Fræðsluráð

1. desember 2021 kl. 14:00

á fjarfundi

Fundur 481

Mætt til fundar

  • Kristín María Thoroddsen formaður
  • Margrét Vala Marteinsdóttir varaformaður
  • Guðbjörg Oddný Jónasdóttir aðalmaður
  • Birgir Örn Guðjónsson aðalmaður
  • Bjarney Grendal Jóhannesdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Steinn Jóhannsson varamaður
  • Karólína Helga Símonardóttir varaáheyrnarfulltrúi

Auk ofantalinna og undirritaðra sátu fundinn: Fanney D. Halldórsdóttir, sviðsstjóri, Hrund Apríl Guðmundsdóttir, aðstoðarmaður sviðsstjóra, Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla, Guðmundur Sverrisson, deildarstjóri hagdeildar, Guðbjörg Dögg Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi skólastjóra grunnskóla, Anna Sigríður Þorsteinsdóttir, áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara, Arnrún Einarsdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, Sólveig Reynisdóttir, áheyrnarfulltrúi starfsfólks leikskóla, Kristín Ragnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna og Óskar Hafnfjörð Gunnarsson áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna.

Ritari

  • Valgerður Sveinbjörnsdóttir ritari

Auk ofantalinna og undirritaðra sátu fundinn: Fanney D. Halldórsdóttir, sviðsstjóri, Hrund Apríl Guðmundsdóttir, aðstoðarmaður sviðsstjóra, Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla, Guðmundur Sverrisson, deildarstjóri hagdeildar, Guðbjörg Dögg Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi skólastjóra grunnskóla, Anna Sigríður Þorsteinsdóttir, áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara, Arnrún Einarsdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, Sólveig Reynisdóttir, áheyrnarfulltrúi starfsfólks leikskóla, Kristín Ragnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna og Óskar Hafnfjörð Gunnarsson áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna.

  1. Almenn erindi

    • 2111011F – Íþrótta- og tómstundanefnd - 342

      Lögð fram fundargerð 342. fundar íþrótta- og tómstundanefndar.

      Tinna Dahl Christiansen mætti á fundinn undir þessum lið.

    • 2111510 – Íþróttafélagið Fjörður, ósk um styrk

      Úr fundargerð 342. fundar íþrótta-og tómstundanefndarl
      Lagt fram erindi frá Íþróttfélaginu Firði.

      Íþrótta- og tómstundanefnd bendir á að Hafnarfjarðarbær starfrækir nú þegar sjóð sem er ætlað að styrkja íþróttafélög til að veita börnum með fatlanir stuðning á æfingum. Ekki er útlit fyrir að Íþróttafélagið Fjörður hafi sótt um styrk úr þeim sjóði.

      Íþrótta- og tómstundanefnd óskar eftir að ÍBH veiti íþróttafélaginu Firði leiðbeiningar um umsókn styrksins og vísar málinu til fræðsluráðs.

      Tinna Dahl Christiansen mætti á fundinn undir þessum lið.

      Fræðsluráð felur sviðsstjóra mennta og lýðheilssusviðs að finna leiðir til að koma á móts við ósk Íþróttafélags Fjarðar vegna rekstrarvanda tengd áhrifum Covid.

    • 2111573 – Íslenska æskulýðsrannsókin

      Lagður fram tölvupóstur dags. 23. nóvember sl. frá Menntavísindastofnun HÍ um þátttöku í íslensku æskulýðsrannsókninni.

      Fræðsluráð telur og leggur áherslu á mikilvægi þess að könnunin verði áfram lögð fyrir hafnfirsk ungmenni.

    • 11023155 – Skólavogin grunnskólar

      Lögð fram samantekt á niðurstöðum Skólavogarinnar í grunnskólum Hafnarfjarðar

      Lagt fram.

    • 1712117 – Starfshópur um starfsaðstæður í leikskóla

      Drög að erindisbréfi starfshóps lagt fram til kynningar

      Fræðsluráð samþykkir drög að erindisbréfi.

    • 2111551 – Fræðsluráð, foreldraráð í leikskólum

      Tillaga um eflingu foreldraráðs leikskóla lögð fram.

