Fræðsluráð

2. nóvember 2022 kl. 14:00

í Krosseyri, Linnetsstíg 3

Fundur 500

Mætt til fundar

 • Kristín María Thoroddsen formaður
 • Hilmar Ingimundarson aðalmaður
 • Bjarney Grendal Jóhannesdóttir varaformaður
 • Kolbrún Magnúsdóttir aðalmaður
 • Gauti Skúlason aðalmaður
 • Karólína Helga Símonardóttir áheyrnarfulltrúi

Auk ofantalinna og undirritaðra sátu fundinn: Árný Steindóra Steindórsdóttir, sviðsstjóri, Hrund Apríl Guðmundsdóttir, aðstoðarmaður sviðsstjóra, Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir, þróunarfulltrúi leikskóla, Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi, Lars Jóhann Imsland Hilmarsson, áheyrnarfulltrúi skólastjóra grunnskóla, Margrét Össurardóttir, áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara, Særún Þorláksdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, Aldís Dröfn Stefánsdóttir, áheyrnarfulltrúi starfsfólks leikskóla, Kristín Blöndal Ragnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna og Margrét Thelma Líndal áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna.

Ritari

 • Valgerður Sveinbjörnsdóttir ritari

Auk ofantalinna og undirritaðra sátu fundinn: Árný Steindóra Steindórsdóttir, sviðsstjóri, Hrund Apríl Guðmundsdóttir, aðstoðarmaður sviðsstjóra, Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir, þróunarfulltrúi leikskóla, Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi, Lars Jóhann Imsland Hilmarsson, áheyrnarfulltrúi skólastjóra grunnskóla, Margrét Össurardóttir, áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara, Særún Þorláksdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, Aldís Dröfn Stefánsdóttir, áheyrnarfulltrúi starfsfólks leikskóla, Kristín Blöndal Ragnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna og Margrét Thelma Líndal áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna.

 1. Almenn erindi

  • 1911025 – Ástundunarreglur í grunnskólum Hafnarfjarðar

   Lagðar fram að nýju til afgreiðslu ástundunarreglur í grunnskólum Hafnarfjarðar.

   Fræðsluráð samþykkir ástundunarreglur í grunnskólum Hafnarfjarðar og vísar til frekara samþykkis bæjarstjórnar.

  • 2210356 – Viðbrögð í málum er varða einelti og ofbeldi í grunnskólum

   Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Samfylkingar sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar þann 26. október sl.

   Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fela fræðsluráði nú þegar að undirbúa og skipuleggja fræðsluátak fyrir grunnskólanemendur í Hafnarfirði, sem beinist gegn ofbeldi og einelti barna og ungmenna í skólum og utan skólatíma. Markmið átaksins verði að skapa vitundarvakningu í bænum hjá ungmennunum sjálfum, foreldrum þeirra og öðrum bæjarbúum gagnvart ofbeldishegðun og einelti. Að átakinu verði kallaðari sérfræðingar, skólayfirvöld, íþróttafélögin í bænum, æskulýðsfélög, Foreldraráð Hafnarfjarðar, foreldrafélög grunnskólanna og Ungmennaráð Hafnarfjarðar og aðrir hlutaðeigandi aðilar. Nemendafélög skólanna verði virkir þátttakendur í átakinu.

   Fræðsluráð felur mennta- og lýðheilsusviði að leiða áfram vinnu í samræmi við ofangreinda bókun bæjarstjórnar. Þá leggur fræðsluráð til að sviðið kalli til þá aðila sem það telur að eigi að koma að málum en ekki eru tilgreindir hér. Fræðsluráð hvetur mennta- og lýðheilsusvið til að fá fulltrúa frá leikskólum í Hafnarfirði, Tækniskólanum og Flensborgarskóla einnig með.

  • 2210559 – Störf fræðsluráðs

   Lögð fram beiðni frá áheyrnarfulltrúa grunnskólakennara.

