Umhverfis- og framkvæmdaráð

1. desember 2021 kl. 08:00

í fundarherbergi Norðurhellu 2

Fundur 392

Mætt til fundar

 • Helga Ingólfsdóttir formaður
 • Árni Rúnar Árnason varaformaður
 • Friðþjófur Helgi Karlsson aðalmaður
 • Helga Björg Arnardóttir aðalmaður
 • Arnhildur Ásdís Kolbeins áheyrnarfulltrúi
 • Þórey Svanfríður Þórisdóttir áheyrnarfulltrúi
 • Lára Janusdóttir varamaður

Auk ofangreindra ráðsmanna sátu fundinn: Helga Stefánsdóttir forstöðumaður, Guðmundur Elíasson umhverfis- og veitustjóri og Sigurður Haraldsson sviðsstjóri.

Helga Ingólfsdóttir vék af fundi eftir afgreiðslu fjórða dagskrárliðar kl. 9:30.

Ritari

 • Anna María Elíasdóttir skrifstofustjóri

Auk ofangreindra ráðsmanna sátu fundinn: Helga Stefánsdóttir forstöðumaður, Guðmundur Elíasson umhverfis- og veitustjóri og Sigurður Haraldsson sviðsstjóri.

Helga Ingólfsdóttir vék af fundi eftir afgreiðslu fjórða dagskrárliðar kl. 9:30.

 1. Almenn erindi

  • 2105289 – Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2022 og 2023-2025

   Tekið fyrir að nýju tillögur sem vísað var til umfjöllunar í umhverfis- og framkvæmdaráði frá fundi bæjarstjórnar 10.11.2021. Einnig tekin til umræðu bókun fulltrúa Samfylkingarinnar um endurflutta tillögu vegna niðurgreiðslu strætókorta fyrir börn að 18 ára aldri.

   5. tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar: Leikskóli í skólahverfi Öldutúnsskóla.
   Fulltrúar Samfylkingarinnar endurflytja tillögu um uppbyggingu leikskóla í skólahverfi Öldutúnsskóla.
   Greinargerð:
   Frá því að annar tveggja leikskóla í skólahverfi Öldutúnsskóla var lagður niður hafa fulltrúar Samfylkingarinnar lagt til að hafist verði handa við uppbyggingu nýs leikskóla í hverfinu. Síðustu ár hefur mest skort á leikskólapláss í þessu skólahverfi og foreldrar þurft að keyra börn sín í önnur skólahverfi til að sækja leikskóla. Það er fyrirséð að með breytingum á aldurssamsetningu vegna endurnýjunar í hverfinu og aukinni íbúðauppbyggingu muni þörfin á leikskólaplássum síst fara minnkandi. Það er því mikilvægt að horfa til framtíðar.
   Því leggja fulltrúar Samfylkingarinnar aftur fram tillögu um að hafist verði handa við uppbyggingu á leikskóla í skólahverfi Öldutúnsskóla hið fyrsta. Leikskólar eiga að að vera hluti af nærþjónustu og börnum að standa til boða leikskólapláss í sínu hverfi. Sem fjölskylduvænt samfélag ætti Hafnarfjörður að sjá hag í því að vinna að þessu markmiði og styðja þannig um leið við hugmyndir um þéttingu byggðar og umhverfissjónarmið.

   Bókun vegna 5. tillögu Samfylkingar:
   Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra í ráðinu bóka eftirfarandi: Umhverfis- og framkvæmdaráð undirbýr og hefur umsjón með framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins. Rýning á þörf fyrir leikskóla fer fram á fræðslusviði í samráði við embættismenn umhverfis- og skipulagssviðs.

   Fulltrúar Viðreisnar, Bæjarlista, Samfylkingar og Miðflokks óska eftir greiningu á þörf fyrir leikskóla við Öldutún

   9. tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar: Aukin lýsing við gangbrautir.
   Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til að lýsing verði aukin við gangbrautir.
   Greinargerð:
   Í auknum mæli notar fólk vistvæna ferðamáta og ferðast gangandi eða á hjólum af ýmsu tagi. Lýsingar við gangbrautir í bænum eru misgóðar og mikilvægt að bæta lýsingu þar sem þess er þörf til að auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Því leggja fulltrúar Samfylkingarinnar til að ráðist verði í endurbætur á lýsingu við gangbrautir þar sem henni er ábótavant.

   Bókun vegna 9. tillögu Samfylkingar:
   Umhverfis- og framkvæmdaráð tekur undir tillöguna og vísar henni til úrvinnslu á sviðinu.

