Gaflaraleikhúsið fær aðstöðu í Nýsköpunarsetrinu við Lækinn

Fréttir

„Við ætlum að leiða fyrsta flokks sköpunarstarf fyrir hafnfirsk börn,“ segir Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri og leikstjóri Gaflaraleikhússins, sem hefur tryggt sér pláss  í Nýsköpunarsetrinu við Lækinn.

Leiklist og sköpun í Nýsköpunarsetrinu

„Við ætlum að leiða fyrsta flokks sköpunarstarf fyrir hafnfirsk börn,“ segir Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri og leikstjóri Gaflaraleikhússins. Leikhúsið hefur samið við Hafnarfjarðarbæ um afnot af æfingar-, kennslu- og skrifstofuaðstöðu í Nýsköpunarsetrinu við Lækinn.

Björk stofnar nú einnig Gafló, leiklistarskóla Gaflaraleikhússins, og eykur framboð leiklistarkennslu- og námskeiða fyrir hafnfirsk börn og ungmenni. „Nú getum við hafið kennslu á ný í Gafló og samhliða undirbúið sýningar vetursins,“ segir Björk og er full tilhlökkunar fyrir vetrinum enda fjórar sýninga á leið á svið.

Ómetanlegt fyrir Hafnarfjörð

Valdimar Víðisson bæjarstjóri segir virkilega ánægjulegt að sjá að Gaflaraleikhúsið fái festu í Nýsköpunarsetrinu. „Það er ómetanlegt fyrir bæjarfélag eins og Hafnarfjörð að hafa svona öfluga leiklistaraðstöðu fyrir börn og ungmenni,” segir hann.

„Gaflaraleikhúsið hefur lengi verið hluti af menningarhjarta bæjarins og endurvakning leiklistarskólans mun gefa næstu kynslóðum tækifæri til að skapa, læra og njóta. Þetta samstarf eflir hafnfirsk börn og listalíf í Hafnarfirði.

Margt á fjölunum í vetur

Björk segir þrjár til fjórar sýningar á fjölum leikhúsanna í vetur. „Það er kraftmikill vetur framunda. Fjórar sýningar á leið á svið. Tóm hamingja, sem sló í gegn í fyrra er aftur á leið á svið í Borgarleikhúsinu. Jól á náttfötunum verður á aðventunni í Tjarnarbíó. Leiksýningin Ekki hugmynd, nýtt verk með ungu listafólki, fer á litla sviðið í Borgarleikhúsinu í janúar. Svo erum við í samræðum við Bæjarbíó að setja upp snilldarsýningu þar,“ segir hún.

„En fyrst einbeitum við okkur á að því að koma okkur fyrir á nýjum stað og hlökkum til að taka á móti hafnfirskum börnum og ungmennum, kenna þeim að fíflast, skapa saman og hafa gaman. Einkunarorðin fyrir Gafló eru gleði, sköpun, gæði.“

  • Hægt verður að nota frístundastyrk frá bænum á námskeðum sem eru 10 vikur eða lengur.

Til hamingju með aukið framboð frístunda í Hafnarfirði öll.

Ábendingagátt