Hafnfirðingar og huldufólk á árlegri Álfahátíð

Fréttir

Hellisgerði skartaði sínu fegursta í brakandi blíðu og faðmaði fjölskylduna alla á sunnudag á árlegri álfahátíð þar sem fremst fór álfadrottning, álfakóngur, bókaálfur, Benedikt Búálfur og dansandi Plié álfar svo fátt eitt sé nefnt.

Sagan segir að í Hellisgerði sé eitt mesta þéttbýli huldufólks á Íslandi

Hellisgerði skartaði sínu fegursta í brakandi blíðu og faðmaði fjölskylduna alla á sunnudag á árlegri álfahátíð þar sem fremst fór álfadrottning, álfakóngur, bókaálfur, Benedikt Búálfur og dansandi Plié álfar svo fátt eitt sé nefnt. Gestir tóku áskorun um að mæta til hátíðarhaldanna í álfabúningum, með álfaeyru og blómasveiga vel og um garð allan mátti sjá fólk á öllum aldri í búningum með blóm í hárinu. Gróf talning gesta hljóðar upp á töluna 2.000 en margt var um manninn á meðan hátíðarhöldin stóðu yfir. Það er óhætt að segja að andi liðinnar aldar, huldufólks og álfa hafi verið allsráðandi í Hellisgerði á Álfahátíð. Krakkar og kynlegir kvistir nutu þess að klífa hraunið og hvíla sig í hraunbolum víða um garðinn. Yngsti fiskimaðurinn heillar alltaf og kallaði á krakkana til sín smá busl og bleytu í blíðunni.

Vettvangur upplifunar og leikja fólks á öllum aldri

Hellisgerði er hrauni prýddur skrúðgarður í hjarta Hafnarfjarðar hvaðan Hafnfirðingar og vinir Hafnarfjarðar eiga góðar minningar og sögur síðustu áratugina. Garðurinn hefur frá upphafi þjónað mikilvægu samfélagslegu hlutverki sem grænt svæði, samverustaður og vettvangur upplifunar og leikja fólks á öllum aldri. Hellisgerði hefur hin síðustu ár stimplað sig inn sem heimur ljósadýrðar og ævintýra á aðventunni og hafa þúsundir gesta lagt leið sína í garðinn í aðdraganda jóla um leið og hið sívinsæla Jólaþorp í Hafnarfirði er heimsótt. Kaffihús í Litlu Álfabúðinni er rekið í garðinum yfir sumartímann og aðventuhelgarnar.

Ábendingagátt