   2. tillaga fulltrúa Miðflokksins:
   Miðflokkurinn leggur til að farið verði í átak í að merkja bæjarhluta með sögulegri fræðslu um tilurð hvers svæðis. Um er að ræða svipaða útfærslu og fólk fær nú á strandstígnum. Kostnaður við hvert skilti með söguútskýringu af hálfu Byggðasafnsins er um 300.000 kr. Er lagt til að einstakir bæjarhlutar t.d. Vellirnir og Norðurbærinn fái tvö slík skilti hvort hverfi við fjölfarna göngustíga. Lagt er til að útbúin verði 8 slík skilti. Heildarkostnaður yrði því 2,4 milljónir króna.

   Bókun vegna 2. tillögu Miðflokksins:
   Umhverfis- og framkvæmdaráð vísar tillögu Miðflokksins til úrvinnslu á sviðinu. Ef ákveðið verður að fara í verkefnið verði það kostað af Umhverfispotti.

   3. tillaga fulltrúa Miðflokksins:
   Miðflokkurinn leggur til að veitt sé 10 milljónum króna til hreinsunar gatna til að draga úr svifryki í andrúmslofti að vetrarlagi í bænum. Einn mesti orsakavaldur svifriks er slit sem bílar valda á gatnakerfinu ekki síst bílar á nagladekkjum. Á köldum dögum og þegar vindur er hægur mælist styrkur svifryks of oft yfir heilsuverndarmörkum. Við því verður að bregðast. Með átaki við þrif gatna með sérhæfðum götuþvottasóparabílum má draga verulega úr svifryki í andrúmslofti og fækka dögum þar sem svifryk fer yfir heilsuverndarmörk, íbúum til heilla.

   Bókun vegna 3. tillögu Miðflokksins:
   Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra hafnar tillögunni. Aukin áhersla er nú þegar á hreinsun gatna til að draga úr svifryki með hærri tíðni í hreinsun sem hefur kallað á aukið fjármagn nú þegar. Tillögu um enn aukið fjármagn í málaflokkinn er því hafnað.

   2. tillaga fulltrúa Viðreisnar:
   50 milljónir til að bæta hjóla og göngustíga. Það er andvirði smærri gerðar hringtorgs. Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi fjölbreyttari umferðarmáta eins og rafhjóla o.fl.

   Bókun vegna 2. tillögu Viðreisnar:
   Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra hafnar tillögu um aukið fjármagn til að bæta hjóla og göngustíga. Á fjárfestingaáætlun ársins 2022 er nú þegar gert ráð fyrir 50 milljónum til að bæta göngu og hjólastíga.

   Fulltrúar Viðreisnar, Bæjarlista, Samfylkingar og Miðflokks harma afstöðu meirihlutans um að ekki sé sett meira fé í málaflokkinn þar sem gífurleg þörf er til staðar í sveitarfélaginu.

   3. tillaga fulltrúa Viðreisnar:
   100 milljónum aukalega verði forgangsraðað til viðhalds á fasteignum bæjarins. Frestun á viðhaldi fasteigna mun eingöngu auka þann kostnað á næstu árum.
   Bókun vegna 3. tillögu Viðreisnar:
   Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra hafnar tillögunni. Verulega hefur verið bætt í fjármagn vegna viðhalds fasteigna bæjarsins og á næsta ári er gert ráð fyrir 400 miljónum í ýmis verkefni þar að lútandi. Auk þess eru fjölmörg stærri viðhaldsverkefni flokkuð sem fjárfesting þannig að umtalsvert hærri fjárhæð er varið til málaflokksins í heild.

   4. tillaga fulltrúa Viðreisnar:
   Færa 20 milljónir til umhverfismála og trjáræktar.

   Bókun vegna 4. tillögu Viðreisnar:
   Umhverfis- og framkvæmdaráð vísar tillögu Viðreisnar til úrvinnslu á sviðinu. Verði niðurstaðan sú að fara í verkefnið að hluta til þá verði það kostað af Umhverfispotti.

   8. tillaga fulltrúa Viðreisnar:
   140 milljónir í Betri Hafnarfjörð þar sem hvert hverfi fengi 20 milljónir til að ráðstafa í íbúakosningu. Þetta er ekki viðbót á framkvæmdafé heldur tilfærsla þar sem íbúar hafa meiri áhrif á forgangsröðun verkefna í sínu hverfi

   Bókun vegna 8. tillögu Viðreisnar:
   Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra hafnar tillögunni. Með virku samtali kjörinna fulltrúa við íbúa bæjarins og ábendingagátt sem er í góðri þróun ásamt íbúasíðum á facebook í öllum hverfum bæjarins má ætla að íbúalýðræði í Hafnarfirði sé í góðum farvegi.