   Ræða þarf hlutverk kjörinna fulltrúa í fræðsluráði og lögmæti þess að boðaðir séu ekki allir á þá sem hafa seturétt á fundinum, þar á ég við til að mynda við umræður um fjárhagsáætlun.

   Fyrirspurn fulltrúa grunnskólakennara vísað til bæjarlögmanns.

  • 2210246 – Ungmennaráð, tillögur 2022, betri kynfræðsla í grunnskólum

   Lögð fram að nýju tillaga ungmennaráðs um endurskoðun á kynfræðslu í grunnskólum Hafnarfjarðar svo allir nemendur fái betri fræðslu fyrr á skólagöngunni.

   Fræðsluráð tekur undir mikilvægi þess að kyn- og kynjafræðsla sé gerð góð skil í grunnskólum Hafnarfjarðar. Fræðsluráð vekur athygli á að samtal er nú þegar hafið milli þróunarfulltrúa grunnskóla og sérfræðings sem mun hafa umsjón með því að útbúa kennsluskrá og aðstoða við kennsluefni handa 1.-10. bekk í Hafnarfirði.

   Bókun foreldraráðs grunnskólabarna í Hafnarfirði

   Foreldraráð grunnskólabarna Hafnarfjarðar fyllist stolti af fulltrúum unga fólksins í ungmennaráði Hafnarfjarðar og tekur undir óskir þeirra um að endurskoða kynfræðslu í skólum. Því miður virðist það vera happ og glapp hversu vel kynfræðslukennslu er sinnt en samkvæmt rannsóknum er ávinningur góðrar kynfræðslu gríðarlegur. Má þar nefna að góð kynfræðsla dregur úr áhættuhegðun í kynlífi, eykur líkur á notkun kynsjúkdóma- og getnaðarvarna, seinkar fyrstu samförum, eykur sjálfsöryggi ungs fólks og stuðlar að betra samtali milli foreldra/forráðafólks og ungmenna um kynheilbrigði.

   Við vitum flest hver staðan er í framhaldsskólum í dag þar sem nemendur krefjast þess að betur sé tekið á kynferðisbrotamálum. Kynfræðsla leikur lykilhlutverki þar í fyrirbyggjandi aðgerum sem hlýtur að vera það sem við viljum öll, að koma í veg fyrir brot. Byrjum snemma!

   Fh. foreldraráðs grunnskólabarna
   Kristín Blöndal Ragnarsdóttir

  • 2210245 – Ungmennaráð, tillögur 2022, skapandi sumarstörf allt árið um kring

   Lögð fram að nýju tillaga ungmennaráðs um að bærinn bjóði upp á skapandi störf fyrir ungmenni allt árið um kring, að fyrirmynd Skapandi sumarstarfa sem boðið er upp á hjá Vinnuskóla Hafnarfjarðar.

   Fræðsluráð samþykkir ekki að svo stöddu tillögu ungmennaráðs að hafa vinnuskólann allt árið. Þá hvetur fræðsluráð þau ungmenni sem náð hafa þeim aldri sem til þarf að sækja um þau störf sem í boði eru í starfsstöðum á vegum bæjarins.

  • 2210244 – Ungmennaráð, tillögur 2022, betri og hollari skólamat fyrir börn

   Lögð fram að nýju tillaga ungmennaráðs um ráðist verði í endurskoðun á fyrirkomulagi skólamáltíða í leik- og grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar með því markmiði að bjóða upp á hollari mat og meira grænmetisfæði.

   Fræðsluráð felur mennta- og lýðheilsusviðs að gera könnun meðal barna í grunnskólum Hafnarfjarðar um viðhorf til hádegismatar sem í boði er í skólunum. Fræðsluráð leggur áherslu á að grænkerafæði sé skoðað sérstaklega í því tilliti að auka úrval innan mánaðar og skoða matarsóun í grunnskólum.

