Hafnfirsk börn taka þátt í Göngum í skólann 2024

Fréttir

Engidalsskóli, Hvaleyrarskóli og Öldutúnsskóli eru meðal þeirra skóla sem taka þátt í verkefninu Göngum í skólann nú í haust. Átakið var sett í 18. sinn þann 4. september.

Hafnfirsk skólabörn ganga í skólann sinn

Engidalsskóli, Hvaleyrarskóli og Öldutúnsskóli eru meðal þeirra skóla sem taka þátt í verkefninu Göngum í skólann nú í haust. Átakið var sett í 18. sinn þann 4. september. Því lýkur formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 2. október. Það á sér erlenda fyrirmynd, www.iwalktoschool.org.

Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni sína til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni; ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla, hvetja til aukinnar hreyfingar og fræða börn um ávinning reglulegrar hreyfingar.

Hvatning til að lifa heilbrigðum lífsstíl

Með árlega átakinu Göngum í skólann er ætlunin að hvetja til heilbrigðs lífsstíls fyrir alla fjölskylduna en hreyfing vinnur meðal annars gegn lífsstílstengdum sjúkdómum, stuðlar að streitulosun og betri sjálfsmynd. Einnig er markmiðið að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og kenna reglur um öryggi á göngu og á hjóli. Þar að auki er markmiðið að draga úr umferð við skóla og stuðla að betra og hreinna lofti ásamt öruggari og friðsælli götum og hverfi. Um leið er verið að stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál: Hversu ,,gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf.

Milljónir ganga um allan heim

Á hverju ári taka milljónir barna í yfir 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Hér á landi hefur þátttakan vaxið jafnt og þétt, fyrsta árið voru þátttökuskólarnir 26 en alls skráðu 84 skólar sig til leiks árið 2023. Nú eru skólarnir 63 á heimasíðu átaksins, en fjölgar eflaust á næstu dögum.

Göngum í skólann var sett í Brekkuskóla á Akureyri í ár. Ragnhildur Skúladóttir, sviðsstjóri Fræðslu- og almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, hélt stutt ávarp en  Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytið, embætti landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofa og Landssamtökin Heimili og skóli standa að verkefninu hérlendis.

  • Hér má skrá skóla til leiks.

Já, við erum stolt af börnunum sem nýta tækifærið og ganga ef nokkur kostur er!

 

Ábendingagátt