Hafnarfjarðarbær heiðraður af Golfsambandi Íslands

Fréttir

Stjórn GSÍ hefur heimild til að veita heiðursviðurkenningar til einstaklinga, fyrirtækja, félagasamtaka og sveitarfélaga sem skarað hafa fram úr með stuðningi sínum við golfhreyfinguna. Með því vill sambandið vekja athygli á því sem vel er gert og verðlauna fyrirmyndar vinnubrögð. Bæjarstjóri Hafnarfjarðar tók á móti viðurkenningunni á heimavelli í glæsilegri aðstöðu Keilis á Hvaleyrinni.

Viðurkenning fyrir vinnubrögð sem þykja til fyrirmyndar

Golfsamband Íslands veitti Hafnarfjarðarbæ heiðursskjal sambandsins fyrir árið 2024 á formannafundi GSÍ, sem fram fór þann 9. nóvember síðastliðinn. Stjórn GSÍ hefur heimild til að veita heiðursviðurkenningar til einstaklinga, fyrirtækja, félagasamtaka og sveitarfélaga sem skarað hafa fram úr með stuðningi sínum við golfhreyfinguna. Með því vill sambandið vekja athygli á því sem vel er gert og verðlauna fyrirmyndar vinnubrögð. Bæjarstjóri Hafnarfjarðar tók á móti viðurkenningunni í glæsilegri aðstöðu Keilis á Hvaleyrinni.

„Golf er lýðheilsumál og mikilvægur þáttur í fjölbreyttu úrvali íþrótta og tómstunda fyrir alla aldurshópa í Hafnarfirði. Tveir öflugir golfklúbbar eru starfandi í bænum og á síðasta fundi bæjarráðs tókum við jákvætt í erindi Golfklúbbsins Keilis um uppbyggingu á nýjum 27 holu golfvelli í upplandi Hafnarfjarðar og verður fljótlega hafinn undirbúningur þess,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar. „Þessi viðurkenning Golfsambandsins hvetur okkur áfram í þeirri vegferð að bæta enn möguleika til iðkunar þessarar frábæru íþróttar. Hjartans þakkir“. 

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri tók við viðurkenningunni frá Huldu Bjarnadóttur forseta GSÍ.

Öflug íþróttastefna ýtir undir ástundun

Í Hafnarfirði er öflugt og fjölbreytt íþróttastarf fyrir alla aldurshópa og hefur Golfhreyfingin á Íslandi notið góðs af markvissri íþróttastefnu og íþróttaáherslum bæjarins. Unnið er markvisst að uppbyggingu og þróun með framkvæmdaáætlanir íþróttafélaganna í bænum að mati Golfsambandsins. Gagnsæi upplýsinga á framkvæmdum og leyfum er þar til sérstakrar fyrirmyndar. Slíkt gefur golfklúbbum í Hafnarfirði tækifæri að huga að framtíð íþróttasvæða sinna. Þar með gefur það golfklúbbum bæjarins tækifæri á að bjóða góða aðstöðu til golfiðkunar almennt, keyra faglegar áherslur í afreksstarfi, lýðheilsumálum, sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð í heild. Þannig er samspil íþróttarinnar og bæjarfélagsins til mikils sóma. Slíkt samstarf og samtal mun skipta sköpum fyrir áframhaldandi uppbyggingu golfs á Íslandi og viljum við þakka Hafnarfjarðarbæ það sem bærinn leggur af mörkum. Með því að fylgja öflugri íþróttastefnu gefur Hafnarfjörður mörgum bæjarbúum tækifæri til að stunda golf, hvort heldur er til ánægju, heilsubótar eða með afreksárangur í huga.

Um 2.000 iðkendur í Hafnarfirði

Um 26.300 kylfingar eru skráðir í 62 golfklúbba víðs vegar um landið. Af þeim eru tæplega 2.000 iðkendur skráðir í golfklúbba Hafnarfjarðarbæjar. Af þeim skráðu iðkendum eru tæplega 250 iðkendur ungt fólk undir 18 ára aldri. Ætla má að enn fleiri nýti sér íþróttasvæði golfvallarins enda er æfingasvæðið mikið sótt og kylfingar úr öðrum nærliggjandi sveitafélögum sækja gjarnan þjónustuna sem þykir bjóða upp á margt af því besta sem í boði er í golfi á Íslandi.

Golf er lýðheilsumál

Nýlega var erindi Keilis varðandi uppbyggingu á nýjum golfvelli tekið fyrir í bæjarráði Hafnarfjarðar og fékk þar jákvæðar viðtökur. Þannig leggur Hafnarfjarðarbær mikið af mörkum til að efla lýðheilsu bæjarbúa. Rannsóknir hafa sýnt að golf ástundun lengir líf fólks. Golfíþróttin er ekki einungis heilsueflandi lífsstíll, einnig er þetta samvera og leikur margra kynslóða sem koma saman á golfvellinum dag hvern. Stjórn GSÍ þakkar Hafnarfjarðarbæ fyrir öflugan stuðning við golfhreyfinguna á Íslandi og er spennt fyrir að  halda næsta Íslandsmót í golfi hjá Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði dagana 7.-10. ágúst 2025. Hafnarfjarðarbær þakkar innilega fyrir þessa mikilvægu viðurkenningu og hvatningu.
Ábendingagátt