Haldið áfram með uppbyggingu hjúkrunarheimila

Fréttir

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar hefur falið bæjarstjóra að taka upp viðræður við velferðarráðuneytið um endurskoðun fyrirliggjandi samnings frá 2010 um byggingu nýs hjúkrunarheimilis í bænum.

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar hefur falið bæjarstjóra að taka upp viðræður við velferðarráðuneytið um endurskoðun fyrirliggjandi samnings frá 2010 um byggingu nýs hjúkrunarheimilis í bænum í ljósi breytinga sem gerðar hafa verið á sambærilegum samningum á þeim tíma sem liðinn er frá undirritun.

Haustið 2014 gerði Capacent að beiðni bæjarstjórnar Hafnarfjarðar samanburð á valkostum um staðsetningu hjúkrunarheimilis þar sem litið var til tveggja valkosta, á Sólvangsreit og í Skarðshlíð en niðurstaða úttektarinnar var m.a. að eðlilegt væri að skoða ennfremur mögulegt samstarf við Hrafnistu í samræmi við fyrirliggjandi stefnumótun í málaflokknum þar sem gert er ráð fyrir að í Hafnarfirði verði til framtíðar þrír þjónustukjarnar fyrir eldri borgara; að Sólvangi, við Hrafnistu og í Vallahverfi.

Hrafnista hefur sent inn erindi til Hafnarfjarðarbæjar þar sem athygli bæjarins er vakin á þeim möguleika að byggja við Hrafnistu og um mögulega aðkomu þeirra að byggingu og rekstri á 60 rýma hjúkrunarheimili.

Bæjarstjóra falið að taka upp viðræður við Hrafnistu

Fjölskylduráð samþykkti að fela bæjarstjóra að taka upp könnunarviðræður við Hrafnistu á grundvelli þess sem fram kemur í erindi þeirra.

Viðræðurnar við Hrafnistu þýða ekki að búið sé að taka endanlega ákvörðun um framtíðarstaðsetningu næsta hjúkrunarheimilis í bænum. Við eigum eftir að sjá hvað kemur út úr samtalinu við ráðuneytið þar sem við munu halda áfram að ræða mikilvægi þess að fjölga  hjúkrunarrýmum í Hafnarfirði “  segir Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður fjölskylduráðs.

Áfram verður unnið eftir fyrirliggjandi stefnumótun í málaflokknum og áhersla lögð á að byggja upp til framtíðar.

„ Frá árinu 2008 – 2014 hefur 160 milljónum verið úthlutað  úr framkvæmdasjóði aldraðra til Hafnarfjarðar en á sama tíma hafa Hafnfirðingar greitt sem samsvarar 881 milljónum inn í sjóðinn. Frá árinu 2004 hafa skattgreiðendur í Hafnarfirði greitt 1.425.378.327 í sjóðinn sem samsvarar byggingu á 60 rýma hjúkrunarheimili .“ segir Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri í Hafnarfirði.

Hér er hægt að skoða fundargerð fjölskylduráðs.

Ábendingagátt