   Fulltrúar Viðreisnar, Bæjarlista, Samfylkingar og Miðflokks lýsa vonbrigðum sínum með afstöðu meirihlutans til málsins.

   8. tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar:
   Fulltrúar Samfylkingarinnar endurflytja tillögu um niðurgreiðslu á strætókortum fyrir börn að 18 ára aldri.
   Greinargerð:
   Mikilvægt er að jafna og auðvelda aðgengi ungmenna að tómstundum. Niðurgreidd stætókort hvetja einnig til aukinnar notkunar á almenningssamgöngum og styðja þannig við umhverfissjónarmið. Kostnaðarmat hefur áður verið gert og leggja fulltrúar Samfylkingarinnar til að það verði uppfært og tillagan tekin aftur til umfjöllunar.

   Bókun vegna 8. tillögu Samfylkingar:
   Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra hafnar tillögunni.
   Hafnarfjarðarbær er aðili að Strætó bS. sem nýlega hefur samþykkt breytingar á gjaldskrá og jafnframt tekið í notkun nýtt greiðslukerfi sem býður uppá nýja afsláttarmöguleika. Kerfið er enn í þróun og athugasemdir vegna breytinga á gjaldskrá eru til skoðunar hjá stjórn Strætó sem er bundin af samþykktum. Eigendastefna Strætó felur í sér kröfu um að 40% af rekstrarkostnaði komi frá farmiðasölu og raunstaðan fyrir Covid var í kringum 30%. Tillaga stjórnar Strætó að gjaldskrá tekur mið af eigendastefnu Strætó bS.

   Umhverfis- og skipulagssvið tekur undir bókun meirihlutans.

   Fulltrúi Samfylkingar í umhverfis- og framkvæmdaráði bókar:
   Mikil hækkun á ungmennakortum hjá Strætó Bs. eru mikil vonbrigði. Fulltrúi Samfylkingarinnar skorar á fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem mynda meirihluta í ráðinu að beita sér á eigendavettvangi Strætó BS. fyrir því, í það minnsta að sú hækkun sé dregin til baka. Mikilvægt væri að lækka verð á fargjöldum ungmenna og helst að þau verði að fullu niðurgreidd. Með þeim hætti væri m.a. verið að jafna og auðvelda aðgengi ungmenna að tómstundum. Niðurgreidd strætókort hvetja einnig til aukinnar notkunar á almenningssamgöngum og styðja þannig við umhverfissjónarmið.

  • 2001456 – Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2021 og 2022-2024

   Tekið fyrir að nýju.

   Lagt fram.

  • 1909131 – Strætó bs, nýtt leiðakerfi á höfuðborgarsvæðinu

   Fulltrúar Strætó mæta til fundarins og kynna nýtt leiðarkerfi á höfuðborgarsvæðinu.

   Umhverfis- og framkvæmdaráð þakkar kynninguna.

  • 2108625 – Umferðarhraði í Hafnarfirði

   Stefán Finnsson samgönguverkfræðingur mætir til fundarins og kynnir aðferðarfræði varðandi lækkun á hámarkshraða.

   Helga Ingólfsdóttir vék af fundi.

   Umhverfis- og framkvæmdaráð þakkar kynninguna og felur sviðinu að taka til skoðunar hámarkshraða í húsagötum og stofnbrautum í bænum.

  • 2106263 – Hafnarfjarðarbær, heildstæð stefnumótun, heimsmarkmið

   Arnar Pálsson mætir til fundarins og fer yfir vinnu varðandi heildstæða vinnu við stefnumótun.

   Tekið til umræðu.

  • 1808351 – Suðurbæjarlaug, framkvæmdir

   Lögð fram tilboð hönnuða í Suðurbæjarlaug.

   Umhverfis- og framkvæmdaráð heimilar umhverfis- og skipulagssviði að leitað verði samninga við lægstbjóðanda, Úti og inni sf.

  • 1106043 – Gatnalýsing í Hafnarfirði

   Lögð fram niðurstaða útboðs á viðhaldi gatnalýsingar.

   Umhverfis- og framkvæmdaráð heimilar umhverfis- og skipulagssviði að leita samninga við lægstbjóðanda, Raflína ehf.

  • 1809045 – Úrbætur í fráveitumálum, tillögur/áætlanir sveitarstjórna

   Lögð fram til kynningar skýrsla Eflu verkfræðistofu um Viðtakamat Fráveitu dagsetta í nóvember 2021.

   Lagt fram.

  Fundargerðir

Ábendingagátt