskólapróf sem er góðs viti.
   Að því er varðar leikskólana vekur athygli að hlutfall leikskólakennara er 29% en lagaskylda gerir ráð fyrir að þeir skuli vera 66%. Hér er langt í land og fagnaðarefni að boðið sé uppá námssamninga fyrir þá sem vilja afla sér menntunar, nú alls 14 starfsmenn. Ef Hafnarfjörður vill taka forystu á þessu sviði verður að gera starfsumhverfi og starfskjör starfsfólks á leikskólum þannig að fleiri fáist til að fara á námssamninga og afla sér viðeigandi menntunar. Enn fremur vekur athygli að enn hefur ekki tekist að manna öll störf á leikskólum bæjarins en 7 stöðugildi eru ómönnuð í tveimur leikskólum. Alvarleg staða sem bitnar á því starfsfólki sem fyrir er.

   Undir þetta rita fulltrúar minnihlutans í fræðsluráði, Bjarney Grendal Jóhannesdóttir, Vaka Ágústsdóttir, Sigrún Sverrisdóttir og Birgir Örn Guðjónsson.

  • 1808352 – Leikskólamál í Suðurbæ

   Lögð fram að nýju eftirfarandi fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar frá 401. fundi fræðsluráðs.

   “Undirrituð óskar formlegra skýringa á því hvers vegna því var að hafnað að taka mál á dagskrá sem búið var að óska formlega eftir, bæði var óskað eftir því 29.ágúst síðastliðinn og aftur þann 9. október.
   Samkvæmt 62. gr. samþykkta sveitarfélagsins er heimilt að taka mál til meðferðar í fræðsluráði þótt ekki sé það tilgreint í dagskrá. Fulltrúar meirihlutans geta frestað afgreiðslu en geta ekki hafnað því að taka málið á dagskrá. Með því er verið að brjóta á samþykktum og rétti kjörinna fulltrúa til að fá mál á dagskrá”.
   Fyrir hönd Samfylkingarinnar Sigrún Sverrisdóttir

   Tillaga áður flutt á fundi bæjarstjórnar 20.júní sl.,óskað eftir afgreiðslu.
   Eftir lokun á starfsstöð Brekkuhvamms við Hlíðarbraut (Kató) hefur verið skortur á leikskólaplássum í Suðurbæ. Fulltrúar Samfylkingar leggja til að nú þegar verði hafist handa við undirbúning á byggingu leikskóla við Öldugötu eins og gert er ráð fyrir í deiliskipulagi. Þá leggjum við einnig til að tekið verði til skoðunar að opna ungbarnaleikskóla í Kató. Byggingin hefur staðið auð frá því að leikskólanum var lokað og lítið ætti að vera því til fyrirstöðu að hefja starfsemi þar á ný.

   Til máls tekur bæjarfulltrúi Kristín María Thoroddsen. Til máls tekur bæjarfulltrúi Sigrún Sverrisdóttir. Til máls tekur bæjarfulltrúi Adda María Jóhannsdóttir. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Kristín María Thoroddsen. Adda María Jóhannsdóttir svarar andsvari.Til máls tekur bæjarfulltrúi Kristín María Thoroddsen. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Sigrún Sverrisdóttir. Til andsvars kemur Adda María Jóhannsdóttir bæjarfulltrúi.

   Kristín María Thoroddsen bæjarfulltrúi leggur til að málinu verði vísað til afgreiðslu og umfjöllunar í fjárhagsáætlunnarvinnu fræðsluráðs

