Hafnfirskir nemendur hækka á meðan Ísland lækkar

Fréttir

Hafnfirskir nemendur ná auknum árangri í PISA 2015 miðað við PISA 2012 á meðan árangur Íslands lækkar í heild sinni sem er áhyggjuefni.

Hafnfirskir nemendur ná auknum árangri í PISA 2015 miðað við
PISA 2012 (lesskilningur 477>489, stærðfræði 485>493, náttúruvísindi
468>472) á meðan árangur Íslands lækkar í heild sinni sem er umhugsunarefni.
Hafnarfjörður er meðal fárra sveitarfélaga sem þetta gerist þótt enn sé
árangurinn undir meðaltali PISA (grunnlína PISA er með meðaltalið 500 og OECD
ríkjanna núna 490) en hann hefur náð landsmeðaltali Íslands í öllum þáttum. Það
er einnig óvenjulegt núna að breytingin í Hafnarfirði fer ekki saman við
breytingu á landinu í heild. Í fyrri könnunum hefur Hafnarfjörður fylgt
breytingum á árangri íslenskra nemenda í heild, þ.e. lækkað (2003, 2006, 2012)
og hækkað (2009).

PISA umræða er margræð á Íslandi og skiptar skoðanir um
mikilvægi PISA. Menn velta fyrir sér hvort versnandi árangur Íslands
endurspegli endilega minnkandi getu íslenskra nemenda í heild sinni eða árangur
íslenska skóla­kerfisins þar sem PISA mæli mjög afmarkaða þætti skólastarfsins.
Horfa þurfi til fleiri þátta sem geti skýrt niðurstöður annað en endilega að
árangur íslenska skólakerfisins fari versnandi. Nefndir hafa verið þættir eins
og  félagslegar aðstæður nemenda (eru þær að versna á Íslandi?), brottfall
í PISA könnun (mismunandi eftir sveitarfélögum eða löndum?), íslensk
skólastefna um „skóla án aðgreiningar“ (meðalmennska íslensks skólakerfis sem
hamli góðum árangri duglegustu nemendanna?!), áhugi nemenda á prófinu sjálfu
(mismunandi eftir löndum?), tímamagn í kennslu PISA námsgreinanna (ólíkt eftir
löndum?) eða einfaldlega mismunandi áherslur í námi nemenda eftir
sveitarfélögum og löndum sem mæti misvel „PISA námskránni“. Allt sjónarmið sem
þarf að ræða.

Í Hafnarfirði hefur verið lögð aukin áhersla á mikilvægi
lestrar síðustu ár, ekki sérstaklega vegna PISA, heldur vegna þess að ýmsar
vísbendingar gáfu til kynna að árangur hafnfirskra barna gæti verið betri og
tilefni væri til að leggja sérstaka áherslu á lestur yfirleitt í hafnfirskum
leik- og grunnskólum. Þannig hefur verið innleidd í Hafnarfirði sérstök
læsisáhersla sem nefnd er LESTUR ER LÍFSINS LEIKUR og hefur það að markmiði að
styðja við skólastarfið. Í því felst meðal annars að gefa skólaumhverfinu skýr
viðmið um lestrarhæfni nemenda eftir aldri, veita nemendum reglulega
upplýsingar um lestrargetu sína og efla þá til að ná auknum árangri, styðja við
kennara í lestrarkennslunni með margvíslegri fræðslu og ráðgjöf og hvetja
foreldra til aukinnar þátttöku í heimalestri barna sinna.

Við væntum að aukin umræða um læsi í hafnfirsku
skólasamfélagi og innleiðing lestrar­áherslunnar LESTUR ER LÍFSINS LEIKUR séu
að færa hafnfirskum nemendum aukin gæði í skólastarfinu sem muni sýna sig enn
frekar á næstu árum. PISA niðurstöðurnar eru jákvæðar fréttir í þá vinnu sem á
sér stað í Hafnarfirði þessi misserin og gefa tilefni til að halda áfram að
vinna að auknum námsárangri nemenda í læsi í Hafnarfirði.

Ábendingagátt