   Bókun foreldraráðs grunnskólabarna í Hafnarfirði

   Foreldraráð grunnskólabarna tekur undir með ungmennaráði og hvetur fræðsluráð til að leita leiða til að betrumbæta skólamáltíðir barna t.d. með því að draga úr hlutfalli unna kjötvara. Einnig leggur foreldraráð Hafnarfjarðar til að Heilsubærinn okkar bjóði nemendum upp á heilnæman og hollan mat sem eldaður er á staðnum, í mötuneytum grunnskólanna.

   Fh. foreldraráðs grunnskólabarna
   Kristín Blöndal Ragnarsdóttir

  • 2210243 – Ungmennaráð, tillögur 2022, staða hinsegin ungmenna í Hafnarfirði

   Lögð fram að nýju tillaga ungmennaráðs um að bærinn ráðist í aðgerðir til að bæta stöðu hinsegin ungmenna í Hafnarfirði.

   Fræðsluráð felur mennta- og lýðheilsusviði að aðgengi að ókyngreindum salerni í grunnskólum Hafnarfjarðar sé tryggður í öllum skólum. Fræðsluráð leggur til að fordómafræðsla sé í öllum grunnskólum og má tengja þá fræðslu við kyn- og kynjafræðslu sem unnið er að innleiða. Þá leggur fræðsluráð til að jafnhliða þessu verði fordómafræðsla fyrir kennara og aðra starfsmenn skóla. Fræðsluráð leggur til að umræða um hinsegin mál í grunnskólum sé tekin á vettvangi skólamála Hafnarfjarðar.

   Bókun foreldraráðs grunnskólabarna í Hafnarfirði

   Foreldraráð grunnskólabarna tekur undir með ungmennaráði og óskar eftir því að leitað verði leiða til að gera skóla bæjarins hinseginvæna þar sem öll börn telja sig velkomin og jafn mikilvæg og önnur í skólastarfinu. Því miður erum við enn að heyra fréttir af sláandi framkomu og fordómum í garð hinsegin barna og það á ekkert barn að þurfa að líða fyrir það hver það er. Einnig er mikilvægt að starfsfólk og kennarar skóla fái reglulega fræðslu um hinsegin mál, ekki bara við upphaf starfsferils þar sem stöðugt þarf að minna á nýjar áherslur og uppfæra námsefni og kennsluaðferðir í takt við breytta tíma.

   Fh. foreldraráðs grunnskólabarna
   Kristín Blöndal Ragnarsdóttir

  • 2210242 – Ungmennaráð, tillögur 2022, samráð við ungmennaráð Hafnarfjarðar

   Lögð fram að nýju tillaga ungmennaráðs um að bæjarstjórn hafi meira samráð við ungmennaráð Hafnarfjarðar og hleypi því í auknum mæli að borðinu þegar verið er að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á ungmenni í bænum.

   Fræðsluráð leggur til að ungmennaráð fundi með fræðsluráði í upphafi hvers árs til að ræða tillögur sem ungmennaráð hefur lagt fram í bæjarstjórn og vísað hefur verið til fræðsluráðs. Fræðsluráð leggur áherslu á að þess á milli sé gott samtal og ávallt sé hægt að boða kjörna fulltrúa á fund ungmennaráðs sé þess óskað. Fræðsluráð mun óska sérstaklega eftir umsögn ungmennaráðs vegna mála er varða ungmenni í Hafnarfirði.

  • 2210239 – Ungmennaráð, tillögur 2022, aðstaða fyrir valgreinar í grunnskólum Hafnarfjarðar

   Lögð fram að nýju tillaga ungmennaráðs um að boðið verði upp á betri aðstöðu fyrir valgreinar í grunnskólum Hafnarfjarðar.

