Gleðigangan í undirbúningi

Fréttir

Jafningjafræðslan Competo ásamt listahópi og skapandi sumarstörfum í Vinnuskóla Hafnarfjarðar sjá um skipulagningu á framlagi Hafnarfjarðarbæjar til Gleðigöngunnar í ár. Slagorð göngu er tilbúið, heimagerðar skreytingar í vinnslu og atriði á palli í æfingu.

Laugardaginn 6. ágúst
fer fram hin árlega gleðiganga Hinsegin daga.
Hafnarfjarðarbær mun í ár, líkt og fyrri ár, taka þátt í göngunni og
stendur undirbúningur nú yfir. Jafningjafræðslan Competo ásamt listahópi og
skapandi sumarstörfum í Vinnuskóla Hafnarfjarðar sjá um skipulagningu göngunnar í ár. Slagorð göngu er tilbúið, heimagerðar skreytingar
í vinnslu og atriði á palli í æfingu. 

Mannkynið er okkar
kynþáttur. Ást er okkar trú.

Í ár mun Hafnarfjarðarbær birtast í fjólubláum lit undir
slagorðinu: Mannkynið er okkar kynþáttur. Ást er okkar trú.  Uppruni slagorðs er erlendur: Humanity should
be our race. Love should be our religion,
en þýðing var í höndum jafningafræðslunnar. Slagorðið þykir mjög lýsandi og viðeigandi á þessum degi sem og alla aðra daga og er mjög í anda stefnu
bæjarins í fjölskyldu- og jafnréttismálum. Slagorðið færir fallegan boðskap,
fagnar fjölbreytileikanum og vekur á sama tíma fólk til umhugsunar. Búist er
við að hátt í 30 ungmenni á aldrinum 15 – 22 ára leiði framlag
Hafnarfjarðarbæjar til gleðigöngunnar í ár. Hluti þeirra mun troða upp með
lifandi tónlist á palli. Samhliða er skorað á alla starfsmenn, íbúa
Hafnarfjarðarbæjar, fjölskyldur þeirra og aðra áhugasama að taka þátt í
gleðinni með því að ganga til liðs við hópinn, ganga á eftir bíl bæjarins og
gaman væri ef mannskapurinn myndi mæta í einhverju gulu og fjólubláu sem verða
einkennislitir göngunnar í ár. Ungmennahópurinn mun ganga í fjólubláum bolum
með slagorði.  Aðalmarkmiðið er hinsvegar
að mæta á sínum eigin forsendum, taka þátt í göngu í þágu mannréttinda og
mannvirðingar og fanga þeirri viðhorfsbreytingu sem orðið hefur í samfélaginu
síðustu ár.

Almennar upplýsingar um Gleðigönguna 2016 er að finna hér

Nánari upplýsingar um framkvæmd og fyrirkomulag göngu á
vegum Hafnarfjarðarbæjar verða birtar hér á síðunni í vikunni fyrir
gleðigönguna.

Ábendingagátt