Get ég aðstoðað? Landsfundur Upplýsingar

Fréttir

Landsfundur Upplýsingar, fagfélags á sviði bókasafns-og upplýsingafræða, var haldinn á Ásvöllum í Hafnarfirði í lok síðustu viku. Yfirskrift fundarins í ár var: Get ég aðstoðað? Þjónusta og uppbygging bókasafna í nútímasamfélagi og voru gestir um 200 talsins víðsvegar að af landinu öllu.

Fjölmennur landsfundur Upplýsingar haldinn í Hafnarfirði

Landsfundur Upplýsingar, fagfélags á sviði bókasafns-og upplýsingafræða, var haldinn á Ásvöllum í Hafnarfirði í lok síðustu viku. Yfirskrift fundarins í ár var: Get ég aðstoðað? Þjónusta og uppbygging bókasafna í nútímasamfélagi og voru gestir um 200 talsins víðsvegar að af landinu öllu. Lykilfyrirlesarar landsfundar voru þeir Jan Holmquist og Kenneth Korstad Langås og var dagskrá og framkvæmd fundar í ár í höndum Bókasafns Hafnarfjarðar og Bókasafns Garðabæjar. Metnaðarfullri dagskrá lauk með sögugöngu um Hafnarfjörð þar sem gengið var frá Byggðasafni Hafnarfjarðar undir leiðsögn Björns Péturssonar bæjarminjavarðar.

Bókasafnsþjónusta er hverju samfélagi mikilvæg

Jan Holmquist fjallaði um aðlögun að breytingum og umbreytingu bókasafnsþjónustu fyrir nútímasamfélag. Kenneth Korstad Langås ræddi mikilvægi bókasafna í erindi sínu og hvernig þau eru ákveðið bjargráð nærsamfélagsins. Hjónin Agnes og Elias Våhlund, barnabókahöfundur og teiknari, stigu einnig á svið og fjölluðu um bókaröðina sína Handbók fyrir ofurhetjur sem nær sannað er að hafa breytt lífi barna, ræddu hugsanir sínar og ferlið á bak við bókaskrifin en bókaröðin er mjög vinsæl meðal annars á Íslandi. Í aðdraganda landsfundar heimsóttu Agnes og Elias bæði Bókasafn Hafnarfjarðar þar sem 100 börn og ungmenni fengu bækur sínar áritaðar auk þess að hitta rúmlega 200 nemendur 6. bekkja grunnskóla Hafnarfjarðar í spjall og kynningu í Bæjarbíó.

Nokkur erindi á dagskrá landsfundar voru héðan úr Hafnarfirði

Hugrún Margrét deildarstjóri barnadeildar á Bókasafni Hafnarfjarðar fjallaði um ríka áherslu safnsins á fjölmenningu og þjónustu án aðgreiningar fyrir alla og Guðrún Ragna Yngvadóttir frá Ask arkitektar kynnti nýjar og spennandi hugmyndir að nýju bókasafni í Hafnarfirði á nýjum stað við Fjörð verslunarmiðstöð.

Bjartey Sigurðardóttir, talmeinafræðingur og verkefnastjóri Lestur er lífsins leikur, og barnabókahöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir sögðu frá læsispennandi lestrarverkefninu LÆK sem unnið er í samstarfi miðdeilda og unglingadeilda allra grunnskóla Hafnarfjarðar við þau Bergrúnu Írisi og Gunnar Helgason.

Sandra Björg Ernudóttir bókasafnsfræðingur í Skarðshlíðarskóla fjallaði svo um verkefnið Bókabrall sem er samstarfsverkefni allra skólabókasafnanna í Hafnarfirði. Söfnin eru níu talsins og starfar einn bókasafnsfræðingur á hverju safni. Þessir hópur starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar hefur tekið lestrarverkefnið Lestur er lífsins leikur alla leið og fært með fjölbreyttum hætti og öðruvísi nálgun ævintýri bóka og lesturs á borð barna og ungmenna í Hafnarfirði. Lestur er sannarlega lífsins leikur!

Komdu á bókasafn! Takk Upplýsing fyrir frábæran fund!

Vefur Upplýsingar

Ábendingagátt