Hafnfirsku flóttafjölskyldurnar

Fréttir

Einhver bið verður á flóttafjölskyldunum þremur sem ætla að setjast að í Hafnarfirði. Val á fjölskyldum stendur yfir og er þess að vænta að fjölskyldurnar komi til landsins í byrjun mars.

Fyrsti hópur sýrlenska flóttafólksins lenti á Keflavíkurflugvelli síðdegis í fyrradag eftir langt ferðalag. Flóttafjölskyldurnar þrjár, sem koma til með að setjast að í Hafnarfirði, voru ekki í hópnum að þessu sinni. Tvær þeirra sáu sér ekki fært að koma  og einhver bið verður á þeirri þriðju vegna fjölskylduaðstæðna. Val á nýjum fjölskyldum stendur yfir. Þess er að vænta að fjölskyldurnar komi til landsins í byrjun mars.

 Í hópnum sem kom til landsins í fyrradag voru sex fjölskyldur, 13 fullorðnir og 22 börn. Til stóð að fjölskyldurnar yrðu tíu og að þrjár þeirra myndu setjast að í Hafnarfirði. Breyttar aðstæður verða til þess að einhver bið verður á fjölskyldum í Hafnarfjörðinn. Þrjár fjölskyldur sem höfðu lýst áhuga á að setjast að á Íslandi sáu sér ekki fært að koma og einhver bið verður á einni fjölskyldu vegna yfirvofandi fæðingar húsmóðurinnar. Alltaf má reikna með því að fólk sem boðin hefur verið búseta hætti við að koma og geta ástæður verið margvíslegar. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur í samvinnu við íslensk stjórnvöld undirbúið komu hóps flóttafólks í þeirra stað. Stefnt er að því að sá hópur komi innan fárra vikna og fólkið setjist að í Hafnarfirði og Kópavogi.

 „Við bíðum spennt eftir okkar fjölskyldum og komum til með að taka fagnandi á móti þeim hópi sem fyrir valinu verður. Hér er allt tilbúið og hefur starfsfólk sveitarfélagsins í samstarfi við öfluga aðila Rauða krossins í Hafnarfirði, fulltrúa frá velferðarráðuneyti o.fl. undirbúið komu þeirra vel og vandlega.  Það eru allir samstíga í því að hjálpa fjölskyldunum að komast hratt og örugglega inn í samfélagið og að þær finni að þær séu velkomnar“ segir Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri Fjölskylduþjónustu. 

Eigandi myndar: mbi.is  

Ábendingagátt