Grunnskólastarf hefst 24. ágúst

Fréttir

Formlegt skólastarf nemenda í grunnskólum Hafnarfjarðar hefst á morgun þriðjudaginn 24. ágúst. Um 4.300 hafnfirsk börn setjast á grunnskólabekk þetta haustið samanlagt í öllum grunnskólum Hafnarfjarðar. Af þeim eru yfir 350 börn að hefja nám í 1. bekk og svipaður nemendafjöldi lauk námi úr 10. bekk í vor svo nemendafjöldinn í Hafnarfirði er svipaður milli skólaára. 

Formlegt skólastarf nemenda í grunnskólum Hafnarfjarðar hefst á morgun þriðjudaginn 24. ágúst. Um 4.300 hafnfirsk börn setjast á grunnskólabekk þetta haustið samanlagt í öllum grunnskólum Hafnarfjarðar. Af þeim eru yfir 350 börn að hefja nám í 1. bekk og svipaður nemendafjöldi lauk námi úr 10. bekk í vor svo nemendafjöldinn í Hafnarfirði er svipaður milli skólaára. Ellefu grunnskólar eru starfræktir í bænum, níu af sveitarfélaginu en auk þess eru Barnaskóli Hjallastefnunnar og Nú – framsýn menntun sjálfstætt starfandi grunnskólar í bænum.

Skólahald hefst með eðlilegum hætti

Í takti við gildandi reglugerð þá hefst skólastarf með eðlilegum hætti sem þýðir að kennsla verður samkvæmt stundaskrá hjá öllum nemendum auk matarþjónustu, skólaþjónustu, frístundaheimila og félagsmiðstöða. En því til viðbótar, líkt og var við upphaf grunnskólastarfs haustið 2020, er rík áhersla áfram lögð á sóttvarnir og þrif í skólunum og hreinlæti og persónulegar sóttvarnir meðal nemenda og starfsfólks. Takmarkanir eru enn á heimsóknir foreldra í skóla og foreldrar beðnir um að koma aðeins inn í skóla hafi þeir þangað brýnt erindi. Við skólasetningu er foreldrum nýnema og foreldrum og forráðamönnum nemenda í 1. bekk heimilt að koma í skólana og upplifa skólasetningu með börnum sínum en skólasetning í 2.-10. bekk fer fram án foreldra. Nánari upplýsingar um skólasetningu er að finna á vef hvers skóla fyrir sig sem gefa auk þess góðar upplýsingar um starf og áherslur skólanna.

Starfsemi frístundaheimila einnig óbreytt

Starfsemi frístundaheimila verður einnig óbreytt og hefja þau starfsemi miðvikudaginn 25. ágúst fyrir nemendur í 1.-4. bekk. Nemendur í 1. bekk eru þegar komnir á sérstakt sumarnámskeið í hverjum grunnskóla sem stendur yfir fram að skólabyrjun.

Næring á skólatíma

Í grunnskólum Hafnarfjarðar er öllum nemendum boðið upp á hafragraut fyrir kennslu, foreldrum /forráðamönnum að kostnaðarlausu. Auk þess er boðið upp á ávexti að morgni í áskrift fyrir alla nemendur grunnskólanna. Pöntun á áskrift á ávöxtum og hádegismat fer fram í gegnum vef Skólamatar – https://askrift.skolamatur.is/  – nema í Áslandsskóla þar sem starfrækt er framleiðslueldhús og boðið upp á sömu þjónustu fyrir alla nemendur skólans. Þar þurfa nemendur að skila inn sérstöku matarpöntunarblaði til skólans. Upplýsingar um pantanir tengdar matarþjónustu munu berast frá skólunum til foreldra í skólabyrjun. Matarþjónusta grunnskólanna hefst 26. ágúst.

Ókeypis námsgögn 

Hafnarfjarðarbær útvegar grunnskólanemendum námsgögn þeim að kostnaðarlausu og sér um innkaup á ritföngum sem nota þarf í skólastarfinu. Þannig munu nemendur fá stílabækur, skriffæri, möppur og annað slíkt til viðbótar við námsbækur. Nemendur munu fá slíkt eftir þörfum eftir að skólastarfið hefst en skólataska, íþróttaföt og ritföng við heimanám er á ábyrgð foreldra.

Farsæl og gott samstarf heimilis og skóla lykilþáttur í skólastarfinu

Að mörgu er að hyggja í grunnskólastarfinu. Almennt veitir viðkomandi grunnskóli upplýsingar um daglega starfsemi og á vef bæjarins má einnig finna ýmsar upplýsingar um grunnskólastarfið. Auk þess er hægt að senda inn fyrirspurnir á hafnarfjordur@hafnarfjordur.is. Farsæl skólabyrjun skiptir máli og góð tenging, samtal og samstarf heimilis og skóla er þar lykilþáttur. Góð námsskilyrði og vellíðan í skóla eykur líkurnar á því að hver og einn nemandi geti þroskast og dafnað á eigin forsendum.

Ábendingagátt