Gefum bílnum frí frá miðbænum – Hjarta Hafnarfjarðar að hefjast

Tilkynningar

Tónlistarveislan Hjarta Hafnarfjarðar hefst á næstu dögum. Bílastæði fyrir aftan Ráðhúsið og við Bæjarbíó verða að mestu frátekin fyrir hátíðina. Víða má finna bílastæði í stuttri göngufjarlægð.

Leggjum fjær til að efla verslun

Já, nú verður gaman. Tónlistarveislan í hjarta Hafnarfjarðar hefst 26. júní með tónum Björgvins Halldórssonar okkar. Þúsundir gesta heimsækja bæinn allar helgarnar sem þessi bæjartónlistarhátíð stendur yfir eða allt til 6. ágúst.

Þessar vikur sem veislan stendur yfir verða bílastæðin fyrir aftan Ráðhúsið og Bæjarbíó frátekin fyrir hátíðina. Af virðingu við verslanir, veitingastaði og aðra þjónustuaðila í miðbænum hvetjum við allt það starfsfólk sem vinnur hér í miðbænum eindregið til að leggja bílum sínum lengra í burtu, rölta í vinnuna og leggja sitt af mörkum við að ýta undir blómstrandi viðskipti í blómstrandi bæ.

Nær þessi hvatning líka til bílastæða við Strandgötu og Linnetstíg sem öll eru skammtímastæði (30-60mín).

Já, nú er að stíga skrefið að betri heilsu, vænlegri verslun, frábærri þjónustu og góðum tónelskum kvöldum hér í Hafnarfirði.

Laufléttir möguleikar í næsta nágrenni:

  • 350 metrar eða 7 mínútur: Bílastæði við Menntasetrið við Lækinn
  • 400 metrar eða 6 mínútur: Bílastæði við Hafnarfjarðarkirkju og Tónlistarskóla
  • 1100 m eða 16 mínútur: Bílastæði við Flensborgarskólann
  • 850 metrar eða 15 mínútur: Bílastæði við Fimleikafélagið Björk
  • 850 metrar eða 15 mínútur: Bílastæði við Lækjarskóla
  • 750 metrar eða 15 mínútur: Bílastæði við skólann Nú – Reykjavíkurvegi
  • 700 metrar eða 15 mínútur: Bílastæði við Víðistaðaskóla

Drögum djúpt andann og leyfum okkur að ganga smá í upphafi dags!

Ábendingagátt