Gönguskíðabraut á Óla Run túni og Hvaleyrinni

Fréttir

Hafnfirðingar eru að upplifa alvöru vetrarríki þessa dagana.  Til að svala útivistar- og hreyfingarþörf hjá glaðbeittu gönguskíðafólki hefur Golfklúbburinn Keilir, í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ, lagt gönguskíðaslóða á Óla Run túni og Hvaleyrinni. 

Komdu á gönguskíði heima í Hafnarfirði 

Hafnfirðingar eru að upplifa alvöru vetrarríki þessa dagana. Fallegur snjór liggur yfir öllu sem opnar á möguleika í ástundun vetraríþrótta eins og gönguskíða. Skautar og snjóþotur hafa verið dregnar fram og nú er snjólag orðið það mikið að hægt er með góðu móti að draga líka fram gönguskíðin.  Til að svala útivistar- og hreyfingarþörf hjá glaðbeittu gönguskíðafólki hefur Golfklúbburinn Keilir,  í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ, lagt gönguskíðaslóða á Óla Run túni. Slóði hefur einnig verið lagður á Hvaleyrarvelli en eins og staðan er í dag er færið betra á Óla Run túni.

Gönguskíðabraut á Óla Run túni

Tilvalið sport fyrir alla aldurshópa

Gönguskíði hafa notið sívaxandi vinsælda síðustu ár og eru Hafnfirðingar og vinir Hafnarfjarðar í hópi virkra iðkenda. Um er að ræða tilvalið sport fyrir alla fjölskylduna sem sameinar samveru, útiveru, hreyfingu og heilan helling af súrefni. Það er von Heilsubæjarins Hafnarfjarðar að Hafnfirðingar noti tækifærið, stökkvi af stað og nýti sér þennan möguleika til útivistar í Hafnarfirði. Þá sjaldan sem tækifærið gefst. 

Ábendingagátt