   Tillaga er samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

   Adda María gerir grein fyrir atkvæði sínu og leggur fram eftirfarandi bókun:
   “Það er ljóst að það er viðvarandi skortur á leikskólaplássum í Öldutúnskólahverfinu og sá skortur mun haldast til framtíðar ef ekkert verður að gert. Á skipulagi er 4-6 deilda leikskóli á Öldunum. Það er brýnt að hafist verði handa við uppbyggingu á þeirri lóð nú þegar. Leikskólaþjónusta er nærþjónusta og mikilvægt að hún sé það m.a. með tilliti til umhverfismála, gæða íbúðahverfa sem og annarra þátta. Að foreldrar yfir 100 barna á leikskólaaldri í Öldutúnsskólahverfinu þurfi á hverju ári að sækja slíka nærþjónustu í önnur hverfi bæjarins er óásættanlegt. Hvað varðar viðvarandi offramboð á leikskólaplássum í öðrum hverfum bæjarins er rétt að það verði skoðað nánar hvernig þar megi bregðast við til framtíðar. Við vonumst til að tillögunni verði vel tekið og hún samþykkt í fjárhagsáætlunarvinnunni framundan.
   Adda María Jóhannsdóttir
   Sigrún Sverrisdóttir”

   Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar óháðra lögðu fram eftirfarandi bókun;
   “Á næsta ári, 2019 mun hefja starfsemi sína leikskóli við Skarðshlíðarskóla. Ásamt þeim rýmum sem þar verða og miðað við fyrirliggjandi tölur um íbúaþróun í Hafnarfirði leggur meirihluti fræðsluráðs til að byggt verði við Smáralund tvær leikskóladeildir. Meirihluti Fræðsluráðs leggur till og óskar eftir því við Umhverfis- og framkvæmdarráð að ráðist verði í kostnaðargreiningu og undirbúning að umræddri viðbyggingu. Vinna við undirbúning færi fram á árinu 2019 og stefnt yrði að því að framkvæmdir hæfust árið 2020.”
   Kristín María Thoroddsen
   Margrét Vala Marteinsdóttir
   Kristjana Ósk Jónsdóttir

   Fulltrúi Samfylkingarinnar lagði fram eftirfarandi bókun;
   “Varðandi uppbyggingu leikskóla í Hafnarfirði þá teljum við að það sé afar mikilvægt að þessum skorti á plássum í suðurbæ sé svarað með því að byggja leikskóla innan þess skólahverfis.Leikskólaþjónusta er nærþjónusta og mikilvægt að hún sé það m.a. með tilliti til umhverfismála, gæða íbúðahverfa sem og annarra þátta. Að foreldrar yfir 100 barna á leikskólaaldri í Öldutúnsskólahverfinu þurfi á hverju ári að sækja slíka nærþjónustu í önnur hverfi bæjarins er óásættanlegt að okkar mati.”
   Sigrún Sverrisdóttir

   Formaður fræðsluráðs lagði fram eftirfarandi bókun;
   “Undirrituð, sér ástæðu til að koma með eftirfarandi bókun vegna ásakana fulltrúa Samfylkingarinnar um brot formanns á rétti ráðsmanns til að koma máli á dagskrá ráðsins eftir að hefðbundinn tími væri liðinn. Umræddur ráðsmaður óskar með tölvupósti, sem barst undirritaðri kl. 11 að morgni umrædds fundardags, eftir því að mál sem bókun þessi tilheyrir verði tekið fyrir á dagskrá þrem tímum síðar. Undirrituð segir í svari sínu að hann telji að fyrirvarinn sé stuttur og veit ekki hvort það sé hægt, án þess að taka afgerandi afstöðu í málinu.
   Ráðsmaður óskar ekki eftir því að málið sé tekið fyrir með afbrigðum í upphafi fundar eins og hann bendir á í bókun sinni að sé sinn réttur. Í lok fundar var ákveðið að setja bókun ráðsmanns inn, eins og lög gerðu ráð fyrir. Undirrituð er einnig sökuð um að hafa meinað umræddum ráðsmanni að setja sama mál á dagskrá þann 29 ágúst en beiðnin kom degi fyrir fund fræðsluráðs. Málið var sett á dagskrá þann 29 ágúst, án athugasemda, þar áttu sér stað umræður um málið og voru bæði meiri og minnihluti sammála því að til að geta fjallað um málið yrðu að liggja fyrir upplýsingar um íbúaþróun. Á fundi þann 12 september lá fyrir greining á íbúaþróun og fengu ráðsmenn kynningu á henni og fræðslusviði falið að vinna áfram með málið.
   Undirrituð hefur á þessum mánuðum sem málið kom fyrst fram í bæjarstjórn unnið markvisst að úrvinnslu málsins með fræðslusviði. Fyrir liggur niðurstaða og ákvörðun sem tekin er út frá fyrirliggjandi þörf og út frá heildar hagsmunum ungra hafnfirskra barna þar sem hagkvæmni er einnig höf að leiðarljósi.”
   Kristín Thoroddsen, formaður fræðsluráðs.

