Hádegistónleikar í Hafnarborg

Fréttir

Viðar Gunnarsson kemur fram á hádegistónleikum í Hafnarborg þriðjudaginn 24. febrúar kl. 12 ásamt Antóníu Hevesi píanóleikara.

Viðar Gunnarsson kemur fram á hádegistónleikum í Hafnarborg þriðjudaginn 24. febrúar kl. 12 ásamt Antóníu Hevesi píanóleikara.

Á tónleikunum sem bera nafnið Ást og bænir mun Viðar flytja þekktar ítalskar aríur eftir W. A. Mozart, G. Donizetti og G. Verdi.

Þetta verða fyrstu hádegistónleikarnir eftir áramót en fyrr á þessu tónleikaári komu fram Elmar Gilbertsson, Hlín Pétursdóttir, Kristján Jóhannsson og Hanna Þóra Guðbrandsdóttir. Í marsmánuði mun Sigrún Pálmadóttir sópran flytja ítalskt prógram og í apríl er það Hafnfirðingurinn Sigurður Skagfjörð sem flytur vel valin verk.

Viðar Gunnarsson, bassi stundaði tónlistarnám við Söngskólann í Reykjavík undir handleiðslu Garðars Cortes og síðar framhaldsnám hjá dr. Folke Sällström í Stokkhólmi á árunum 1981 til 1984. Að námi loknu söng hann reglulega við Íslensku óperuna frá 1984 og Þjóðleikhúsið frá 1985.

Viðar var ráðinn óperusöngvari við Kammeróperuna og Schönbrunner Schloßtheater í Vínarborg 1989-1990 og var fastráðinn við Ríkisleikhúsið í Wiesbaden á árunum 1990 til 1995. Viðar hefur sungið í óperuhúsum víða um Evrópu, komið fram sem einsöngvari með íslenskum og erlendum kórum, sem og með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Meðal hlutverka sem Viðar hefur sungið eru Colline í La Bohème, Pater Guardiano í Á valdi örlaganna, Grand´Inquisitor í Don Carlos, Il Re og Ramfis í Aidu, Sarastro í Töfraflautunni, Il Commendatore í Don Giovanni, titilhlutverkið í Boris Godunov, auk ólíkra hlutverka í ýmsum óperum Wagners. Viðar söng hlutverk fyrsta reglubróður í Töfraflautunni hjá Íslensku óperunni haustið 2011, Ferrando í Il Trovatore haustið 2012, Zuniga í Carmen haustið 2013, Brynjólf biskup í Ragnheiði vorið 2014 og Karl 5. í uppfærslu Íslensku Óperunnar á Don Carlo, haustið 2014.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Út vorönnina 2015 verða hádegistónleikar Hafnarborgar haldnir síðasta þriðjudag í mánuði.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.

Ábendingagátt