Gestakomur í Seltúni taldar með sjálfvirkum teljara

Fréttir

Ferðamálastofa hefur sett upp sítengdan teljara í Seltúni til þess að fylgjast með fjölda gesta á þessum vinsæla áfangastað ferðamanna.

Ferðamálastofa hefur sett upp sítengdan teljara í Seltúni til þess að fylgjast með fjölda gesta á þessum vinsæla áfangastað ferðamanna. Tölurnar eru birtar í mælaborði ferðaþjónustunnar sem er vefsíða þar sem tölulegar upplýsingar um atvinnugreinina eru birtar með myndrænum hætti. Hægt er að skoða fjölda ferðamanna eftir tíma sólarhrings, dögum, mánuðum og árum eftir því sem fram líða stundir en byrjað var að telja í Seltúni í október 2020.

Skoða sítengdan teljara í Seltúni

Stórbrotið landslag Krýsuvíkur er vel fallið til útivistar

Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands og fjölbreytt litadýrð náttúrunnar á hverasvæðinu við Seltún hefur heillað marga en þar má sjá gufustrókana stíga til himins, virða fyrir sér sjóðandi leirhverina og hverahvamma sem skarta grænum, gulum og rauðleitum litum. Stórbrotið landslag Krýsuvíkur er vel fallið til útivistar og náttúruskoðunar og tilvalið að fara í bíltúr með fjölskylduna þangað.

MaelabordSeltunNov2020

Gestakomur í Seltúni – uppfærðar 15.11.2020. Skoða sjálfvirkan teljara

Sjálfvirkir teljarar á vinsælum og völdum stöðum

Í mælaborðinu er einnig hægt að nálgast upplýsingar úr sjálfvirkum teljurum staðsettum á Geysi, Gullfossi, Dimmuborgum, Goðafossi, Hvítserk, Dynjanda, Súgandisey, Saxhól, Hraunfossum, Grábrók og Seltúni en síðustu sex staðirnir bættust við nú í október. Hægt er að skoða talinn fjölda á áfangastað á hverjum degi fyrir sig. Meðal þess sem mælaborðið sýnir einnig er fjöldi ferðamanna, framboð gistirýmis, nýting hótelherbergja, dreifing, nýting og tekjur Airbnb gistingar, komur og dreifing skemmtiferðaskipa, fjöldi starfsmanna í atvinnugreininni, gjaldeyristekjur og fjöldi bílaleigubíla. Þessar tölur má skoða nánar eftir árum, landsvæðum, sveitarfélögum, atvinnugreinum, þjóðernum o.fl. 

Ábendingagátt