Hafnarfjarðarkortið nýtt gjafakort að firðinum fagra

Fréttir

Hafnarfjarðarkortið, nýtt gjafa- og inneignakort, verður gefið út af Markaðsstofu Hafnarfjaðrar í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ fyrir jól.

Hafnarfjarðarkortið okkar eigið hagkerfi

Hafnarfjarðarkortið, nýtt gjafa- og inneignakort, verður gefið út af Markaðsstofu Hafnarfjaðrar í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ fyrir jól.

„Hafnarfjarðarkortið er lykillinn að Hafnarfirði,“ segir Þóra Hrund Guðbrandsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Hafnarfjarðar. „Með kortinu ertu með bæinn í vasanum – já, eða lófa þínum og getur verslað við hafnfirsk fyrirtæki.“

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir sveitarfélagið hafa séð mörg tækifæri í kortinu. „Hér í Hafnarfirði er mikil samheldni, frábær fyrirtæki og því afar skemmtilegt að við eigum okkar eigið hagkerfi, ef svo má segja,“ segir hann.

„Hafnarfjarðarkortið gefur okkur tækifæri til að kynna vel hafnfirska verslun um leið og við styðjum við það að versla í heimabyggð. Er líka stoltur af því að Hafnarfjörður er fyrst sveitarfélaga að fara þessa leið.“

Hafnarfjarðarkortið virkar eins og gjafakort Kringlunnar, sem mörg þekkja, en leiksvæðið eru verslanir, þjónustufyrirtæki, kaffi- og veitingahús Hafnarfjarðar. Setja má Hafnarfjarðarkortið bæði í símann, wallet, eða fá það í gjafabréfi.

Þóra segir peningana á gjafakortinu bíða eftir því að vera notir í þá verslun sem henti hverjum og einum. „Þetta gjafakort fer því ekki forgörðum,“ segir Þóra. Greiða megi fyrir mat, þjónustu, gjafavöru eða annað sem samstarfsfyrirtæki bjóði. „Sumar verslanirnar og þjónustuveitendur bjóða þar betri kjör.“

Hafnarfjarðarkortið er frábær gjöf og má benda á að eigendur þess greiða ekki skatt af kortinu eins og gildir fyrir bankakort. Kortið er fáanlegt frá 5. desember.

  • Hægt er að kaupa kortið í Jólaþorpinu, þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar og á netinu, hafnarfjardarkortid.is
  • Nánari upplýsingar er hægt að finna á hafnarfjardarkortid.is
Ábendingagátt