      Fræðsluráð telur að öflugt foreldrastarf í leikskólum jafnt og grunnskólum bæjarins sé einn af lykilþáttum í öflugu skólastarfi. Því hvetur fræðsluráð til þess að tilnefndur verði einn fulltrúi foreldra í hverjum leikskóla bæjarins sem taki sæti í foreldraráði leikskólabarna. Þá óskar fræðsluráð eftir því að skoðaðar verði skyldur og verkefni foreldraráðs af hálfu mennta- og lýðheilsusviðs og foreldraráðs leikskólabarna. Sviðsstjóra falið að fylgja málinu eftir með leikskólastjórum.

    • 2111536 – Dagforeldri, starfsleyfi

      Lagt fram bréf dags. 24. nóvember 2021 um endurnýjað starfsleyfi til daggæslu í heimahúsi fyrir Heiðrúnu Ýr Reynisdóttur.

      Samþykkt.

    • 2111289 – Viðbrögð við hegðun sem ógnar öryggi í skólum

      Ósk Viðreisnar um að óháð og fagleg úttekt verði gerð á verklagi og notkun svokallaðra gulra herbergja í skólum bæjarins lögð fram.

      Viðreisn óskar eftir því að óháð og fagleg úttekt verði gerð á verklagi og notkun svokallaðra gulra herbergja í skólum bæjarins.

      Það hafa komið upp viðkvæm mál í samfélaginu okkar, samfélagi sem við viljum titla sem Barnvænt samfélag. Stjórnvöld, fræðslusvið, starfsmenn og kennarar fengu leiðbeiningu til þess að takast á við ákveðin mál út frá þekkingu og reynslu annarra. Þessir ferlar eru nú gagnrýndir og teljum við í Viðreisn það skyldu stjórnvalda bæjarins að fenginn sé inn fagaðili til að taka verklagið og framkvæmd verklagsins út.
      Við getum ekki tekið fyrir nákvæmlega hvern væri best hægt að á fá til starfsins en eftir að hafa ráðfært okkur við fagfólk þá er einna helst nefnt iðjuþjálfa til starfsins.
      Þessi tillaga okkar er ekki vantraustsyfirlýsing á einn eða neinn. Tilgangur þessarar tillögu er að bæta starfsaðstöðu nemenda, kennara og annars starfsfólks í skólum bæjarins.

      Fulltrúar Samfyklingar, Bæjarlista og Miðflokks taka undir bókun Viðreisnar.

      Fulltrúi Bæjarlistans í fræðsluráði tekur undir bókun Viðreisnar um að óháða úttekt á svokölluðum gulum herbergjum í grunnskólum bæjarins. Ítrekað er að slík úttekt felur á engan hátt í sér yfirlýsingu um vantraust á einn eða neinn heldur tækifæri til að læra og gera úrbætur á umhverfi barna og starfsfólki grunnskóla. Í svari bæjarins til umboðsmanns barna varðandi þessi svokölluðu gulu herbergi kom fram að ofbeldishegðun barna í garð starfsfólk hefur aukist. Telur fulltrúi Bæjarlista ástæðu til að skoða það nánar og fá tölur eða upplýsingar sem styðja þær fullyrðingar. Ef þetta er raunin er nauðsynlegt og hefja markvissa vinnu að forvörnum í þeim málum með tilliti til bættrar velferðar og líðan barna og öryggi starfsmanna.

      Fulltrúar Viðreisnar og Samfylkingar taka undir bókun Bæjarlistans.

      Meirihluti fræðsluráðs felur sviðsstjóra mennta- og lýðheilsusvisð að fá hlutlausa aðila í úttekt á verkferlum um viðbrögð við ofbeldishegðun í grunnskólum.

    • 2105289 – Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2022 og 2023-2025

      Lagðar fram að nýju tillögur að breytingum á fjárhagsáætlun sem vísað var til fræðsluráðs frá bæjarstjórn 10. nóvember 2021.

