Hafnarfjarðarkaupstaður 110 ára þann 1. júní 2018

Fréttir

Hátíðardagskrá tengd tímamótunum og sjómannadeginum

Hafnarfjarðarkaupstaður fagnar á 110 ára afmæli sitt á þessu ári
og verður því fagnað með ýmiskonar viðburðahaldi í Hafnarfirði núna yfir
sjómannadagshelgina. Afmælisdagurinn er 1. júní en á þeim degi fyrir 110 árum
fékk Hafnarfjörður kaupstaðaréttindi, þá var einnig fyrsti kjörfundurinn
haldinn í Góðtemplarahúsinu.

Þann 1. júní 1909 bjuggu 1469 manns í bænum og 109 börn voru í
skráð í barnaskóla bæjarins. Tveir lögregluþjónar voru ráðnir sem voru „heljarmenni
að burðum og vöktu lögreglubúningarnir mikla athygli” segir í tilkynningu
frá Hafnarfjarðarbæ. Í dag búa 29.606 íbúar í Hafnarfirði og er þeim öllum
boðið að fagna við höfnina og í miðbæ Hafnarfjarðar um helgina.

Um helgina verður fjöldinn allur að viðburðum í bænum
en á mörgum þeirra verður sögu bæjarins gerð góð skil. Byggðasafn Hafnarfjarðar
hefur sett upp ljósmyndasýninguna „Hafnarfjörður frá fullveldi til lýðveldis“
en það er ljósmyndasýning á Strandstígnum. Á sýningunni er 50 ljósmyndir sem eru
lýsandi fyrir bæjarbraginn og lífið í bænum á þeim tíma. Í Pakkhúsinu,
Vesturgötu 6 er sýningin „Þannig var…“ þar sem saga sjávarþorpsins
Hafnarfjarðar er rakin frá landnámi til okkar daga.

Þá verður sýning á tillögum í opinni hugmyndasamkeppni um
framtíðarskipulag Flensborgarhafnar og Óseyrarsvæðis í Hafnarborg alla
Sjómannadagshelgina, opið 12:00-17:00.

En svo er heljarinnar dagskrá alla helgina sem hægt er
að skoða hér https://www.hafnarfjordur.is/mannlif/vidburdir/vidburdir-framundan/sjomannadagurinn-2018

 Loftmyndin er tekin af Guðmundi Fylkissyni.

 

Upphaf byggðar og
verslunar í Hafnafirði

Hafnarfjörður var í landnámi Ásbjarnar Özurarsonar,
bróðursonar Ingólfs Arnarsonar. Hafnarfjörður er fyrst nefndur í Hauksbók Landnámu,
þar sem segir frá brottför Hrafna-Flóka og samferðamanna hans
frá Íslandi. Frá upphafi landnáms á Íslandi og fram til upphafs 15. aldar kemur
staðurinn annars lítið sem ekkert við sögu.

Vegna góðra hafnarskilyrða frá náttúrunnar hendi varð
Hafnarfjörður ein helsta verslunar- og fiskveiðihöfn landsins frá og með
upphafi 15. aldar, eftir því sem skreið tók við af vaðmál sem
eftirsóttasta útflutningsvara Íslendinga. Í upphafi 15. aldar hófu Englendingar
fiskveiðar og verslun við Ísland. Árið 1413 kom fyrsta enska kaupskipið að
landi sem sögur fara af við Hafnarfjörð. Íslendingar tóku ensku kaupmönnunum
vel, en Danakonungur reyndi að koma í veg fyrir verslun Englendinga við Ísland
og þess vegna kom oft til átaka milli Englendinga og sendimanna Danakonungs.
Eftir því sem árin liðu urðu Englendingarnir ekki eins vel liðnir vegna
yfirgangs. Einnig áttu þeir til að ræna skreið frá Íslendingum.

Um 1468 hófu þýskir Hansakaupmenn siglingar
til Íslands frá Bergen í Noregi. Næstu tvo áratugina var hörð samkeppni á milli
Englendinga og Hansakaupmanna, sem leiddist oft út í slagsmál og bardaga. Þýsku
kaupmennirnir höfðu betur að lokum. Þeir gátu boðið ódýrari og fjölbreyttari
vöru heldur en Englendingarnir. Á seinni hluta 15. aldar var Hafnarfjörður
orðinn aðalhöfn Hamborgarmanna á Íslandi.

Um miðja öldina reyndu Danakonungar enn að koma í veg
fyrir verslun Þjóðverja á Íslandi og koma versluninni í hendur danskra
kaupmanna. Árið 1602 gaf Kristján 4.
Danakonungur
 út tilskipun um einokunarverslun og þar með varð úti um
verslunarsamband milli Íslands og Þýskalands.

