Halló Hafnarfjörður – gjöf til nýfæddra Hafnfirðinga

Fréttir

Frá og með 1. janúar 2022 munu nýfæddir Hafnfirðingar fá táknræna og fallega gjöf frá bænum sínum. Gjöfin er liður í því að efla Hafnarfjörð enn frekar sem fjölskylduvænt samfélag og bjóða nýfædda Hafnfirðinga velkomna í heiminn með formlegum og eftirminnilegum hætti. 35 nýir Hafnfirðingar hafa fæðst frá áramótum. 

35 Hafnfirðingar hafa komið í heiminn frá áramótum

Frá og með 1. janúar 2022 munu nýfæddir Hafnfirðingar fá táknræna og fallega gjöf frá bænum sínum eða svokallaða “krúttkörfu”. Gjöfin er liður í því að efla Hafnarfjörð enn frekar sem fjölskylduvænt samfélag og bjóða nýfædda Hafnfirðinga velkomna í heiminn með formlegum og eftirminnilegum hætti. 35 nýir Hafnfirðingar hafa fæðst frá áramótum og þótti viðeigandi að fyrsti Hafnfirðingur ársins og nýfædd dóttir bæjarlistamanns Hafnarfjarðar 2021 fengju fyrstu gjafirnar afhentar. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Valdimar Víðisson formaður fjölskylduráðs heimsóttu fjölskyldurnar og færðu þeim gjöf, blóm og bakkelsi með hugheilum hamingjuóskum frá Hafnarfjarðarbæ. Foreldrar annarra janúarbarna fá skilaboð um gjöfina á næstu dögum. 

5O5A6280

Fyrsti Hafnfirðingur ársins, Eyþór Árni Matthíasson, kom í heiminn 1. janúar. Foreldrar hans eru þau Alma Jónsdóttir og Matthías Árni Ingimarsson.

„Hafnarfjörður er mikill fjölskyldubær og miða allar okkar ákvarðanir og aðgerðir að því að þjónusta vel íbúa á öllum aldri. Með þessari fallegu gjöf viljum við á hlýlegan hátt óska nýbökuðum foreldrum innilega til hamingju með Hafnfirðinginn sinn og bjóða barnið á sama tíma velkomið í heiminn. Hafnarfjörður er hafsjór möguleika til heilsueflingar, upplifunar og skemmtunar fyrir alla aldurshópa. Með gjöfinni viljum við einnig benda fjölskyldufólki sérstaklega á þá þjónustu sem því stendur til boða innan bæjarmarkanna“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

5O5A6251Bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2021 Friðrik Dór Jónsson og eiginkona hans Lísa Hafliðadóttir eignuðust dótturina Hrafnhildi Friðriksdóttur 5. janúar sl.

Umhverfissjónarmið, notagildi og kynhlutleysi leiðarljósi í vali á vörum

Gjöfin,
sem gengið hefur undir heitinu krúttkarfan, inniheldur fatnað fyrir barnið,
krúttbangsa og tvær bækur, eina fyrir foreldra og aðra fyrir barnið. Um er að
ræða heilgalla, húfu, sokka og smekk sem ber áletrunina Halló Hafnarfjörður. Við ákvörðun á innihaldi gjafar voru umhverfissjónarmið m.a. höfð að leiðarljósi, notagildi og kynhlutleysi. Foreldrar nýfæddra Hafnfirðinga fá póstkort frá bænum sínum með boði um að nálgast gjöf í barnadeild Bókasafns Hafnarfjarðar. Barnadeildin þykir fullkominn afhendingarstaður enda býður bókasafnið upp á góða aðstöðu fyrir lestur, fræðslu, slökun, spjall og samveru fyrir nýbakaða foreldra. Á póstkortinu er jafnframt QR kóði sem leiðir foreldra inn á síðu á vef bæjarins með upplýsingum á bæði íslensku og ensku um þá þjónustu og möguleika sem standa börnum og fjölskyldum til boða í Hafnarfirði. Upplýsingar um gönguleiðir, leikvelli, áhugaverða staði í Hafnarfirði, dagforeldra., leikskóla, viðburði og fleira gagnlegt.  

Ábendingagátt