   Fræðsluráð tekur undir mikilvægi þess að valgreinar séu fleiri og að aðstaða sé bætt. Fræðsluráð bindur vonir við að þegar nýsköpunar- og tæknisetur í Menntasetrinu við lækinn verður komið í gagnið verði hægt að taka þar á móti grunnskólanemum og halda úti fjölbreyttari valfögum en eru í dag. Þá leggur fræðsluráð til að þegar stofnaður verður starfshópur, sem til stendur að gera, um endurskoðun á Músik og mótor, verði hugað að því að nýta húsnæði og innviði þess betur til að geta boðið upp á valgreinar sem allir grunnskólar geti haft aðgang að. Lagt er til að ungmennaráð hafi aðgang að samtalinu þegar þar að kemur.

  • 2210238 – Ungmennaráð, tillögur 2022, samræmt einkunnakerfi í grunnskólum Hafnarfjarðar

   Lögð fram að nýju tillaga ungmennaráðs um að einkunnakerfi í grunnskólum Hafnarfjarðar sé samræmd svo það sé á hreinu hvað hver bókstafur í einkunnakerfinu merkir.

   Fræðsluráð felur þróunarfulltrúa grunnskóla að taka saman gögn er málið varðar og skoða hvort ekki sé samræmi milli einkunnargjafar í öllum grunnskólum Hafnarfjarðar.

  • 2210234 – Ungmennaráð, tillögur 2022, aukin áhrif ungmennaráðs Hafnarfjarðar

   Lögð fram að nýju tillaga ungmennaráðs um að ungmennaráð fái áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt í fræðsluráði bæjarins.

   Fræðsluráð telur það mikilvægt að ungmennaráð Hafnarfjarðar hafi sterka rödd þegar fjallað er um málefni ungmenna í Hafnarfirði. Sökum þess vill fræðsluráð fela mennta- og lýðheilsusviði að taka saman minnisblað um það hvernig setu ungmenna er háttað í ráðum og nefndum hjá nágrannasveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Í framhaldinu mun fræðsluráð fjalla aftur um málið út frá þeim upplýsingum sem koma fram í minnisblaðinu.

   Bókun foreldraráðs grunnskólabarna í Hafnarfirði

   Foreldraráð grunnskólabarna í Hafnarfirði tekur undir það að tillögur ungmennaráðs hafi meira vægi, áhrif þeirra innan samfélagsins verði aukin og betur hlustað á þau.

   Fh. foreldraráðs grunnskólabarna
   Kristín Blöndal Ragnarsdóttir

  • 2210549 – Töff - forvarnarverkefni í grunnskólum

   Stýrihópur heilsubæjarins Hafnarfjörður hefur verið í viðræðum við Björn Má Sveinbjörnsson Brink um fræðsluerindi í unglingabekki þar sem áherslan er lögð á styrkleika, sjálfstraust og sjálfsvinnu unglinga.

   Fræðsluráð þakkar kynninguna. Verkefnið „Töff“ sem nú fer af stað sem tilraunaverkefni í tveimur grunnskólum í Hafnarfirði er að mati fræðsluráðs mikilvægt verkfæri til viðbótar við þær kynningar og námskeið sem nú þegar eru í boði fyrir Hafnfirsk grunnskólabörn. Verkefninu er ætlað að efla sjálfstraust barna draga fram styrkleika þeirra í námi og leik. Tekið verður á kostum og göllum samfélagsmiðla, birtingarmyndum ofbeldis og almennum samskiptum. Fræðsluráð vonar að í nánustu framtíð verði hægt að hefja verkefnið í öllum grunnskólum Hafnarfjarðar.

  • 2209038F – Íþrótta- og tómstundanefnd - 359

   Lögð fram fundargerð 359. fundar íþrótta- og tómstundanefndar.

  • 2206160 – Skipulag leikskóladagsins

   Lögð fram fundargerð 1. fundar starfshópsins.

   Lagt fram.

  • 2011220 – Skólalóðir

   Lögð fram eftirfarandi bókun áheyrnarfulltrúa grunnskólakennara.

