Hafnarfjarðarkortið er lykillinn að Hafnarfirði

Fréttir Jólabærinn

„Hafnarfjarðarkortið er lykillinn að Hafnarfirði,“ segir Þóra Hrund Guðbrandsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Hafnarfjarðar um þetta glænýja hafnfirska gjafa- og inneignarkort „Þetta er draumajólagjöfin í ár.“

Jólin í Hafnarfjarðarbæ

„Hafnarfjarðarkortið er lykillinn að Hafnarfirði. Þú ert með bæinn í vasanum – já, eða lófa þínum og getur verslað hjá hafnfirskum fyrirtækjum með kortinu,“ segir Þóra Hrund Guðbrandsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Hafnarfjarðar um þetta glænýja hafnfirska gjafa- og inneignarkort í jólablaði Hafnarfjarðarbæjar „Þetta er draumajólagjöfin í ár.“

Það virkar eins og Kringlukortið en leiksvæðið eru verslanir, þjónustufyrirtæki, kaffi- og veitingahús Hafnarfjarðar. Hafnarfjarðarkortið má bæði setja í símann, wallet, eða fá það í gjafabréfi. „Peningarnir bíða eftir því að þú notir þá í verslun sem hentar þér. Þetta gjafakort fer því ekki forgörðum.“ Þóra segir kortið vera tilvalið sem gjöf fyrirtækja til starfsfólks síns. Þá segir hún Hafnfirðinga eignast sitt eigið hagkerfi með þessu.

„Með kortinu styrkjum við verslun og fyrirtæki í Hafnarfirði. Fólk getur greitt fyrir matarinnkaupin, keypt sér eitthvað fallegt eða notið upplifunar og veitinga,“ segir Þóra.

„Með Hafnarfjarðarkortinu búum við til samfélag utan um þjónustuna. Þetta er hringrás. Peningarnir eru alltaf í okkar eigin hagkerfi. Þetta eru eins konar Hafnarfjarðarkrónur,“ segir Þóra. „Fríðindakort því verslanir og þjónustuveitendur bjóða þar oft betri kjör.“

Þóra hefur stýrt Markaðsstofu Hafnarfjarðar í tæp tvö ár. „Jólin mín eru frekar hefðbundin. Ég er ekki mikið fyrir hefðir og að gera hlutina eins ár frá ári nema þegar kemur að jólunum,“ segir þessi þriggja barna móðir. „Þá vil ég skapa hefðir og minningar sem við gerum ítrekað aðeins þá. Hér verður því allt með hefðbundnu sniði – kalkúnn á aðfangadag og Wellington á áramótunum.“

  • Hægt er að kaupa kortið í Jólaþorpinu, þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar og á netinu, hafnarfjardarkortid.is
  • Hafnfirsk fyrirtæki sem vilja taka þátt í þessu geta farið inn á hafnarfjardarkortid.is og skráð sig til leiks.

Jólablað Hafnarfjarðar 2024 – vefútgáfa:

Hafnarfjardarkortid.is

Ábendingagátt