Fyrsta húsnæðið fær Svansvottun í Hafnarfirði

Fréttir

Fjölbýlishúsið að Drangaskarði 11 og Hádegisskarði 20 er fyrsta Svansvottaða byggingin í Hafnarfirði. RENTUR ehf. reistu fjölbýlishúsið sem geymir sjö íbúðir. Feðgarnir Ingimundur Þór Þorsteinsson og Adrian Sölvi Ingimundarsson tóku á móti viðurkenningunni frá fulltrúum Umhverfisstofnunar á föstudag.

Fyrsta Svansvottaða byggingin í Hafnarfirði

Fjölbýlishúsið að Drangaskarði 11 og Hádegisskarði 20 er fyrsta Svansvottaða byggingin í Hafnarfirði. Umhverfisstofnun veitti Rentum fyrstu Svansvottunina í Hafnarfirði á föstudag. Ingimundur segir húsaröðina, sem nú hefur fengið vottunina, binda kolefni en losa það ekki. Hvergi sé slegið af kröfum við bygginguna fyrir slíka vottun.

„Kröfurnar eru ríkari. Við vorum undir ströngu eftirliti með hvaða efni væru notuð í húsinu. Við þurftum að fá þau öll samþykkt og nota umhverfisvæn efni — ekki aðeins fyrir umhverfið heldur einnig væn fyrir fólk. Það er því ekkert af slíkum efnum í Svansvottuðum húsum,“ segir Ingimundur sem er stoltur af afrakstrinum.

Virðing fyrir umhverfi og fólki

„Þetta snýst um virðingu fyrir umhverfinu, sjálfbærninni og þeim sem vinna með efnin. Síðast en ekki síst fyrir íbúana sem búa í húsunum. Þetta er gæðaferli. Svansvottuð hús eru betri hús,“ segir Ingimundur. „Við gengum lengra en byggingarreglugerðir kveða á um og ég segi gjarnan að einu sinni voru ekki öryggisbelti í bílum. Nú eru þau í þeim öllum. Það er eins með umhverfisvottunina. Ég tel að í framtíðinni verði allur húsiðnaðurinn umhverfisvottaður.“

Bæjarstjóri, forsvarsmenn Renta og íbúar fyrsta Svansvottaða hússins í Hafnarfirði.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri leit þar við í gærdag og sýndu þeir Ingimundur og Adrian henni húsin. „Við erum afar stolt af fyrstu Svansvottuðu húsunum í Hafnarfirði. Það er gaman að sjá að byggingariðnaðurinn hefur tekið vel í þetta umhverfisverkefni og það að fá 20% afslátt af lóðargjöldum sé kröfum umhverfissvottunar fylgt,“ segir hún. „Afrakstur ákvörðunar og hvatningar bæjarfélagsins til að byggja umhverfisvænt er nú að koma í ljós og óska ég þeim feðgum til hamingju.“

Ingimundur sagði við afhendingu vottunarinnar að aldrei hafi annað komið til greina en að byggja umhverfisvænt. „Og það var klárlega hvatning að fá 20% afslátt á lóðinni hjá Hafnarfjarðarbæ.“ Nú þegar vottunin sé í höfn fái Rentur 20% lóðarverðsins endurgreitt. „Ég hef gaman að því að orða það á hinn veginn. Við erum ekki að fá afslátt. Hinir eru í raun að borga sekt,“ segir hann og brosir.

Markmiðið að tryggja góða innivist

Guðrún Lilja Kristinsdóttir, framkvæmdarstjóri Svansins hjá Umhverfisstofnun, afhenti þeim feðgum vottunina formlega á föstudag og fagnaði með þeim. „Markmiðið með Svansvottuðum byggingum er að tryggja góða innivist fyrir fólk,“ segir hún. „Við horfum til þriggja stólpa: Umhverfisins, að tryggja góða heilsu og svo er þetta gæðamerki.“ Guðrún Lilja segir fólk gjarnt á að taka sig úr samhengi við náttúruna. Umhverfismál og heilsa fari hins vegar saman. „Það sem er vont fyrir umhverfið er það líka fyrir okkur.“

Umhverfisstofnun segir frá því á vef sínum að Rentur hafi verið með fyrstu umsækjendum hérlendis til að hefja Svansvottunarferli eftir nýbyggingarviðmiðunum. Þeir hafi byggt af hugsjón. Lögð hafi verið rík áhersla á að vinna með vistvænar lausnir svo sem endurnotkun byggingarefna. Þá hafi jarðvegur sem kom úr grunni húsanna verið nýttur á næstu lóð. Smíðaðar hafi verið grindur sem fylltar voru með grjóti úr lóðinni. Rík áhersla hafi verið lögð á að nýta byggingarefnin sem best og voru CLT einingarnar hannaðar með það í huga að lítill sem enginn afskurður yrði við verkið og festingar lágmarkaðar. Afgangur af klæðningu hússins hafi verið notaður í að útbúa brunastokk á milli hæða og svona mætti lengi telja.

Gott loft í Svansvottuðum íbúðum

Ingimundur er stoltur af húsunum. Hann sýnir loftskiptibúnað í íbúðinni. „Þetta er ekki loftræstikerfi heldur loftskiptikerfi.“ Lofti er bæði dælt út og inn úr íbúðinni. Það geri það að verkum að alltaf sé topploft í íbúðinni. Í raun þurfi ekki að opna glugga. „Fólk sem kynnist þessu vill ekkert annað eftir það,“ segir hann. „Þetta eru lungu íbúðarinnar.“ Loftið sé hitað á leiðinni í íbúðina sem haldi kjörhita í húsnæðinu en alltaf fersku lofti.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti árið 2019 aðgerðir til að hvetja húsbyggjendur að setja umhverfið í forgang. Þá var samþykkt að afsláttur af lóðarverði vegna Svansvottaðs húss yrði 20%.

Hafnfirðingar og Rentur: Innilega til hamingju með þennan áfangasigur!

 

Ábendingagátt