   Samkvæmt lögum um grunnskóla er tóku gildi 1. júlí 2008. Segir VI. kafla Skólahúsnæði og aðstaða í grunnskólum.
   Grunnskólahúsnæði og skólalóðir skulu uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í lögum þessum, lögum um vinnuvernd og aðalnámskrá grunnskóla. Húsnæði og allur aðbúnaður skal taka mið af því að tryggja öryggi og vellíðan nemenda og starfsfólks, svo sem hvað varðar hentugan húsbúnað, hljóðvist, lýsingu og loftræstingu.
   Fulltrúi grunnskólakennara sem á sæti í fræðsluráði Hafnarfjarðar skorar á embættismenn og pólitískt kjörna fulltrúa bæjarins að beita sér fyrir því að fjármagn til viðhalds skólabygginga og skólalóða verði aukið. Það lýsir einbeittum vilja bæjarins að úthluta ár eftir ár litlum fjármunum á mannvirki sem telur þúsundir fermetra og óeðlilegt að viðhald sé nánast ekki neitt. Dæmi eru um míglek þök og glugga í skólum, mygla hefur komið upp og slysagildrur á skólalóðum. Áður en allt er komið í óefni þá þarf bærinn að bregðast við.

   Erindi áheyrnarfulltrúa grunnskólakennara vísað til umhverfis- og framkvæmdaráðs.

   Fulltrúar Viðreisnar og Samfylkingar taka undir mikilvægi þess að viðhald á skólahúsnæði bæjarins séu tekin föstum tökum. Ítrekum ákvörðun fræðsluráðs á fundi 494. fundi ráðsins þann 24. ágúst sl. vísum hér í bókunina.

   “Fulltrúi Viðreisnar leggur fram tillögu um gerð verði framkvæmdaáætlun á viðhaldi skólahúsnæði og skólalóðir í bænum. Í dag fara starfsmenn sviðsins yfir þörf um viðhald og endurnýjun á skólahúsnæðum bæjarins sem og skólalóðum, greiningin er því til staðar. Fulltrúi Viðreisnar telur að ef sett er framkvæmadaáætlun til komandi fjögurra ára með eyrnamerktu fé til verksins þá fái bæjarbúar skýrari sýn á hvað er á áætlun og hvenær það sé tilbúið. Einnig telur fulltrúi Viðreisnar að uppsöfnuð þörf sýnir að það hefur ekki verið lagt nægjanlega mikið fjármagn í þennan lið í allt of langann tíma, með framkvæmdaáætlun gefist tækifæri til innspýtingar í þennan lið. Því telur fulltrúi Viðreisnar mikilvægt að sé framkvæmdaáætlunin samþykkt fái hún viðunandi fjármagn sem sé sértaklega eyrnamerkt í þessar framkvæmdir svo hægt sé að svara gífurlega uppsafnaðri þörf á viðhaldsframkvæmda og endurnýjun við skólahúsnæði og skólalóðir í bænum.
   Greining starfsmanna verði sett upp á tvo vegu, annars vegar með fjögurra ára framkvæmdaáætlun um viðhald og endurnýjun skólahúsnæði í bænum og hinsvegar framkvæmdaáætlun um viðhald og endurýnjun skólalóða bæjarins. Í áætluninni verði skýrt hvað verði gert fyrir hvaða ár og í fjárhagsáætlun bæjarins verði fjármagn eyrnamerkt í þess verkefni.
   Fræðsluráð tekur undir mikilvægi þess að leik- og grunnskólalóðir séu yfirfarnar og vekur athygli á því að þann 15. júní lagði meirihluti fræðsluráðs fram erindi þess efnis að gerð yrði úttekt á öllum skólalóðum sem vísað var til umhverfis- og framkvæmdasviðs. Fræðsluráð mun fjalla um þá úttekt þegar hún berst. Tillögur um úrbætur, viðhald og nýjar framkvæmdir verða ræddar í umræðu um fjárhagsáætlun. Meirihluti tekur undir með fulltrúa Viðreisnar að gerð verði langtímaáætlun og leggur til að tillagan verði rædd sérstaklega þegar að umræðu um fjárhagsáætlun kemur.”

Ábendingagátt