Gaflaraleikhúsið frumsýnir leikritið Ekki hugmynd

Fréttir

Gaflaraleikhúsið frumsýnir leikritið Ekki hugmynd í á Litla sviðinu í Borgarleikhúsinu a föstudagskvöld. Glæný lög og glænýtt leikrit.

Frumsamið leikrit Gaflaraleikhússins

„Nú er ég ekki að leikstýra heldur framleiða. Ég sit á hliðarlínunni, hokinn og reynslumikill framleiðandi og horfi á ungu listamennina að blómstra,“ segir Björk Jakobsdóttir, einn stofnanda Gaflaraleikhússins, spennt fyrir frumsýningunni á leikriti leikhússins Ekki hugmynd í á Litla sviðinu í Borgarleikhúsinu 30. janúar kl. 20.

„Nú er tími til að njóta þess sem við hjá Gaflaraleikhúsinu höfum alið upp. Já, og fá nýtt, öflugt sviðslistafólk í samstarf. Við viljum gefa ungu listafólki sviðið,“ segir hún og lýsir þessu glænýja leikriti.

„Þetta er nýtt frumskapað verk. Níu ný lög eru í sýningunni. Listafólkið sem stendur að sýningunni er svo frjótt og ferlið svo flæðandi,“ lýsir hún skemmtilega.

Eins og lýst er á vefnum eru mannabörnin Arnór, Óli og Vigdís öll týnd á tímamótum. þau hafa ekki hugmynd um hvað þau eiga að gera, en með gríni, misheimspekilegum kenningum, söng og öllum tiltækum leikhústrixum ætla þau að finna út úr þessu og færa íslensku þjóðinni svar við ráðgátum lífsins!,“ segir Björk.

Öflugur hópur á bakvið leikritið

„Óli Gunnar og Arnór hafa samið og leikið nokkur vinsæl verk fyrir okkur. Við höfum svo fengið tvo nýja snillinga í samstarf fyrir þetta verk. Vigdísi Hafliða, sem er stórkostleg listakona, uppistandari og tónlistarkona og Egil Andrason, leikstjóra sem er nýútskrifaður,“ segir hún. Leikritið semja svo og leika Vigdís Hafliða,  Arnór Björnsson og Óli Gunnar Gunnarsson.

„Hugmyndavinna byrjaði síðasta vor,“ segir Björk. „Síðan taka við hittingar; frumdrög. Þau hafa skrifað síðan í september.“ Svo skarist hlutverkin og öll hafi þau áhrif á hvert annað.

„Já, í samsköpun víxlast hattarnir. Svo erum við með ungt fólk í listrænni hönnun. Við vildum hafa teymið ungt,“ segir Björk og lýsir því að sýningin sé alveg efni í saumaklúbbasýningar.

Björk Jakobsdóttir, einn stofnanda Gaflaraleikhússins, og bæjarlistamaður Hafnarfjarðarbæjar 2019.

Lífsspursmálin í hverju skrefi

„Bæði er ég komin á þann aldur að eiga tvo gríslinga á þrítugsaldri. Svo finn ég annað í verkinu. Það er þennan undirtón: Að finna sig, hef ég gert nóg? Er ég nóg? Þessar spurningar fæst maður við fram eftir öllum aldri. Hef ég fundið hamingjuna? Af hverju finn ég ekki ástina?“

Hún segir því umfjöllunarefnið líka skemmtilegt fyrir fólk sem hefur farið í gegnum þetta allt og horfi nú á yngri kynslóðir glíma við sömu lífsþrautina.

„Er ég gott foreldri?“ heldur hún áfram. „Af hverju ekki ég? Af hverju er mitt líf ekki þarna. Ég spegla mig. Við gamlingjarnir vorum öll sammála um það að þarna væru sögur sem við tengdum við.“

Fjalla um verðuga hluti

Björk segir að þau í Gaflaraleikhúsinu vilji hlæja með áhorfendum. „En á sama tíma viljum við fjalla um verðuga hluti. Við viljum taka litla kvíðahnútinn og henda honum á vegginn. Þannig að verkið er með sterk Gafló – einkenni,“ segir hún.

„Já, það er þessi pæling að sýna að við séum öll ágæt, þótt við séum bara meðaljónar. Já, og svo horfum við sem eldri erum á þessa kvíðakynslóð sem fær þátttökuverðlaun fyrir allt sem hún gerir. Svo er þetta er stórkostleg sýning fyrir foreldra og ungmenni til að fara á saman.

 

Ábendingagátt