Gaflarakórin syngur og segir takk fyrir tillistóla

Fréttir

Annasamir tímar eru framundan hjá Gaflarakórnum, enda aðventan gengin í garð. Kórinn söng á dögunum fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar. Það var í þakklætisskyni fyrir fimm tillistóla sem bærinn gaf kórnum í tilefni að 30 ára afmæli hans.

Gaflarakórinn syngur víða fyrir jól

„Við sungum Grýlukvæði og önnur lög,“ segir Kristín Magnúsdóttir, formaður Gaflarakórsins. Kórinn söng þann 20. nóvember fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar í þakklætisskyni fyrir fimm tillistóla sem bærinn gaf kórnum í tilefni að 30 ára afmæli hans.

„Margt fullorðið fólk er í kórnum. Sum eiga erfitt með að standa lengi. Þetta eru hærri stólar, fólk situr hærra og því eru þeir mjög hjálplegir. Við vildum sýna þakklæti okkar í verki og því var ákveðið að koma saman og syngja fyrir bæjarstjórnarfulltrúa rétt áður en þeir settust á bæjarstjórnarfund.“

Góð stemning er í kórnum. „Já, mjög góð stemning. Við fórum til Berlínar í sumar í tilefni 30 ára afmælisins,“ segir hún. Skemmtiferð.

Þakkarbréf Gaflarakórsins til bæjarstjórnarinnar.

Ekki aðeins Gaflarar í Gaflarakórnum

En þurfa meðlimir að vera Gaflarar til að vera í Gaflarakórnum?

„Nei, maður þarf ekki að vera Gaflari til að vera í kórnum, en til að vera í stjórn hans þarftu að vera í Félagi eldri borgara í Hafnarfirði,“ segir hún hressilega. „Félagar í kórnum mega vera Gaflarar, aðfluttir andskotar eða aðkomumenn,“ segir hún og hlær.

Sjálf hefur Kristín verið í kórnum í  7-8 ár. „Það þykir ekki langt. Sumir hafa verið frá upphæfi. Fólk orðið rúmlega nírætt. Tvö eru meðal stofnfélaga og enn að; Óskar og Ragga. Þau mæta á hverja einustu æfingu,“ segir Kristín og nefnir þétta dagskrá framundan. Kórinn sé til að mynda meðal þriggja annarra sem syngi á tónleikum í Langholtskirkju á morgun, 5. desember.

Syngja á hjúkrunarheimilunum

„Svo förum við á hjúkrunarheimilin í Hafnarfirði og syngjum þar. Við syngjum við messur. Það er ekkert grín að vera í kór en afar skemmtilegt og gefandi,“ segir hún létt og spennt fyrir jólafundi kórsins um miðjan mánuðinn; jólamatur, jólahugvekja, sögur og dans. „Það er mjög gaman að vera í kór.“

Gaflarakórinn gerir víðreist um bæinn á aðventu, eins og sjá má á Facebook-síðu kórins:

  • 4. desember kl. 13.30 Sungið á Hrafnistu í Hafnarfirðis
  • 9. desember kl. 11 Sungið í Drafnarhúsinu
  • 11. desember kl. 11 Sungið í Ísafold í Garðabæ
  • 11. desember kl. 13 Sungið á Sólvangi.
Ábendingagátt