Hafnarfjörður trónir á toppi sveitarfélaga í menningarmálum

Fréttir

Samkvæmt nýrri þjónustukönnun Gallup eru níu af hverjum tíu íbúum ánægðir með Hafnarfjörð sem búsetustað eða 87%. Menningarmálin hækka hlutfallslega mest á milli mælinga eða um 5 prósentustig og trónir Hafnarfjörður á toppnum í samanburði við önnur sveitarfélög. Hafnarfjörður vermir nú 2. sæti af stærstu sveitarfélögunum í ánægju bæjarbúa með heildarupplifun af þjónustu sveitarfélaganna.

Vermir 2. sætið í almennri ánægju íbúa með þjónustu stærstu sveitarfélaganna

Samkvæmt nýrri þjónustukönnun Gallup eru níu af hverjum tíu íbúum ánægðir með Hafnarfjörð sem búsetustað eða 87%. Þá eru 79% íbúa ánægð með aðstöðu til íþróttaiðkunar, 76% með menningarmálin og 75% með þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið.Menningarmálin hækka hlutfallslega mest á milli mælinga eða um 5 prósentustig og trónir Hafnarfjörður á toppnum í samanburði við önnur sveitarfélög. Hafnarfjörður vermir nú 2. sæti af stærstu sveitarfélögunum í ánægju bæjarbúa með heildarupplifun af þjónustu sveitarfélaganna. Bærinn hefur ekki áður skorað svona hátt. Niðurstöður könnunar Gallup voru kynntar á fundi bæjarráðs í morgun.

Það er mjög gleðilegt að sjá ánægjuna með þjónustuna í Hafnarfirði aukast jafnt og þétt og að nú séum við komin í annað sætið á meðal stóru sveitarfélaganna hvað þetta varðar,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. „Einnig er hin mikla áhersla okkar á öflugt menningar-, viðburða – og listalíf í bænum undanfarin ár að skila sér. Nú mælist ánægja með menningarmálin mest í Hafnarfirði sem gefur til kynna að hvergi séu íbúar ánægðari með sinn bæjarbrag en hér.“

Niðurstöður 2023

Yfir meðaltali í tíu af tólf þjónustuþáttum  

Samkvæmt niðurstöðum þjónustukönnunar er Hafnarfjarðarbær yfir meðaltali í samanburði sveitarfélaganna í tíu þáttum af tólf og jöfn í tveimur. Bærinn er hærri þegar kemur að heildaránægju (75%), aðstöðu til íþróttaiðkunar (79%), menningarmála (76%), þjónustu grunnskóla (66%), þjónustu leikskóla (64%), þjónustu við barnafólk (55%), þjónustu við eldri borgara (53%), sorphirðu (59%) og skipulagsmál (52%). Ánægjan mælist við meðaltal í þjónustu við fatlað fólk (40%) og hvað varðar gæði umhverfis í nágrenni við heimilið (74%). Tækifæri til úrbóta liggja víða og þá sérstaklega í þeim þjónustuþáttum sem skora hvað lægst ár hvert innan allra sveitarfélaganna. Þar eru brýnust leikskólamál, samgöngur og skipulagsmál.

 

Um þjónustukönnun Gallup

Gallup gerir árlega þjónustukönnun meðal tuttugu stærstu sveitarfélaga landsins þar sem spurt er um viðhorf til þjónustu sveitarfélaganna í ýmsum málaflokkum bæði út frá reynslu og áliti. Gagnasöfnun fyrir árið 2023 fór fram dagana 14. nóvember 2023 – 11. janúar 2024 og í Hafnarfirði svöruðu 430 könnuninni, lagskipt tilviljunarúrtak 18 ára og eldri úr viðhorfahópi Gallup. Niðurstöður gefa hugmynd um ánægju íbúa með ákveðna þjónustuþætti óháð því hvort viðkomandi nýti sér þjónustuna eða ekki. Samhliða fást upplýsingar um þjónustuþætti sem gott væri að rýna betur. Niðurstöðurnar þjónustukönnunar voru birtar á fundi bæjarráðs í morgun.

Fundargerð bæjarráðs 21. febrúar 2024

Ábendingagátt