Hafnarfjarðarkvisturinn einkennir bæinn okkar

Fréttir

Fyrsti Hafnarfjarðarkvisturinn var smíðaður árið 1941. Hann er einkennandi fyrir bæinn og finnst víða um land.

Hafnarfjarðarkvisturinn er okkar

Þekkir þú Hafnarfjarðarkvistinn? Fyrsti Hafnarfjarðarkvisturinn var reistur á hús Eyþórs Þórðarsonar og Guðrúnar Sigurðardóttur árið 1941. Kvisturinn fór sem eldur um sinu um bæinn. Fólk breytti kvistunum sínum, lengdi eða skeytti saman til að stækka íbúðarýmið.

„Þakrýmið nýttist mjög vel undir svona kvistum, í staðinn fyrir geymsluloft var jafnvel hægt að koma fyrir góðum herbergjum eða snoturri íbúð,“ segir Rósa Karen Borgþórsdóttir, safnvörður hjá Byggðasafni Hafnarfjarðar, þegar hún lýsir því hvað rýmið stækkaði við breytingarnar. „Kannski ekki að undra að fólk kysi þesskonar kvista, þegar húsnæðisvandinn var töluverður,“ segir hún.

„Ástæðan fyrir að kvisturinn hefur fengið þessa nafngift er að hér eru þeir svo margir. Kvistirnir hafa verið gerðir víða um land og á Norðurlöndunum. En hér fær hann þessa nafngift því hann er svo sannarlega algengur.“

Hér sjáum við fyrsta Hafnarfjarðarkvistinn, sem Eyþór Þórðarson og Guðrún Sigurðardóttir létu setja á hús sitt á Hraunstíg á 5. áratugnum.

„Ástæðan fyrir að kvisturinn hefur fengið þessa nafngift er að hér eru þeir svo margir. Kvistirnir hafa verið gerðir víða um land og á Norðurlöndunum. En hér fær hann þessa nafngift því hann er svo sannarlega algengur.“

Ekki í rituðum heimildum fyrir 1980

Rósa fór á stúfana fyrir okkur Hafnfirðinga. „Ég hef ekki fundið ritaðar heimildir fyrr en frá árunum eftir 1980. En þetta tiltekna útlit af kvisti er þekktur sem Hafnarfjarðarkvistur landlægt,“ segir hún.

En hver átti þann fyrsta? „Það er gaman að segja frá því að Eyþór Þórðarson, bróðir langalangafa míns, og kona hans Guðrún Sigurðardóttir áttu þann fyrsta. Húsið er byggt 1929 en árið1941 óskar hann eftir kvisti endilangt eftir þakinu,“ segir hún. Og þá vaknar önnur spurning. Rósa, ertu þá hreinræktaður Hafnfirðingur?

„Nei, ekki þannig, fólkið mitt kom hingað 1907,“ segir Rósa hógvær. En aftur að kvistinum. Hún segir frá því að Davíð Kristjánsson trésmíðameistari sem teiknaði þann kvist. „Hann kom til Hafnarfjarðar 1904 en deyr 1942,“ segir hún.

Settir á timburhús bæjarins

Enn grúskar Rósa í gögnum um kvistinn og bíða þær upplýsingar framhaldsfréttar en við byrjum og getum ekki beðið, eins og nútímafólki sæmir, og förum af stað með fréttina.

„Ástæðan fyrir því að þetta er kallað Hafnafjarðarkvistir er að öllum líkindum er að hér voru fleiri timburhús og hús með háu mænisþaki en víðast og þar komast kvistirnir fyrir. Í Reykjavík voru menn farnir að reisa steinhús.

En það er enn ráðgáta hvaðan Davíð fær þessa hugmynd. Hann lærði ekki í útlöndum og var einn þeirra sem keypti trésmíðaverkstæðið af Jóhannesi Reykdal, sem sá síðarnefndi stofnaði 1903. Verkstæðið varð svo nefnt Dvergur,“ segir Rósa Karen.

„Sennilega hafa þeir haft einhverja katalóga, bækur, og ég vildi óska að við hefðum þetta hjá okkur. Davíð bjó í húsinu sem matarbúðin Nándin er í. Sonur hans bjó þar áfram eftir andlátið. Húsið á áhugaverða sögu,“ segir Rósa Karen og rekur hvernig Hraunstígur 4, hús Eyþórs, hafi verið það fyrsta sem fær þessa breytingu.

Hagstætt og gefur meira rými

„Svo fer kvisturinn að smitast um bæinn,“ segir hún. „Þessir kvistar voru ódýrari, greinilega einfaldari og innandyra gáfu þeir meira pláss. En svo hafa þeir þróast. Þeir hafa þróast í það að taka allt þakið. Þá er ekkert undir súð, heldur eru húseigendur komnir með heila hæð. Upphaflega voru þeir ekki með eins háu þaki,“ lýsir hún. „Já, þeir eru með ólíkum útfærslum.“

Rósa Karen leitaði meðal annars til arkitekta við upplýsingaöflunina.  „Já, kvisturinn hefur karakter sem hæfir Hafnarfirði,“ segir hún . „Í húsaskráningum er þessi kvistur, svona langur sem nær yfir þakið, kallaður Hafnarfjarðarkvistur. Við skulum því eiga hann skuldlaust.“

Já, hann er fallegur Hafnarfjarðarkvisturinn!

 

  • Veistu meira? Endilega sendu okkur línu á samskipti@hafnarfjordur.is
Ábendingagátt