Gaflarinn Gunnar Már fagnar aldarafmæli í dag

Fréttir

Gaflarinn Gunnar Már Torfason fagnar 100 ára afmæli í dag. Gunnar, eða Gunni Mössu eins og hann er jafnan kallaður, fæddist í Hafnarfirði 24. júní 1924. Hann býr í dag í góðu yfirlæti á Hvaleyri á Sólvangi þangað sem hann flutti 97 ára að aldri.

Hjartanlega til hamingju með daginn!

Gaflarinn Gunnar Már Torfason fagnar 100 ára afmæli í dag. Gunnar, eða Gunni Mössu eins og hann er jafnan kallaður, fæddist í Hafnarfirði 24. júní 1924. Hann býr í dag í góðu yfirlæti á Hvaleyri á Sólvangi þangað sem hann flutti 97 ára að aldri. Gunnar fagnar tvöfalt í dag, bauð í kaffi og köku á Sólvangi fyrri hluta dags fyrir íbúa og gesti og heldur aðra veislu fyrir fjölskyldu og vini. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson fagnar einnig afmæli í dag og munu þeir félagar hittast síðdegis og fagna saman. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri kíkti í afmæliskaffi á Sólvang og færði Gunnari Má blómvönd og súkkulaði með fallegum kveðjum frá bænum. Hjartanlega til hamingju með daginn báðir tveir!

Tíður og áhugasamur gestur í sal bæjarstjórnar um árabil

Gunnar Már hefur komið víða við síðustu 100 árin og hefur mestan hluta ævi sinnar búið í Hafnarfirði. Ungur að árum undi hann hag sínum vel í sveitinni að Vesturkosti á Skeiðum og að Efri Rauðlæk í Holtum. Gunnar Már var um tíma til sjós en starfaði nær alla sína ævi í eigin rekstri sem vörubílsstjóri í Hafnarfirði og vann þá m.a. fyrir Íshús Hafnafjarðar, Góðtemplara, Hvaleyrarbræður, Rafveitu Hafnarfjarðar og Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði þar sem hann var félagi. Starfsferli Gunnars lauk við níræðisaldurinn og var ökuskírteininu skilað inn fyrir fimm árum síðan, þá 95 ára. Gunnar lét sig bæjarmálin varða og var tíður og afar áhugasamur gestur í sal bæjarstjórnar á hennar reglubundnu fundum. Hann tók virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði alla tíð, sat meðal annars í atvinnumálanefnd bæjarins 1988 og áfengisvarnarnefnd 1998. Þegar Gunnar Már varð níræður bað hann gesti um að safna með sér í sjóð sem hann, ásamt fjölskyldu sinni, síðan færði fjarskiptahópi Björgunarsveitar Hafnarfjarðar. Fyrir sjóðinn fjárfesti björgunarsveitin í Honda rafstöð öllum til mikillar ánægju. Eiginkona Gunnars Más var Auður Þorláksdóttir. Saman eignuðust þau sex börn og eru af komendur þeirra orðnir sextíu.

Sjö Hafnfirðingar 100 ára eða eldri

Fimm Hafnfirðingar fagna 100 ára afmæli á árinu 2024, einn 101 árs afmæli og einn 102 ára afmæli. Í heild sjö Hafnfirðingar sem fagna enn lífinu orðnir aldargamlir. Íbúar í Hafnarfirði í dag eru orðnir 32.052 og fer fjölgandi.

 

Ábendingagátt