Hafnarfjörður hlýtur Orðsporið 2023

Fréttir

Hafnarfjarðarbær hlýtur Orðsporið 2023. Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, og Sigurður Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda leikskóla, afhentu Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, viðurkenninguna við hátíðlega athöfn.

Dagur leikskólans er í dag – hefð er fyrir því að veita Orðsporið, hvatningarverðlaun leikskólans, á þessum merkilega degi

Hafnarfjarðarbær hlýtur Orðsporið 2023. Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, og Sigurður Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda leikskóla, afhentu Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, viðurkenninguna við hátíðlega athöfn. Hafnarfjarðarbær fær Orðsporið fyrir að samræma starfstíma í leikskólum og grunnskólum bæjarins og gera þannig skólaárið á þessum tveimur skólastigum sambærilegt. Hafnarfjörður er fyrsta sveitarfélagið til að stíga þetta skref. Einnig hefur stjórnunarhlutfall aðstoðarleikskólastjóra verið aukið til muna, til þess að sinna faglegri leiðsögn og efla móttöku og þjálfun nýliða – og stuðla þannig enn frekar að því að styrkja innra starf leikskólanna.

Orðsporið 2023 fær Hafnarfjarðarbær fyrir að samræma starfstíma í leikskólum og grunnskólum bæjarins og gera þannig skólaárið á þessum tveimur skólastigum sambærilegt.

Orðsporið 2023 fær Hafnarfjarðarbær fyrir að samræma starfstíma í leikskólum og grunnskólum bæjarins og gera þannig skólaárið á þessum tveimur skólastigum sambærilegt.

Tilkynning á vef Kennarasambands Íslands 

Stjórn Félags leikskólakennara fagnar þessu skrefi bæjarins

Stjórn Félags leikskólakennara fagnaði þessari breytingu á dögunum og sagði markmiðið „að búa til aðlaðandi starfsaðstæður fyrir kennara á leikskólastiginu, fjölga kennurum í leikskólum bæjarins og auka þar með fagmennsku og bæta gæði náms börnum til heilla“. Kosið var um fulla styttingu vinnutíma í öllum sautján leikskólum Hafnarfjarðar og var tillagan samþykkt alls staðar. Viðvera verður áfram 40 stundir á viku yfir árið. Alls verða 26 dagar teknir út í svokölluðum betri vinnutíma í leikskólum, um jól, páska, að sumri og í formi vetrarfrís. Skólaárið í leikskólum Hafnarfjarðar er því orðið sambærilegt við skólaárið í grunnskólum bæjarins.

Að Orðsporinu standa Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda leikskóla. Þetta er í tíunda skipti sem hvatningarverðlaunin Orðsporið eru veitt á Degi leikskólans, 6. febrúar. Einkunnarorð dagsins hafa frá upphafi verið: Við bjóðum góðan dag – alla daga. Sjötti febrúar er merkilegur dagur í sögu leikskólans en á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara sín fyrstu samtök.

Hafnarfjarðarbær þakkar Kennarasambandi Íslands, Félagi leikskólakennara og Félagi stjórnenda leikskóla innilega fyrir hvatninguna, Orðsporið og fallegar kveðjur

 

Ábendingagátt