Góðar umræður á unglingaþingi

Fréttir

Ungmennaráð Hafnarfjarðar hélt árlegt unglingaþing á mánudagskvöldið en þar fengu unglingar í Hafnarfirði tækifæri til þess að koma ábendingum á framfæri sem ungmennaráð vinnur áfram með og kemur til bæjaryfirvalda.

Ungmennaráð Hafnarfjarðar hélt árlegt unglingaþing í félagsmiðstöðinni Vitanum í Lækjarskóla mánudagskvöldið 13. apríl. Þar fá unglingar í Hafnarfirði tækifæri til þess að koma ábendingum á framfæri sem ungmennaráð vinnur áfram með og kemur til bæjaryfirvalda. Á þinginu sköpuðust góðar umræður og margvíslegar tillögur voru lagðar fram en í upphafi skrifaði unga fólkið hugmyndir á gula miða sem voru svo ræddir í þaula í litlum hópum.

Ungmennaráð er skipað tveimur fulltrúum úr öllum grunnskólum í Hafnarfirði, þremur úr hvorum framhaldsskólanum og þrír fulltrúar eru valdir í gegnum ungmennahúsið Húsið, sem eru þá fulltrúar þeirra sem eru ekki í skóla eða sækja nám í annað sveitarfélag.

Unglingaþing var fyrst haldið í Hafnarfirði árið 2004 og margar tillögur unglinganna litu síðar dagsins ljós, s.s. unglingagjald í strætó og nýjar rennibrautir í Suðurbæjarlaug. Að loknu þingi var ungmennaráð stofnað sem hefur síðan haldið utan um undirbúning og framkvæmd unglingaþings. 

Ábendingagátt