Hafnarfjarðarkortið komið á skrið

Fréttir

Tæpum 15 milljónum af 34 milljón króna veltu Hafnarfjarðarkortsins hefur verið varið í vörur og þjónustu hafnfirskra fyrirtækja frá því að kortið fór á markað.

Hafnarfjarðarkortið fyrir öflugri bæ

Tæpum 15 milljónum af 34 milljón króna veltu Hafnarfjarðarkortsins hefur verið varið í vörur og þjónustu hafnfirskra fyrirtækja frá því að kortið fór á markað fyrir rétt rúmum mánuði síðan, 18. desember.

„Þetta er bara upphafið,“ segir Þóra Hrund Guðbrandsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Hafnarfjarðar, um  fyrsta mánuð Hafnarfjarðarkortsins, sem er gjafa- og inneignarkort sem gildir í sextíu hafnfirskum fyrirtækjum.

„Við sjáum að verslað hefur verið í hverju og einu einasta fyrirtæki sem komið var í hópinn fyrir áramót,“ segir Þóra Hrund og lýsir því hvernig kortið er notað.

Með lykil að Hafnarfirði í vasanum

„Fólk er með kortið í veskinu sínu í símanum. Þetta er ekki aðeins gjafabréf heldur einnig greiðslulausn,“ segir hún og hvetur alla Hafnfirðinga til að vera með Hafnarfjarðarkortið. „Við erum að stíga fyrstu skrefin og þróum kortið í þá átt að bjóða ýmis fríðindi sem eingöngu fást með Hafnarfjarðarkortinu,“ segir Þóra Hrund.

Valdimar Víðisson bæjarstjóri segir Hafnarfjarðarkortið frábært til að styrkja verslun og þjónustu í bænum. „Þetta er einföld leið fyrir okkur öll til að styðja við okkar eigin fyrirtæki og halda verðmætum hér heima í Hafnarfirði.“

Þóra Hrund segir að til að byrja með hafi fókusinn verið á að fá sem flesta samstarfsaðila. „Ég setti mér það markmið að ná 50 fyrirtækjum inn fyrir jól, en við náðum 60. Þeim fer fjölgandi enda kortið frábært fyrir fyrirtækin hér í bænum. Milljónir eru í pottinum og því kjörið tækifæri fyrir fyrirtæki að vera með og bjóða góð kjör.“

Matvaran vinsælust en sérvaran einnig sterk

Þóra Hrund segir skipta miklu máli að hægt sé að kaupa matvöru með kortinu. „Toppfyrirtækin fyrir jólin seldu matvöru, en svo kom sérvaran sterk inn. Lindex og Gina hér í Hafnarfirði eru til dæmis með yfir 200 færslur fyrir jólin. Ég reiknaði saman að á þessum fyrstu þremur vikum sem við vorum í loftinu fóru 56,4% í matvöru og 43,6% í sérvöru. Það verður áhugavert að sjá hvernig salan þróast nú þegar jólin eru að baki,“ segir hún.

Þóra Hrund Guðbrandsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Hafnarfjarðarbæjar, er drifkrafturinn á bakvið Hafnarfjarðarkortið. Mynd/Óli Már

Þóra Hrund segir Markaðsstofuna vera með það markmið að kynna fjölbreytt atvinnulíf í Hafnarfirði og auka verslun. „Við viljum auka viðskipti innan bæjarins. Þetta er einn liður í þeirri vegferð að styrkja verslun og þjónustu innan bæjarins og hvetja til viðskipta og samstöðu,“ segir hún.

„Þetta styrkir líka Markaðsstofuna, því með kortinu fær hún sterkari tilgang og eykur virði aðildarfyrirtækja að stofunni. Við erum að fjölga aðildarfyrirtækjum í Markaðsstofunni, sem býr til enn sterkara samfélag fyrirtækja í Hafnarfirði.“

Toppfyrirtækin
  1. Bónus
  2. Fjarðarkaup
  3. Kjötkompaní
  4. Nettó
  5. Lindex
  6. Gina Tricot
  7. Barbara
  8. Leikfangaland
  9. KFC
  10. Iceland

 

Ábendingagátt