Gönguskíðaspor á Hvaleyrarvatni

Fréttir

Það er mikill hugur í Skíða- og Skautafélagi Hafnarfjarðar og til stendur að félagið leggi gönguskíðaspor á Hvaleyrarvatni í dag ef aðstæður, veður og vindar leyfa. Sérstök athygli er vakin á því að ísakstur og öll umferð vélhjóla og bifreiða er bönnuð á vatninu og hefur verið frá árinu 2006.

Upplifðu einstaka og litríka náttúru – á gönguskíðum

Það er mikill hugur í Skíða- og Skautafélagi Hafnarfjarðar og til stendur að félagið leggi gönguskíðaspor á Hvaleyrarvatni í dag ef aðstæður, veður og vindar leyfa. Sérstök athygli er vakin á því að ísakstur og öll umferð vélhjóla og bifreiða er bönnuð á vatninu og hefur verið frá árinu 2006. Mikil ánægja hefur verið með lagningu gönguskíðaspora síðustu árin og er vilji fyrir því að halda áfram að efla og styrkja þennan möguleika til útivistar innan bæjarmarkanna.

Hreyfing sem sameinar kynslóðir

Náttúruperlan Hvaleyravatn er vinsæl allt árið um kring með fjölbreyttan tilgang en sama markmið – að njóta einstakrar og litríkrar náttúru í upplandi Hafnarfjarðar. Auðvelt er að leggja bílum í nálægð við Hvaleyrarvatn og gönguleiðir eru margar um svæðið og mislangar og áningabekkir á þónokkrum útvöldum stöðum. Í frosti breytist svo vatnið sjálft í dásamlegt skautasvell eða gönguskíðabraut Við hvetjum ykkur kæru Hafnfirðingar og vinir Hafnarfjarðar til að fylgjast framgangi mála við lagningu gönguskíðaspora á Facebooksíðu Skíða- og skautafélags Hafnarfjarðar. Sjálfboðaliðar úr röðum félagsins hafa haft veg og vanda af eflingu gönguskíðaíþróttarinnar innan bæjarins og eiga mikið og stórt hrós skilið fyrir það. Stór hópur íbúa á höfuðborgarsvæðinu stundar gönguskíði þegar þannig viðrar enda um að ræða hreyfingu sem hentar öllum aldri.

Ísakstur og umferð bönnuð á Hvaleyrarvatni

Vakin er sérstök athygli á því að ísakstur og öll umferð vélhjóla og bifreiða er bönnuð á Hvaleyrarvatni og hefur verið frá árinu 2006. Hvaleyrarvatn og svæðið umlykjandi er skilgreint sem útivistarsvæði samkvæmt deiliskipulagi og áhersla lögð á að þetta vinsæla svæði sé án hávaðamengunar og ónæðis þannig að sem flestir fái notið sinnar útivistar.

Ábendingagátt