  • 1810195 – Fjárhagsáætlun Fræðslu- og frístundaþjónustu 2019

   Yfirferð á fjárhagsáætlun fræðslu- og frístundarþjónustu fyrir fjárhagsárið 2019

   Yfirferð fjárhagsáætlunar fræðslu- og frístundarþjónustu fyrir fjárhagsárið 2019 lögð fram. Meirihluti fræðsluráð samþykkir fjárhagsáætlun fræðslu- og frístundasviðs 2019 og samþykkir að vísa fjárhagsáælun fræðslu- og frístundasviðs til bæjarráðs. Fulltrúar Bæjarlistans og Samfylkingarinnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.

   Fulltrúar minnihluta í fræðsluráði lögðu fram eftirfarandi bókun;
   Í fyrsta lagi: Góð vinna við gerð fjárhagsáætlunar er mikilvægur hluti af vinnu kjörinna fulltrúa. Að geta unnið hana í sátt, með góða yfirsýn og skilning er grundvöllur góðrar stjórnsýslu. Það að gögn berist seint og tímarammi umræðu og vinnslu áætlunarinnar sé jafn þrjöngur og raun ber vitni er kjörnum fulltrúum og bæjarbúum ekki bjóðandi.

   Í öðru lagi: Við hörmum þá ákvörðun að ekki hafi verið gert ráð fyrir stöðugildi sálfræðs fyrir hvern skóla Hafnarfjarðar, inn í fjárhagsáætlun fræðslu- og frístundaþjónustu fyrir fjárhagsárið 2019.

   Teljum við mikilvægt að tryggt verði aðgengi að geðheilbriðgðisþjónstu innan veggja skólanna til að sinna þeim fjölmörgu og áríðandi verkefnum sem þar þarf að vinna. Felst sú vinna m.a. í greiningu á vanda barna, ráðgjöf til foreldra og starfsfólks, stuðningsviðtöl við börn og annarskonar forvarnir.

   Í 2. mgr. 40. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla er beinlínis lögð sú skylda á skólayfirvöld að láta fara fram greiningar á nemendum sem eiga í sálrænum eða félagslegum erfiðleikum sem hafa áhrif á nám þeirra. Ljóst er að sú greiningarvinna sem í dag er unnin, nægir ekki til að grípa strax inn í erfiðleika nemenda eða áður en vandinn verður að veruleika. Vegna þessa geta nemendur fallið aftur úr námslega séð, einangrað sig félagslega sem allt eykur á vanlíðan þeirra. Finni nemandi sig ekki í skóla vegna þeirra sálrænu erfiðleika, sem nemandinn fær ekki bót á, getur það verið greiðasta leiðin inn í heim þunglyndis, kvíða eða þaðan af verra.

   Að mati okkar er það fyrirkomulag að bæta við einum sálfræðing í fullt starf í hvern grunnskóla, ekki of dýrt þegar litið er til þeirra hagsmuna sem þar eru undir. Þurfum við öll að bera ábyrgð á efla allt geðheilbrigði innan skóla Hafnarfjarðarbæjar. Þá fyrst verður hægt að standa við loforð nánast allra flokka um snemmtæka íhlutun.

   Skorum við því á bæjaryfirvöld að breyta afstöðu sinni í þessu máli, sem hægt væri að koma í gagnið strax á fyrstu mánuðum næsta árs.

   Undir þetta rita fulltrúa minnihluta í fræðsluráði:
   Vaka Ágústsdóttir – Viðreisn
   Sigrún Sverrisdóttir – Samfylking
   Birgir Örn Guðjónsson – Bæjarlistinn
   Bjarney Grendal Jóhannesdóttir – Miðflokkurinn

Ábendingagátt