Hafnarfjörður barnvænt samfélag

Barnvænt sveitarfélag Fréttir

Hafnarfjarðarbær fagnar því í Nýsköpunarsetrinu við Lækinn á morgun fimmtudag að vera formlega orðinn barnvænt samfélag. Öll velkomin kl. 14. „Við tökum ekki ákvarðanir um börn án barnanna sjálfra,“ segir bæjarstjórinn.

Hafnarfjörður vinnur barnvænt

Hafnarfjörður er formlega orðinn barnvænt sveitafélag. Unnið hefur verið að innleiðingunni allt frá árinu 2020. Bærinn hefur breytt vinnulagi sínu og vinnur eftir Barnasáttmálanum með markvissum hætti. Áfanganum verður fagnað í Nýsköpunarsetrinu við Lækinn, á morgun fimmtudaginn 21. ágúst kl. 14. Öll velkomin.

Bærinn sýnt seiglu og metnað

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF, segir UNICEF á Íslandi er sérlega stolt af því að veita heimabæ sínum, Hafnarfirði, viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag. „Á vegferðinni hefur bærinn sýnt seiglu, hugmyndaauðgi, metnað og vilja til að ná settum markmiðum í þágu réttinda barna,“ segir hún.

Ungmennaráð bæjarins er nú hluti af reglubundinni stjórnsýslu og þekking starfsmanna á réttindum barna hefur aukist til muna. Þetta er verðskulduð viðurkenning – en jafnframt varða en ekki áfangastaður á leiðinni að réttindum fyrir öll börn í samræmi við Barnasáttmálann.“

Raddir barna skipta máli

Valdimar Víðisson bæjarstjóri er stoltur og ánægður að bærinn hafi náð þessum árangri. „Ég veit sem fyrrum skólastjóri að heillavænlegast er að taka ekki ákvarðanir um börn án barnanna sjálfra. Raddir þeirra og viðhorf skipta máli.“ Hann segir þekkinguna um hvernig vinna eigi undir merkjum barnsvæns samfélags hafa síast inn við innleiðinguna.

„Við þurfum alltaf að hafa augun á boltanum og halda merkjum barnanna á lofti með þeim í liði,“ segir hann en Barnasáttmálinn gerir þá kröfu að börn njóti í senn umönnunar og verndar, samhliða því að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Barnasáttmálinn var lögfestur hér á landi 2013.

Mikil verðmæti í röddum barna

Þórunn Þórarinsdóttir, verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags, leiddi innleiðinguna til lykta. „Ávinningurinn er að Hafnarfjörður viðurkennir að í röddum, viðhorfum og reynslu barna og ungmenna felast mikil verðmæti. Hafnafjörður á núna markvisst samráð við börn og ungmenni og nýtir raddir þeirra til að bæta þjónustu sveitarfélagsins.“

 

Innilega til hamingju íbúar Hafnarfjarðar!

Ábendingagátt