Grænt ljós á Hafnarfjarðarbæ og Hafnarfjarðarhöfn

Fréttir

Hafnarfjarðarbær og Hafnarfjarðarhöfn fengu á dögunum Græna ljósið frá Orkusölunni sem staðfestir og vottar að sveitarfélagið og höfnin notar í rekstri sínum 100% endurnýjanlega raforku með upprunaábyrgðum samkvæmt alþjóðlegum staðli. Þetta skref og þessi vottun er liður í grænni vegferð sveitarfélagsins.

Hafnarfjarðarbær og Hafnarfjarðarhöfn fengu á dögunum Græna ljósið frá Orkusölunni sem staðfestir og vottar að sveitarfélagið og höfnin nota í rekstri sínum 100% endurnýjanlega raforku með upprunaábyrgðum samkvæmt alþjóðlegum staðli. Þetta skref og þessi vottun er liður í grænni vegferð sveitarfélagsins.

Eitt af yfirlýstum markmiðum Hafnarfjarðarbæjar er að vera í fararbroddi í sjálfbærni og umhverfismálum, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og myndunar úrgangs. Sveitarfélagið hefur tekið umhverfismálin föstum tökum og meðal annars einsett sér að draga verulega úr myndun mengunar og úrgangs með ábyrgum innkaupum, neyslu og aukinni endurvinnslu. Þannig er þessi vottun enn eitt skrefið í átt að grænni framtíð sveitarfélagsins. Nýlega gekk Hafnarfjarðarbær til liðs við Grænni Byggð og gaf samhliða út að umhverfisvistvottuð uppbygging á keyptum lóðum í Hafnarfirði veiti allt að 30% afslátt af lóðarverði. Í júní undirritaði sveitarfélagið svo samning við Kolvið um kolefnisjöfnun á rekstri þess og hljóðaði sá samningur upp á gróðursetningu 8.900 trjáa fyrir rekstrarárið 2018. „Það er mikill heiður að fá Grænt ljós frá Orkusölunni og um að ræða enn eina rósina í hnappagatið í grænni vegferð sveitarfélagsins. Við höldum áfram að stíga markviss og örugg skref í átt að bjartari og enn grænni framtíð. Við erum stórt sveitarfélag og berum mikla ábyrgð í umhverfis- og loftslagsmálum“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar.

Hvað er Grænt ljós?

Orkusalan gerir öllum viðskiptavinum sínum mögulegt að fá svokallað Grænt ljós, þar sem öll raforkusala er vottuð 100% endurnýjanleg með upprunaábyrgðum samkvæmt alþjóðlegum staðli. Tilgangur upprunaábyrgðakerfisins er að auka hlut endurnýjanlegrar orku í Evrópu og eru ábyrgðirnar notaðar til að uppfylla skilyrði fjölda alþjóðlegra umhverfismerkja.

Umhverfis- og auðlindastefnu sveitarfélagsins má finna HÉR

Ábendingagátt