Hafnarfjörður stækkar!

Fréttir

Ný hverfi verða til og eldri hverfi verða stærri.  Hafnarfjarðarbær hefur sett í loftið nýja upplýsingasíðu um þá uppbyggingu sem er að eiga sér stað í Hafnarfirði og mun eiga sér stað í náinni framtíð. Varpað er ljósi á uppbyggingu á tímabilinu 2017-2040 með áherslu á árin 2021-2031. Samantekt byggir á samþykktu skipulagi fyrir Hafnarfjörð eins og staðan er í upphafi árs 2022 og tekur ekki til þéttingar og nýrra hverfa sem enn eru á hugmyndastigi.

Ný hverfi verða til og eldri hverfi verða stærri

Hafnarfjarðarbær hefur sett í loftið nýja upplýsingasíðu um
þá uppbyggingu sem er að eiga sér stað í Hafnarfirði og mun eiga sér stað í
náinni framtíð. Varpað er ljósi á uppbyggingu á tímabilinu 2017-2040 með
áherslu á árin 2021-2031. Samantekt byggir á samþykktu skipulagi fyrir
Hafnarfjörð eins og staðan er í upphafi árs 2022 og tekur ekki til þéttingar og
nýrra hverfa sem enn eru á hugmyndastigi.

Upplýsingasíða uppbyggingar 

HafnarfjordrStaekkar2022

Uppbygging skili um 7.000 íbúðum með um 17.000 íbúum

Við áætlun á íbúafjölda er að jafnaði miðað við 2,5 íbúa á
hverja íbúð. Séu öll svæði sem þegar eru komin á skipulag innan Hafnarfjarðar
(ný hverfi og þétting byggðar) tekin saman er áætlaður fjöldi nýrra
Hafnfirðinga til framtíðar um 17.000 í um 7.000 nýjum íbúðum víðsvegar um
bæinn.

Ný hverfi með um 2.700 íbúðum og 6.750 íbúum

Þróunarreitir og fjölbýlishúsalóðir í Hamranesi í
Hafnarfirði fyrir alls um 1.600 íbúðir seldust hratt á
árunum 2020-2021. Fyrsta skóflustungan í Hamranesi var tekin í
febrúar 2021 og er uppbygging þar í fullum gangi. Síðustu sérbýlishúsalóðunum í
Skarðshlíð, undir alls 285 íbúðir, var úthlutað í febrúar 2021. Í
Skarðshlíðinni rísa einnig 26 fjölbýlishús með 231 íbúð. Frumbyggjar í
Skarðshlíðarhverfi fluttu inn sumarið 2020 og nú lítur út fyrir að frumbyggjar
í Hamranesi flytji inn á þessu ári. Fyrstu lóðunum í Áslandi 4 verður úthlutað
á vormánuðum. Þessi þrjú nýju hverfi í Hafnarfirði munu til framtíðar litið
hýsa um 2.700 íbúðir og 6.750 íbúa.

Þétting byggðar með um 4.000 íbúðum og 10.000 íbúum

Hafnarfjarðarbær hefur þegar samþykkt skipulag fyrir
þéttingu og uppbyggingu á stærri og smærri svæðum innan Hafnarfjarðar. Nýjar
íbúðir eru að verða til með þéttari byggð, betri nýtingu á innviðum og
vannýttum svæðum. Stærstu þéttingarsvæðin eru Flensborgarhöfn/Óseyrarsvæði og
Hraun vestur/5 mínútna hverfið þar sem gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist
á árinu. Á þessum svæðum liggur fyrir samþykkt rammaskipulag og gert ráð fyrir
að uppbygging og þétting byggðar gerist í áföngum á næstu 10-15 árum.
Samhliða mun vinna við deiliskipulag eiga sér stað.

Íbúar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að kynna sér þá
uppbyggingu sem þegar er farin af stað og við það að fara af stað:

Yfirlit
yfir uppbyggingu í Hafnarfirði 

Ábendingagátt