Fyrsti deilibíll kominn til Hafnarfjarðar

Fréttir

Fyrsti Zipcar deilibíllinn er kominn til Hafnarfjarðar og er þegar orðinn aðgengilegur áhugasömum íbúum og starfsfólki fyrirtækja í Hafnarfirði. Deilibíllinn er frábær viðbót við þá fjölbreyttu samgöngumöguleika sem standa íbúum Hafnarfjarðar til boða.

Deilibíllinn er staðsettur í miðbæ Hafnarfjarðar

Fyrsti Zipcar deilibíllinn er kominn til Hafnarfjarðar og er þegar orðinn aðgengilegur áhugasömum íbúum og starfsfólki fyrirtækja í Hafnarfirði. Deilibíllinn stendur á merktu stæði á horni Fjarðargötu og Linnetsstígs í miðbænum og virkar þjónustan þannig að íbúar bóka bílinn, sækja hann og skila aftur á sama stað í sama stæði. Deilibíllinn er frábær viðbót við þá fjölbreyttu samgöngumöguleika sem standa íbúum Hafnarfjarðar til boða.

5O5A0826-vef

Frá vinstri:  Arnar Þórsson viðskiptastjóri hjá Zipcar Íslandi, Ágúst Bjarni Garðarsson formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, Helga Ingólfsdóttir formaður umhverfis- og skipulagsráðs Hafnarfjarðar, Arnþór Jónsson sölustjóri hjá ZipCar Íslandi, Daði Baldur Ottósson samgönguverkfræðingur hjá Eflu, Gísli Þór Guðmundsson frá Zipcar Íslandi, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Helga Stefánsdóttir forstöðumaður framkvæmda- og rekstrardeildar hjá Hafnarfjarðarbæ. 

Tilraunaverkefni til sex mánaða – framhaldið veltur á áhuga og fjölda virkra notenda 

Sveitarfélögin Hafnarfjarðarbær, Akureyrarbær og Garðabær eru þátttakendur í tilraunaverkefni um deilibíla sem leitt er af verkfræðistofunni EFLU í samstarfi við Zipcar deilibílaleigu með styrk frá rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar. Framlag sveitarfélaganna felst fyrst og fremst í úthlutun og merkingu bílastæðis fyrir deilibíl og aðstoða eins og kostur er við innleiðingu þjónustunnar. Verkefnið hefur þann tilgang að meta áhrif þess að innleiða og efla vöxt deilibíla hjá sveitarfélögunum þremur. Mun Efla, á meðan á tilraunaverkefni stendur, standa að rannsóknum á ferðavenjum og viðhorfi ásamt rýni viðeigandi gagna. Reynslutímabilið er 6 mánuðir og að þeim tíma loknum veltur framhald verkefnis á áhuga og fjölda notenda. Þannig geta íbúar og starfsfólk fyrirtækja í Hafnarfirði haft bein áhrif á vöxt deilibíla í Hafnarfirði.

5O5A0823-vef

Aktu minna og snjallar

Hugmyndafræðin um deilibíla eru vel þekkt víða um heim og hafa rannsóknir sýnt að þeir geti spilað stórt hlutverk í þeirri vegferð íbúa að lifa án einkabílsins og stuðla þannig að breyttum ferðavenjum. Hér á landi hefur þessi þjónusta aðeins verið í boði miðsvæðis í Reykjavík og í Kópavogi en verður nú til a.m.k. 6 mánaða einnig í boði í Hafnarfirði, Garðabæ og á Akureyri. Einn deilibíll verður aðgengilegur íbúum og starfsfólki fyrirtækja í Hafnarfirði í að minnsta kosti þessa sex mánuði. Vonir standa til þess að eftir þessa sex mánuði verði deilibílinn sjálfbær í rekstri og að þannig skapist rekstrargrundvöllur fyrir deilibílaþjónustu í Hafnarfirði til frambúðar.

Allar nánari upplýsingar á vef Zipcar – Zipcar.is – AKTU DEILDU NJÓTTU

Ábendingagátt