Á fyrri hluta einokunartímabilsins var Hafnarfjörður
helsti verslunarstaður á Íslandi. Frá 1602-1774 var verslunin í höndum danskra
kaupmanna og verslunarfélaga, en árið 1774 tók konungurinn við versluninni.
Árið 1787 voru eignir konungsverslunarinnar seldar starfsmönnum hennar. Þá
myndaðist vísir að samkeppni í verslunarrekstri þegar lausakaupmenn fóru að
keppa við arftaka konungsverslunarinnar. Ekkert varð þó meira úr þessari
samkeppni, þar sem dönsku kaupmennirnir höfðu yfirhöndina. Árið 1795 kærðu
bændur dönsku kaupmennina fyrir of hátt verð á innfluttum vörum og kröfðust
þess að verslun yrði gefin algerlega frjáls.

Árið 1794 keypti Bjarni Sívertsen verslunarhús
konungsverslunarinnar. Hann gerðist brátt umsvifamikill kaupmaður og
útgerðarmaður. Hann keypti gamlar bújarðir í landi Hafnarfjarðar og kom upp
skipasmíðastöð. Bjarni varð einn af fyrstu Íslendingunum til að fá
verslunarleyfi eftir að danska einokunarverslunin var lögð niður. Vegna umsvifa
sinna í Hafnarfirði hefur hann oft verið nefndur faðir Hafnarfjarðar.

Frá árinu 1787 til 1908 voru flestir kaupmenn í
Hafnarfirði danskir. Einn norskur kaupmaður var þar, Hans Wingaard Friis frá
Álasundi í Noregi og hann búsettist í Hafnarfirði. Í upphafi tuttugustu aldar
fór íslenskum kaupmönnum hins vegar að fjölga, en þeim dönsku fór fækkandi að
sama skapi.

 

Kaupstaðarréttindi[breyta 

Upphaflega var Hafnarfjörður hluti af Álftaneshreppi. Hafnarfjörður hafði þá
sérstöðu miðað við aðra staði í hreppnum að aðalatvinnuvegur þar var
sjávarútvegur, en ekki landbúnaður. Vegna þessarar sérstöðu var vilji til þess
að gera Hafnarfjörð að sérstöku sveitarfélagi og kom hugmyndin fyrst fram
opinberlega árið 1876.

Árið 1878 var haldinn hreppsnefndarfundur í
Álftaneshreppi, þar sem samþykkt var að skipta hreppnum í þrennt:
Álftaneshrepp, Garðahrepp og Hafnarfjörð. Gengi það ekki var ákveðið að
hreppnum yrði skipt í tvennt: Bessastaðahrepp og Garðahrepp. Seinni tillagan
var samþykkt og varð Hafnarfjörður því hluti af Garðahreppi.

Aftur var reynt að fá kaupstaðarréttindi árið
1890. Á fundi hreppsnefndar Garðahrepps í júní það ár var kosin nefnd til að
ræða um kaupstaðarréttindi Hafnarfjarðar. Nefndin hélt fund 27. febrúar 1891,
þar sem kosið var um skiptingu hreppsins, en meirihluti fundarmanna var
andvígur skiptingunni. Var málið því látið niður falla og lá það niðri næstu
árin vegna erfiðra tíma í Hafnarfirði.

Næst var hreyft við málinu árið 1903. Í mars það ár
komu nokkrir íbúar í Hafnarfirði því til leiðar að frumvarp var
lagt fram á Alþingi til laga um kaupstaðarréttindi Hafnarfjarðar. Í
frumvarpinu var m.a. gert ráð fyrir því að bæjarfógetinn í Hafnarfirði yrði
jafnframt bæjarstjóri og laun hans yrðu greidd úr landssjóði. Frumvarpið var
fellt í atkvæðagreiðslu á Alþingi. Það var lagt fram aftur á Alþingi árið 1905,
en aftur fellt í atkvæðagreiðslu. Hins vegar afgreiddi Alþingi frumvörp sem
gáfu kauptúnum meiri sjálfstjórn en áður, en þau gengu ekki nógu langt til að
Hafnfirðingar yrðu ánægðir.

Enn var því komið til leiðar að frumvarp um kaupstaðarréttindi
Hafnarfjarðar var lagt fyrir Alþingi, nú árið 1907. Meðal breytinga frá fyrra
frumvarpinu var sú að nú var gert ráð fyrir því að bæjarstjóri fengi greidd
laun úr bæjarsjóði en ekki landssjóði. Þetta frumvarp var samþykkt sem lög nr. 75, 22.
nóvember 1907 og tóku lögin gildi 1. júní 1908. Hafnarfjörður varð
þar með fimmta bæjarfélagið á Íslandi sem fékk kaupstaðarréttindi.

Ábendingagátt