Glæný molta án endurgjalds
Við Hafnfirðingar getum sótt moltu frá morgundeginum á planinu við garðlöndin á Víðistöðum og á endurvinnslustöðinni á Breiðhellu.
Molta án endurgjalds fyrir þig!
Já, við íbúar Hafnarfjarðar höfum staðið okkur stórvel við að flokka matarleifarnar og getum því notið afrakstursins og fengið moltu úr GAJU, gas- og jarðgerðarstöð SORPU án endurgjalds. Moltan fæst frá og með morgundeginum á planinu við garðlöndin á Víðistöðum og á endurvinnslustöðinni á Breiðhellu. Moltan í boði er úr fyrstu uppskerunni en á síðasta ári flokkuðu íbúar höfuðborgarsvæðisins um 10.500 tonn af lífrænum úrgangi. Molta er öflugur og hollur jarðvegsbætir sem nærir jarðveginn. Hún er ólík mold að því leiti að hún inniheldur ekki nein ólífræn efni, eins og sand eða möl.
Hringrásin byrjar í eldhúsinu
Eins og SORPA orðar það er GAJA molta ætluð til notkunar utanhúss. Hún henti vel til notkunar á akra, lóðir, græn svæði í þéttbýli, beð og matjurtagarða. Moltan sé sterk og bein snerting óblandaðrar moltu við rætur plantna sé ekki æskileg. GAJA molta er framleidd í samræmi við starfsleyfi Matvælastofnunar og skráð sem lífrænn áburður. Já, hringrásin byrjar í eldhúsinu. Þið sem eigið leið víðar um höfuðborgarsvæðið getið einnig sótt moltu á fleiri staði. Hana má fá á endurvinnslustöðvum SORPU við Breiðhellu, Sævarhöfða og Ánanaust.
Takk fyrir að flokka matarleifar. Það er sannarlega þess virði!