Guðbjörg Norðfjörð nýr skólastjóri Hamranesskóla

Fréttir

Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir hefur verið ráðin skólastjóri Hamranesskóla frá 1. nóvember næstkomandi.

Guðbjörg stýrir Hamranesskóla

„Ég er virkilega spennt að vinna með samfélaginu við að byggja upp þennan nýja skóla,“ segir Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir, sem hefur verið ráðin skólastjóri Hamranesskóla frá 1. nóvember næstkomandi. Hún er menntaður kennari og hóf nýverið meistaranám í forystu og stjórnun. Hún hefur starfað lengur en 20 ár í grunnskóla sem kennari, deildarstjóri, aðstoðarskólastjóri og skólastjóri síðasta vetur í Hraunvallaskóla.

„Ég fann þá hvað starfið á vel við mig og hef nú ákveðið hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór,“ segir hún léttum tóni.

Skóli fyrir eins til sextán ára

Í Hamranesi í Hafnarfirði rís nú heildstæður skóli fyrir börn á aldrinum 12 mánaða til 16 ára. Skólinn verður byggður samkvæmt metnaðarfullri hugmyndafræði og býður uppá spennandi tækifæri til nýbreytni í skólastarfi. Í skólanum er gert ráð fyrir frístundaheimili og félagsmiðstöð ásamt útbúi frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Það er líka talað um að skólinn verði miðstöð hverfisins og að þar verði bókasafn fyrir hverfið.

„Það er spennandi nálgun að vinna saman sem samfélag að mótun skólans,“ segir Guðbjörg og að mikilvægt sé að börn sinni íþrótta- og/eða tómstundanámi. Hún leggi mikið upp úr því.

Mótar liðsheild frá grunni

Guðbjörg fær einmitt það verkefni að mynda samhenta liðsheild og þróa jákvæðan skólabrag sem stuðlar að vellíðan, samvinnu, fjölbreytileika og sköpun í samræmi við menntastefnu Hafnarfjarðar. Mikið happ er að hún er vön liðsheildarhugsun enda fyrrum formaður Körfuknattleikssambands Íslands.

„Sú reynsla nýtist mér vel. Ég er mikil liðsheildarkona og hef haft það að leiðarljósi. Ég lærði mikið á körfuboltastarfinu um hvernig á að vinna saman sem lið, teymi, hópur. Ég mun nýta það óspart,“ segir hún.

„Ég hef þann draum að allir nemendur taki þátt í íþrótta- og tómstundastarfi af einhverju tagi. Það er samfélagslega gott fyrir alla; fyrir nemendur, foreldra og alla sem búa í samfélaginu. Það er afar stórt tækifæri að fá að gera þetta frá byrjun.“

Skóli fyrir 450 nemendur

Guðbjörg hefur brátt störf í þessum skóla sem rúma mun um 450 nemendur. Nú hefst vinna við mótunina og að ráða inn annað starfsfólk við hlið hennar.

„Við byrjum svo að kenna 1.-4. bekk strax næsta haust og stækkum svo skólann smátt og smátt þar til hann kemst í fulla starfsemi.“

Við bjóðum Guðbjörgu velkomna til áframhaldandi starfa!

Ábendingagátt