Hafnarfjarðarbær stofnar bílastæðasjóð

Fréttir

Hafnarfjarðarbær hefur stofnað bílastæðasjóð til að taka á stöðubrotum í bænum. Bærinn auglýsir eftir stöðuverði.

Hafnarfjarðarbær auglýsir eftir stöðuverði

Ert þú efni í stöðuvörð? Hafnarfjarðarbær hefur stofnað bílastæðasjóð til að taka á stöðubrotum í bænum. Bærinn auglýsir eftir stöðuverði.

  • Hlutverk stöðuvarðar verður að finna þá bíla sem lagt er ólöglega og tryggja að bílar sem lagt er til lengri tíma, jafnvel dögum saman í miðbænum, séu færðir.
  • Einnig að hafa upp á númerslausum ökutækjum á bæjarlandinu og að koma upplýsingum um þau ökutæki til viðeigandi aðila.

Gott er að hafa í huga að ekki er verið að leggja gjaldskyldu á bílastæði bæjarins. Aðeins er verið að tryggja öryggi og að bílum sé ekki lagt þar sem þeir eiga ekki að vera.

Verður sektað?

Til að byrja með verða aðvörunarmiðar settir á rúður bíla sem lagt er ólöglega, svona til að venja okkur við þessar breytingar og gefa tækifæri til að breyta rétt. Með tímanum, þegar þekking og reynsla er komin í verkið, verður sektað.

Þjónustan er í þágu bæjarbúa og fetar bærinn í  fótspor Kópavogsbæjar og Seltjarnarnesbæjar, sem reka bílastæðasjóði eingöngu til að sinna eftirliti með stöðubrotum.

Meðal verkefna stöðuvarðar verður að passa að rútum, vörubifreiðum, stórvirkum vinnuvélum og þess háttar tækjum sé ekki lagt í götum bæjarins án eftirlits. Slíkt getur skapað slysahættu auk þess sem þessi farartæki nýta bílstæði sem íbúar í hverfinu gætu annars nýtt.

 

Ábendingagátt