Hafró formlega flutt til Hafnarfjarðar

Fréttir

Síðastliðinn föstudag var nýtt húsnæði Hafrannsóknarstofnunar að Fornubúðum 5 opnað formlega með táknrænum hætti þar sem forseti Íslands, sjávarútvegsráðherra, ráðuneytisstjóri, forstjóri, starfsfólk stofnunarinnar og fleiri gestir kvöddu fyrri heimkynni Hafró  og sigldu á rannsóknarskipunum, Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni, í nýja heimahöfn í Hafnarfirði.

Við bjóðum starfsfólk og gesti Hafrannsóknarstofnunar velkomna til Hafnarfjarðar!

Hafrannsóknarstofnun (Hafró) er flutt til Hafnarfjarðar. Samningur um nýtt húsnæði var undirritaður í febrúar 2018 og fyrsta skóflustungan tekin í mars sama ár. Nú fyrir helgi var húsnæðið að Fornubúðum 5 opnað formlega með táknrænum hætti þar sem forseti Íslands, sjávarútvegsráðherra, ráðuneytisstjóri, forstjóri, starfsfólk stofnunarinnar og fleiri gestir kvöddu fyrri heimkynni Hafró að Skúlagötu 4 og sigldu á rannsóknarskipunum, Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni, frá Faxagarði í nýja heimahöfn í Hafnarfirði.

Image00021

Sólin tók á móti hópnum í Hafnarfirði

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar, byggingaraðilar húsnæðis, hópur heimamanna og aðrir gestir tóku glaðbeitt á móti rannsóknarskipunum tveimur og gestum þeirra síðdegis síðastliðinn föstudag. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, klippti á borða þegar komið var að bryggju við Fornubúðir 5. Í móttökuathöfn á bryggjunni stigu á svið með stutt erindi; sem einkenndust af sögu, tækni og vísindum og þeim tækifærum sem við blasa í nýju húsnæði á nýjum stað; forseti Íslands, Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafró og Jón Rúnar Halldórsson hjá eignarhaldsfélaginu Fornubúðum ehf.

Sjá fleiri myndir á Facebook síðu Hafnarfjarðarbæjar

IMG_2450

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri býður hér Sigurð Guðjónsson forstjóra Hafrannsóknarstofnunar og allt hans fólk velkomið til Hafnarfjarðar.  Færði honum blóm og gjöf frá bænum. 

Við flutning Hafró til Hafnarfjarðar er öll starfsemi stofnunarinnar komin undir eitt þak í nýtt og umhverfisvænt húsnæði á nýjum stað og opnar hvorutveggja á mikla möguleika og tækifæri í frekari vexti og þróun. Þegar hafa komið upp hugmyndir um að koma þar á fót þekkingarsetri um hafið og heimskautin, auk þess sem sprota- og þekkingarfyrirtæki í sjávarútvegi hafa líst miklum áhuga að komast í nábýli við stofnunina með samstarf í huga.

Tækifæri í takt við tíðaranda

Fyrirséð er mikil og jákvæð uppbygging á Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði eins og rammaskipulag og þar með stefnumótandi framtíðarsýn um heildaryfirbragð hafnarsvæðisins sýnir. Síðustu mánuði og ár hefur áhugi á ýmis konar starfsemi og þjónustu á svæðinu vaxið til muna og hafa frumkvöðlar, listafólk og hönnuðir komið sér upp vinnustofum og aðstöðu hvoru tveggja við Fornubúðir og í skapandi umhverfi Íshúss Hafnarfjarðar. Fyrirséð er að þessi skapandi og áhugaverða uppbygging haldi áfram. 

Sjá upplýsingasíðu um Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði

Ábendingagátt