Gjaldtaka stöðuleyfa lögmæt

Fréttir

Að gefnu tilefni er mikilvægt að árétta mikilvægi og réttmæti stöðugjalda gáma. Skýr ákvæði eru um það í byggingarreglugerð að óheimilt er að hafa gáma á lóðum og ætli lóðarhafi að hafa gáma á lóðum lengur en tvo mánuði skal sækja um sérstaklegt leyfi.  Gjaldtaka fyrir útgáfu stöðuleyfis er byggð á lögum og því lögmæt.

Nokkuð er um það í Hafnarfjarðarbæ að lóðarhafar hafi gáma á lóðum sínum. Í upphafi árs 2016 var ákvörðun tekin um að taka upp það verklag að sækja þyrfti um stöðuleyfi vegna gáma og að innheimt yrðu stöðugjöld af þeim, samkvæmt  2.6.1. grein byggingingarreglugerðar nr.112/2012 og reglum um stöðuleyfi sem samþykktar voru í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 20. janúar 2016. Á þetta við um alla lóðarhafa atvinnu- og íbúðarlóða nema þá sem eru með skilgreint gámasvæði samkvæmt skipulagi.

Hafnarfjarðarbær sendi lóðarhöfum bréf, dagsett 21. mars 2016, til upplýsinga þar sem þeim voru gefnir tæpir tveir mánuðir eða til 15. maí 2016 til að setja sig í samband við bæinn, losa sig við gáma eða sækja um stöðuleyfi. Það þótti eðlilegur og góður frestur til aðgerða. Fullt gjald var innheimt af öllum leyfisskyldum gámum eftir 15. maí rétt eins og tilkynnt hafði verið og er það samkvæmt gjaldskrá fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa við skráningu, talningu, staðsetningu á svæði samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti og eftirfylgni. Fjöldi fyrirtækja og einstaklinga setti sig í samband við bæinn með skýringar á sínum gámum, notuðu tækifærið og losuðu sig við gáma af lóðum og aðrir sóttu um stöðuleyfi. Mál nokkurra fyrirtækja eru enn í vinnslu og þar á meðal þeirra sem lýst hafa yfir óánægju sinni með framkvæmdina.

Skýrt ákvæði er um það í byggingarreglugerð að óheimilt er hafa gáma á lóðum og ætli lóðarhafi að hafa gám á lóð lengur en tvo mánuði skal hann sækja um stöðuleyfi sbr. grein 2.6.1 í byggingarreglugerð. Gámar skulu vera staðsettir innan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu gáma samkvæmt byggingarreglugerð og 9. tl. 60. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Gjaldtaka fyrir útgáfu stöðuleyfis er byggð á lögum og því lögmæt. Ef stöðuleyfi fyrir gám er ekki veitt skal lóðarhafi fjarlægja hann af lóðinni.

Gámum sem standa skemur en til tveggja mánuða skal þannig komið fyrir á lóð að almenningi stafi ekki hætta af og ekki sé hætta á að eldur geti borist frá þeim í aðliggjandi hús. Ennfremur skal þess gætt að aðgengi slökkviliðs að aðliggjandi húsum sé ekki torveldað. Þessu er því miður ábótavant í of mörgum tilfellum. 

Samþykkt um stöðuleyfi er að finna hér

Gjaldskrá er að finna hér

Ljósmynd: mbl.is  

Ábendingagátt