Fyrsta skóflustungan að umfangsmikilli uppbyggingu

Fréttir

Fyrsta skóflustungan að metnaðarfullri uppbyggingu í miðbæ Hafnarfjarðar var tekin í dag þar sem áður stóð Hafnarfjarðarbíó og Kaupfélag Hafnarfjarðar. Fullbyggð mun nýbyggingin, sem verður um 9000 m2, hýsa verslanir og þjónustu á jarðhæð sem tengir Strandgötu við verslunarmiðstöðina, nútímalegt bókasafn, almenningsgarð á 2. hæð aðgengilegan frá Strandgötu, glæsilegar íbúðir og hótelíbúðir.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Guðmundur Bjarni Harðarson framkvæmdastjóri Fjarðar í gamla Firði við mynd af nýja Firði.

Umfangsmesta uppbygging í miðbæ Hafnarfjarðar í áratugi

Fyrsta skóflustungan að metnaðarfullri uppbyggingu í miðbæ Hafnarfjarðar var tekin í dag þar sem áður stóð Hafnarfjarðarbíó og Kaupfélag Hafnarfjarðar. Félagið 220 Fjörður ehf. stendur að uppbyggingunni en félagið er jafnframt stærsti eigandinn í verslunarmiðstöðinni Firði. Fullbyggð mun nýbyggingin, sem verður um 9000 m2, hýsa verslanir og þjónustu á jarðhæð sem tengir Strandgötu við verslunarmiðstöðina, nútímalegt bókasafn, almenningsgarð á 2. hæð aðgengilegan frá Strandgötu, glæsilegar íbúðir og hótelíbúðir. Byggingarreiturinn hefur verið sameinaður Fjarðargötu 13-15 og voru aðalteikningar samþykktar í lok september. Framkvæmdir munu taka í það minnsta tvö ár.  Fyrstu skóflustunguna tóku þau Rósa bæjarstjóri, Benedikt Rúnar Steingrímsson og Haraldur R Jónsson stjórnarmenn 220 Fjarðar ehf.

Fyrsta skóflustungan að nýjum Firði

Fyrsta skóflustungan tekin að nýjum Firði, Umfangsmesta uppbygging í miðbæ Hafnarfjarðar í áratugi. 

Nýtt hús opnar á tækifæri og möguleika fyrir fjölbreyttari verslun og þjónustu í miðbæ Hafnarfjarðar. Við viljum halda áfram að byggja upp lifandi og blómstrandi bæ sem tekur hlýlega á móti vaxandi fjölda íbúa og gestum víðsvegar að. Tilkoma nýs húss á þessum einstaka stað í hjarta Hafnarfjarðar er mikilvæg lyftistöng fyrir rekstur og þjónustu í sveitarfélaginu,“  segir Rósa Guðbjartsdóttir.

Uppbygging og þjónusta sem ýtir undir lifandi miðbæ

Undirbúningur framkvæmda hefur staðið yfir í nokkurn tíma og hefst jarðvinna innan skamms þar sem grafið verður fyrir bílakjallara sem verður undir byggingunni. Uppsteypa hússins verður unnin að mestu á árinu 2023 og er gert ráð fyrir að húsið verði tekið til notkunar í árslok 2024 og fram eftir ári 2025. Með þessum áformum er verið að svara ákalli íbúa, Hafnarfjarðarbæjar og fyrirtækja á svæðinu um lágverðsmatvöruverslun í miðbæinn, græn svæði og hönnun sem ýtir undir lifandi miðbæ. Sérstaklega hefur verið horft til þess að tryggja góða blöndu verslunar-, þjónustu og íbúða.

Hafnfirðingar eiga stóra drauma um bæjarbókasafnið sitt

Það var í árslok 2020 sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti að flytja Bókasafn Hafnarfjarðar úr núverandi húsnæði að Strandgötu 1 í þetta nýja húsnæði og samhliða endurhugsa hlutverk og tilgang bókasafnsins með fjölbreyttar þarfir notenda í huga. Framundan hjá Hafnarfjarðarbæ er kortlagning á breyttu hlutverki og fjölþættum tilgangi bókasafna þar sem horft verður til vinsælla safna meðal annars á Norðurlöndunum. „Nú þegar skóflustungan hefur verið tekin og við sjáum framkvæmdina fara af stað þá getum við farið að stíga næstu skref í hönnun bókasafns framtíðarinnar hér í Hafnarfirði,“ segir Rósa.

Þakgarður við margmiðlunarsetur

Könnun meðal Hafnfirðinga um bókasafn framtíðarinnar skilaði meðal annars hugmyndum um kaffihús, leiksvæði, þægilegar setustofur og lengri afgreiðslutíma.  Á nýjum bókasöfnum í dag er áhersla lögð á að auk góðs úrvals af lestrar- og afþreyingarefni sé hægt að fá afnot af tækjum, tólum og aðstöðu sem eru allajafna dýr í innkaupum eins og þrívíddarprentarar og vínylskerar, saumavélar og upptökuaðstaða. Vísi að aukinni þjónustu af þessu tagi er þegar í dag að finna á Bókasafni Hafnarfjarðar. Nýtt húsnæði á einni hæð býður á sama tíma upp á mikla möguleika til að þjóna gestum mun betur og stærri og opnari fjölnotasalur myndi nýtast vel fyrir fjölbreytta viðburði, kynningar, fundi og skemmtun. Árlega koma á bókasafnið um 125.000 gestir á öllum aldri.

Ábendingagátt