Hafnarfjörður í liði SÁÁ

Fréttir

Hafnarfjarðarbær hefur nú eignast einn stóru álfa SÁÁ. Bærinn styrkir þannig meðferðastarfið en álfasalan er mikilvægasta fjáröflun SÁÁ.

Hafnarfjarðarbær styrkir SÁÁ

Enn einn álfurinn bættist við öfluga álfabyggð okkar Hafnfirðinga í morgun. Þá tók Valdimar Víðisson bæjarstjóri á móti stóra álfi SÁÁ og sýndi þar með stuðning bæjarins við álfasölu meðferðarsjúkrahússins 2025.

Stefán Pálsson markaðsstjóri SÁÁ kom með stóra álfinn undir hönd. „Við þökkum bænum kærlega fyrir að standa með okkur í þessu mikilvæga átaki,“ segir hann fyrir hönd SÁÁ. „Takk Hafnarfjörður – þetta skiptir máli. “

Valdimar Víðisson bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Stefán Pálsson markaðsstjóri SÁÁ með stóra álfinum.

Mikilvæg fjáröflun

Álfasalan 2025 hefur staðið síðustu daga. Tekjum af sölunni er ætlað að styðja við meðferðarstarfið hjá SÁÁ. Álfurinn klæðist í ár landsliðsbúningnum í tilefni þess að stelpurnar okkar eru á leiðinni á EM í fótbolta í sumar. Tvær útgáfur af Álfinum voru í gangi þetta árið, blár og hvítur en þeir félagar eiga skemmtileg samskipti í auglýsingaherferð Álfsins þar sem Álfurinn lifnar við í gerfi brúðu.

Álfasalan er mikilvægasta fjáröflun SÁÁ og gerir SÁÁ kleift að halda úti öflugu meðferðarstarfi sem hefur hjálpað þúsundum Íslendinga en þetta er í 39 skiptið sem Álfasalan fer fram.

SÁÁ rekur sjúkrahúsið Vog í Reykjavík og meðferðarstöðina Vík á Kjalarnesi. Einnig reka samtökin áfangaheimilið Vin og göngudeildir í Reykjavík og á Akureyri.

Við fögnum nýja  álfinum og segjum takk fyrir öflugt starf.

Ábendingagátt