      Tillaga 5 – Leikskóli í skólahverfi Öldutúnsskóla

      Fulltrúar Samfylkingarinnar endurflytja tillögu um uppbyggingu leikskóla í skólahverfi Öldutúnsskóla.
      Greinargerð:
      Frá því að annar tveggja leikskóla í skólahverfi Öldutúnsskóla var lagður niður hafa fulltrúar Samfylkingarinnar lagt til að hafist verði handa við uppbyggingu nýs leikskóla í hverfinu. Síðustu ár hefur mest skort á leikskólapláss í þessu skólahverfi og foreldrar þurft að keyra börn sín í önnur skólahverfi til að sækja leikskóla. Það er fyrirséð að með breytingum á aldurssamsetningu vegna endurnýjunar í hverfinu og aukinni íbúðauppbyggingu muni þörfin á leikskólaplássum síst fara minnkandi. Það er því mikilvægt að horfa til framtíðar.
      Því leggja fulltrúar Samfylkingarinnar aftur fram tillögu um að hafist verði handa við uppbyggingu á leikskóla í skólahverfi Öldutúnsskóla hið fyrsta. Leikskólar eiga að að vera hluti af nærþjónustu og börnum að standa til boða leikskólapláss í sínu hverfi. Sem fjölskylduvænt samfélag ætti Hafnarfjörður að sjá hag í því að vinna að þessu markmiði og styðja þannig um leið við hugmyndir um þéttingu byggðar og umhverfissjónarmið.

      Meirihluti fræðsluráðs synjar tillögu Samfylkingar og Viðreisnar um byggingu á nýjum leikskóla í skólahverfi Öldutúnskóla. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 er tilgreint að hafinn verði undirbúningur á árinu 2022 að viðbyggingu við Smáralund sem mun koma á móts við fjölgun barna á svæðinu.

      Tillaga 6 – Ráðning forvarnarfulltrúa

      Fulltrúar Samfylkingarinnar endurflytja tillögu um að ráðinn verði forvarnarfulltrúi í fullt starf.
      Greinargerð:
      Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021 lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar fram tillögu um að ráðinn yrði forvarnarfulltrúi. Það hefur ekki verið gert en verkefnum forvarnarfulltrúa bætt á störf fagstjóra frístundar. Þann 16. júní sl. var einnig ákveðið að stofna faghóp sem myndi fylgjast með forvarnarmálum tengdum börnum og unglingum í Hafnarfirði, safna upplýsingum, veita stuðning og samræma aðgerðir. Þetta eru vissulega skref í rétta átt en engu að síður er mikilvægt er að styðja við þessar aðgerðir með ráðningu forvarnarfulltrúa og tryggja þannig forræði á málaflokknum og samfellu í öllu forvarnarstarfi.

      Forvarnarfulltrúi starfar nú frá hausti 2021 í 30% starfi. Verið er að þróa starf fulltrúans og forvarnarteymis innan skrifstofu mennta- og lýheilsusviðs og allra grunnskóla bæjarins. Meirihluti fræðsluráðs leggur til að starf forvarnarfulltrúa fái að þróast með forvarnarteymi áður en annað verði ákveðið. Tillögu því vísað frá.

      Tillaga 7 – Starfsemi ungmennahúsa verði efld

      Fulltrúar Samfylkingarinnar endurflytja tillögu um að starfsmenni ungmennahúsa í Hafnarfirði verði efld.
      Greinargerð:
      Við umræðu um fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar fram tillögu um að starfsemi ungmennahúsa í Hafnarfirði yrði efld með fjölgun stöðugilda. Sú tillaga var felld af fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra. Fulltrúar Samfylkingarinnar telja fulla ástæðu til að endurflytja þessa tillögu nú, enda hefur á síðustu misserum komið í ljós hversu mikilvægt er að huga að andlegri líðan ungs fólks, ekki síst í miðri glímunni við heimsfaraldur Kórónuveirunnar. Ungmennahúsin bjóða upp á tómstundir við hæfi ungs fólks ásamt því að bjóða upp á aðstöðu til afþreyingar og samveru með jafnöldrum í öruggu umhverfi þar sem áhersla er lögð á fjölbreytileika og að allir upplifi sig velkomna.
      Í þessu ljósi er mikilvægt að fjölga stöðugildum og auka rekstrarfé til ungmennahúsanna Hamarsins og Músík og Mótor svo efla megi starf þeirra enn frekar.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og óháðra og Viðreisnar samþykkir ekki aukið stöðugildi né aukið rekstrarfé til Ungmennahúss að svo stöddu og óskar eftir því að teknar veri saman upplýsingar um námskeið og þjónustu á vegum Ungmennahúss ásamt því að taka saman upplýsingar um fjölda ungmenna sem sækja húsið hverju sinni. Lagt er til að í framhaldi verði skoðað hvernig heppilegast er að efla þjónustu við ungmenni og að slíkt samtal verði milli Ungmennahúss og mennta- og lýðheilsusviðs þar sem einnig eru tekin tillit til atriða er tengjast forvörnum. Þá er lagt til að starfsemi Músik og Mótor verði tekin inn í samantektina og stefnumörkunina þar sem starfsemin er samofin og ætti að fléttast inn í heildarstarfsemi ungmennahúss.

