Gjafabréf á góða skemmtun í hjarta Hafnarfjarðar

Fréttir

Starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar hefur síðustu daga og vikur lagst á eitt í því mikilvæga verkefni að halda úti þjónustu sveitarfélagsins sem verður að haldast órofin á öllum viðbúnaðarstigum almannavarna. Í ljósi alls var ákveðið að gleðja allt starfsfólk sveitarfélagsins með gjafabréfi á góða skemmtun í hjarta Hafnarfjarðar þegar yfir lýkur.

Starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar hefur síðustu daga og vikur
lagst á eitt í því mikilvæga verkefni að halda úti þjónustu sveitarfélagsins sem
verður að haldast órofin á öllum viðbúnaðarstigum almannavarna. Þannig hefur
mannauðurinn fetað saman óþekktan veg nýrra áskorana sem kallað hafa á endurskoðun
og uppstokkun á veittri þjónustu og sveigjanleika í starfi starfsfólks sem mætt
hefur verkefnum af miklum dugnaði og æðruleysi. Í ljósi alls var ákveðið að
gleðja allt starfsfólk sveitarfélagsins með gjafabréfi á góða skemmtun í hjarta
Hafnarfjarðar þegar yfir lýkur.

„Það hefur verið
ótrúlegt að fylgjast með því hvernig starfsfólk sveitarfélagsins fyrirvaralaust
brugðist við breyttum aðstæðum og
umhverfi sem var okkur öllum óþekkt. Það
er þessum hópi að þakka að við höfum náð að halda úti, með óbreyttu eða breyttu
formi, allri þeirri þjónustu sem skilgreind er sem samfélagslega mikilvæg“
segir
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Starfsfólk fær nú fyrir páska
að gjöf frá bænum sínum opið gjafabréf í Bæjarbíó að upphæð 5.000.- kr á
tónleika eða skemmtun að eigin vali þegar samkomubanni hefur verið aflétt. „Með þessari gjöf viljum við slá tvær flugur
í einu höggi. Gleðja starfsfólkið okkar sem á það sannarlega skilið og leggja
okkar af mörkum til að koma menningar- og bæjarlífinu sem við erum svo stolt
af, aftur í gang eftir þetta krefjandi verkefni. Það verða líka án efa margir
starfsmenn sem kjósa að fara út að borða áður en þeir nýta gjafabréfið og
jafnvel kaupa sér eitthvað fallegt til að vera í. Við getum öll farið að hlakka
til að skemmta okkur saman og njóta alls þess sem bærinn okkar hefur upp á að
bjóða í verslun, þjónustu og afþreyingu,“
segir Rósa.

VidErumHjartaHafnarfjardar

Það hafa allir lagt á
eitt og það er þakkarvert

Sveitarfélagið veitir samfélagslega mikilvæga þjónustu sem
má aldrei rofna og hefur mikið mætt á starfsfólki t.d. fjölskyldu- og
barnamálasviðs frá því að Covid19 faraldurinn gerði fyrst vart við sig við m.a.
endurskipulagningu á félagsstarfi og vinnuúrræðum fyrir fatlað fólk,
félagsstarfi eldra borgara til að tryggja virkni þeirra og félagsleg tengsl,
heimaþjónustu og starfi barnaverndar við úrlausn mála við nýjar og breyttar
aðstæður sem er til þess fallnar að auka kvíða og áhyggjur hjá ákveðnum hópum.
Starfsfólk mennta- og lýðheilsusviðs og þar með talið starfsfólk leik- og
grunnskóla hefur svo lagst á eitt við að skipuleggja skert skólastarf í takt
við tilmæli yfirvalda. Annarri þjónustu; m.a. menningarstofnana og sundlauga,
var haldið úti með breyttu formi þar til samkomubann var hert og koma þurfti
til lokunar. Starfsfólki þessara starfsstöðva hefur verið falin önnur verkefni
auk þess sem ákveðinn hópur er á bakvakt komi til veikinda annars staðar í
kerfinu. „Starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar
hefur í gegnum árin ítrekað sýnt hversu öflugt það er í ólíkum og margvíslegum
störfum sínum sem kalla á virka
samvinnu. Og ekki síður hversu samstilltur og sterkur hópurinn getur verið þegar
á móti blæs. Það hefur sýnt sig nú síðustu daga og fyrir það er ég afar
þakklát“
segir Rósa að lokum. 

Ábendingagátt