Furðufiskar á Flensborgarhöfn

Fréttir

Um 400 hafnfirsk dorgveiðibörn á aldrinum 6-12 ára munduðu veiðarfærin á Flensborgarhöfn í mildu og góðu veiðiveðri í dag. Þau hafa aldrei verið fleiri á þessum árlega viðburði.

Koli, rauðmagi og hrognkelsi á stöngunum

Um 400 hafnfirsk dorgveiðibörn á aldrinum 6-12 ára munduðu veiðarfærin á Flensborgarhöfn í mildu og góðu veiðiveðri í dag. Þau kepptust þar um að veiða furðulegasta fiskinn, stærsta fiskinn og flestu fiskana. Vinningshafar fengu veiðistöng og bikar að gjöf fyrir aflann og árangurinn.

Metaðsókn svo útbúin voru fleiri veiðifæri á staðnum

Þessi árlega dorgveiðikeppni leikjanámskeiðanna í Hafnarfirði, sem jafnframt er opin öllum hafnfirskum börnum á aldrinum 6-12 ára, er ein fjölmennasta dorgveiðikeppni landsins.

„Við höfðum í ár undirbúið um 400 veiðifæri og voru þau orðin að skornum skammti þegar allir voru mættir á svæðið. Starfsmenn vinnuskólans urðu því að útbúa fleiri á staðnum. Þátttakendur hafa því verið um 400 í ár sem er met,“ segir Stella Björg Kristinsdóttir, fagstjóri frístundastarfs í Hafnarfirði. Keppnin hefur náð að stimpla sig inn í hug og hjörtu bæði barna og foreldra og forráðamanna sem oft á tíðum fylgjast spenntir með á hafnarbakkanum.

Þrjú ungmenni fengu verðlaun í ár. Kamilla Rut Ágústsdóttir vann keppnina um furðufiskinn. Hún veiddi hrognkelsi og óvíst hvort um rauðmaga eða grásleppu var að ræða. Ísabella Agla Óskarsdóttir vann stærsta fiskinn en hún veiddi 327 gramma kola. Máni Arnórsson var sigurvegari um flestu fiskanna en hann veiddi 3 kola. Hann gaf sér vart tíma til að taka við verðlaunum og mætti seint í afhendinguna, því hann hélt áfram að veiða eftir að keppni lauk og náði einum ufsa í viðbót.

 

Þrjú ungmenni fengu verðlaun í ár. Kamilla Rut Ágústsdóttir vann keppnina um furðufiskinn. Hún veiddi hrognkelsi, óljóst hvort rauðmagi eða grásleppa. Ísabella Agla Óskarsdóttir vann keppnina um stærsta fiskinn en hún veiddi 327 gramma kola. Máni Arnórsson var sigurvegari um flestu fiskanna og veiddi 3 kola. Hann gaf sér vart tíma til að taka við verðlaunum og mætti seint í afhendinguna, því hann hélt áfram að veiða eftir að keppni lauk og náði einum ufsa í viðbót.

Opin dorgveiðikeppni fyrir 6-12 ára Hafnfirðinga

Árlega standa sumarnámskeið í Hafnarfirði fyrir dorgveiðikeppni við Flensborgarbryggju sem opin er öllum börnum á aldrinum 6-12 ára. Í um 30 ár hefur Hafnarfjarðarbær staðið fyrir þessari dorgveiðikeppni og taka hundruð hafnfirskra barna þátt ár hvert. Gleðin er alltaf jafn mikil.  Leiðbeinendur sumarfrístundar ásamt starfmönnum úr vinnuskólanum voru með öfluga gæslu á meðan á dorgveiðikeppni stóð, auk þess sem Siglingaklúbburinn Þytur var með björgunarbát siglandi um svæðið til að tryggja öryggið.

Ábendingagátt