      Tillaga Miðflokks
      4) Miðflokkurinn leggur til að sett verði fjármagn til að koma á fót kennslu fyrir fólk af erlendum uppruna þar sem börnum verður tryggð kennsla i sínu móðurmáli og þeim gert kleift að viðhalda menningu síns upprunalands og færni í tungumálinu. Fullorðnum verði veitt íslenskukennsla á mismundandi þyngdarstigum og námskeið í menningu og sögu íslendinga.

      Í minnisblaði sem tekið var fyrir í fræðsluráði og ritað er af þróunarfulltrúa grunnskóla þann 6. ágúst 2021 er fjallað um nemendur með annað móðurmál en íslensku. Þar kemur meðal annars fram að sérstök móðurmálskennsla sé ekki lögbundin en þó er fjallað um mikilvægi þess að nemendur hafi möguleika á að fá tækifæri til að sækja nám og nýta valgreinar í grunnskóla eða fjarnám til slíks. Í minnisblaði kemur einnig fram að mikilvægt sé að taka samtalið um kennslu á öðru móðurmáli en íslensku í stærri hóp og leggur til að Samband Íslenskra sveitarfélaga fjalli um málið. Fræðsluráð leggur því til að sviðsstjóra mennta- og lýðheilsusviðs verði falið að taka málið upp á vettvangi Sambandsins.

      Tillögur Viðreisnar

      1. Að fjármagna að fullu starfsemi leikskóla Hafnarfjarðar. Það er gap á milli lögbundinnar þjónustu leikskóla og þjónustuþörf hafnfirskra barnafjölskyldna. Sú viðbótarþjónusta er ófjármögnuð sem hefur skapað erfiðleika við mönnun leikskólanna. Fjölgun stöðugilda virðist óhjákvæmileg vegna styttingar vinnuviku og sumaropnunar.

      Mönnun leikskóla í Hafnarfirði er unnin út frá leikskólalíkani sem ákvarðar fjölda starfsmanna og fjármagn til hvers leikskóla hverju sinni. Í leikskólalíkaninu er gert ráð fyrir styttingu vinnuvikunnar, aukins undirbúningstíma, námssamningum og sumaropnun. Meirihluti fræðsluráðs telur því að leikskólar bæjarins séu að fullu fjármagnaðir hverri stundu og því ekki þörf á að samþykkja tillöguna og vísar henni frá.

      5. Vellíðan barna í grunnskóla á alltaf að vera forgangsmál. Viðreisn leggur til að bætt verði við stöðugildi sérfræðings á fræðslusviði t.a.m. þroskaþjálfa, talmeinafræðings eða iðjuþjálfa. Í fjárhagsáætlun ársins 2022 er lagt til að fjármagn til aðkeyptar þjónustu sérfræðinga verði aukið úr 14 miljónum króna í 20 miljónir, fyrir iðjuþjálfa, talmeinafræðinga og sálfræðinga líkt og tillaga Viðreisnar fjallar um.

      Meirihluti fræðsluráðs lítur því svo á að tillagan sé nú þegar inn í drögum að fjárhagsáætlun sem er til samþykktar í bæjarstjórn þann 8 desember. Tillögu þessari er því vísað frá.

      6. Bætt verði við stöðugildi sálfræðings hjá Brúnni.

      Verklag Brúarinnar hefur nú þegar náð að festast í sessi og sannað gildi sitt. Nú eru 5 stöðugildi í fjölskyldu- og skólaþjónustuteymi sem fylgir eftir innleiðingu og verkferlum Brúarinnar. Á fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir auknu fjármagni í sérfræðiþjónustu til að styðja við börn og fjölskyldur. Ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna taka gildi um áramótin og er ætlunin að fjármagn frá ríki fylgi umræddum lögum. Í ljósi þessa er telur meirihluti fræðsluráðs ekki tímabært að bæta við stöðugildi sálfræðings hjá Brúnni og synjar því tillögu Viðreisnar.

    • 2012216 – Sundstaðir opnunartími jól og áramót

      Lögð fram tillaga forstöðumanns sundstaða um aukna opnun sundstaða yfir jólahátíðina.

      Fræðsluráð samþykkir tillögu um aukna opnun sundstaða yfir jólahátíðina.

Ábendingagátt