Gestir Lækjar setja upp myndlistarsýningu í Nýsköpunarsetrinu

Fréttir

Gestir Lækjar hafa nýtt sér góða aðstöðu Nýsköpunarseturs Hafnarfjarðar í sumar til að mála, teikna og skapa. Þessi vikulegi tími hefur slegið í gegn og stefnt er á að halda smiðjunni áfram í haust. Sumarið hefur verið einstaklega skemmtilegt og vönduð sýning verður haldin fyrir gesti Lækjar, til að fagna afrakstri sumarsins þann 30.júlí, en verður að þessu sinni aðeins opin fyrir gestum Lækjar.

Myndlistarsýning haldin fyrir gesti Lækjar

„Gestir Lækjar hafa komið til okkar einu sinni í viku í sumar til að mála, teikna og skapa í Tilraunasmiðjunni. Þessi vikulegi tími hefur slegið í gegn og við stefnum á að halda þessu áfram í haust. Sumarið hefur verið svo gríðarlega skemmtilegt og sýning verður haldin fyrir gesti Lækjar þann 30.júlí í Nýsköpunarsetrinu, til að fagna afrakstri sumarsins.“ Segir Þorbjörg Signý Ágústsson, sem starfar í Nýsköpunarsetri Hafnarfjarðar.

Nýta aðstöðu Nýsköpunarsetursins við Lækinn til listsköpunar

„Verkefnið er samstarf á milli stofnanna tveggja sem veitir gestum athvarfsins Læk að koma og nýta aðstöðu Nýsköpunarsetursins einu sinni í viku. Hingað til hefur þemað verið listsköpun en gestum stendur til boða að teikna og mála í fallegu og öruggu umhverfi. Með gestunum fylgir ávallt mikil gleði og listaverk sumarsins fjölbreytt og falleg.“ Segir Þorbjörg.

Stefna á sýningu opna öllum fyrir jólin

Hópurinn hefur verið spenntur að koma og þátttaka hefur verið mikil enda eru starfsmenn Nýsköpunarsetursins einstaklega ánægðir með þennan skemmtilega hóp.

„Við hlökkum til að taka á móti þeim og vonumst til að geta haldið slíkri starfsemi áfram ásamt því að fá fleiri slíka hópa inn. Sýningin verður í afslappaðri kantinum og aðeins opin fyrir gestum Lækjar að þessu sinni, en það stefnir í að hópurinn verði áfram í haust. Þá langar mig að halda aftur sýningu sem er opin almenningi fyrir jól!“ Segir Þorbjörg.

Allir fá tækifæri til að njóta góðrar samveru

Lækur er athvarf fyrir einstaklinga með geðrænan vanda. Athvarfið stendur að Staðarbergi 6 og er aðstaðan hin glæsilegasta. Eitt helsta hlutverk Lækjar er að vera öruggur og góður vettvangur fyrir fólk með það fyrir augum að draga úr félagslegri einangrun, ýta undir samskipti við aðra og styrkja andlega og líkamlega heilsu þar sem allir fá að njóta sín. Brynja Rut Vilhjálmsdóttir er forstöðumaður Lækjar. Þangað sækja um átta til fimmtán manns daglega og um 1500 manns á ári.

Afþreying og fræðsla á jafningjagrundvelli

Lækur er ekki hefðbundinn meðferðarstaður eða stofnun heldur vettvangur þar sem áhersla er lögð á að skapa heimilislegt andrúmsloft á jafningjagrundvelli. Boðið er upp á ýmiskonar afþreyingu og fræðslu í daglegu starfi athvarfsins og er undirtónninn hreyfing, slökun, samskipti, samvera og spilamennska. Gestir hafa sjálfir mikil áhrif á mótun dagskrár og þannig hefur t.a.m. verið boðið upp á námskeið í sápugerð, snyrtivörugerð, brjóstsykursgerð, matreiðslu, skartgripagerð, myndlist og leir.

Ábendingagátt