Hafnarfjarðarhlaupið er nýtt hlaup í hjarta Hafnarfjarðar

Fréttir

Hafnarfjarðarhlaupið verður haldið í fyrsta skipti að kvöldi fimmtudagsins 8. júní. Miðpunktur hlaupsins verður á Thorsplani, en þar mun hlaupið bæði byrja og enda. Hlaupið er opið öllum aldursflokkum. Hafnarfjarðarhlaupið mun komast í fámennan hóp götuhlaupa á Íslandi.

Eitt af fáum götuhlaupum á Íslandi – 10KM viðurkennd hlaupaleið í Heilsubænum Hafnarfirði

Hafnarfjarðarhlaupið verður haldið í fyrsta skipti að kvöldi fimmtudagsins 8. júní næstkomandi. Miðpunktur hlaupsins verður á Thorsplani, en þar mun hlaupið bæði byrja og enda. Hlaupið er opið öllum aldursflokkum. Hafnarfjarðarhlaupið mun komast í fámennan hóp götuhlaupa á Íslandi, þar sem hlaupið mun fara fram á götum bæjarins og lokað verður fyrir umferð í lengri og skemmri tíma á meðan hlaupið fer fram.

Götuhlaup fyrir alla um miðbæ, Suðurbæ og Norðurbæ

Hafnarfjarðarhlaupið er 10KM götuhlaup með hlaupaleið sem hefur verið viðurkennd af Frjálsíþróttasambandi Íslands. Reynt var að takmarka beygjur og brekkur í hlaupinu og ætti brautin því að vera tilvalin fyrir bætingar. Hlaupið verður ræst á Strandgötu við Thorsplan og hlaupið eftir Strandgötunni í átt að Suðurbæjarlaug. Þaðan er Suðurgatan hlaupin, farið yfir Lækinn og upp Álfaskeið þar sem mjög flatur og hraður kafli tekur við. Þar verður farið um hraunin og inn í Norðurbæ Hafnarfjarðar þar sem meðal annars verður hlaupið á Hjallabraut, Breiðvangi og Norðurvangi. Næst taka hlauparar lítinn hring í Garðabæ umhverfis Garðaholt að Herjólfsgötu þar sem við tekur hraður lokakafli með ágætri lækkun sem endar aftur við Thorsplan.

Fjölbreytt dagskrá á Thorsplani

Fjölbreytt dagskrá verður fyrir og eftir hlaupið en áhorfendum og keppendum mun meðal annars bjóðast að spreyta sig í margs konar frjálsíþróttaþrautum. Á hlaupaleiðinni verður drykkjarstöð við 5KM markið og á Thorsplani í lok hlaups. Keppendur geta nýtt sér munageymslu á meðan hlaupið fer fram auk salernisaðstöðu. Að hlaupi loknu mun öllum þátttakendum bjóðast að fara í sund í Suðurbæjarlaug sem verður opin til miðnættis í tilefni dagsins (birt með fyrirvara um að yfirstandandi verkfalli verði lokið). Glæsileg verðlaun í boði.

Hægt er að skrá sig í leiks til miðnættis þann 7. júní

Ábendingagátt