Fyrst ungmennahúsa til að hljóta Grænfánavottun

Fréttir

Hamarinn ungmennahús hlaut nú á dögunum Grænfánavottun Landverndar og varð þannig fyrsta ungmennahús landsins til að hljóta slíkan gæðastimpil. Haustið 2019 sótti umhverfisnefnd Hamarsins um að gerast Grænfána ungmennahús hjá Landvernd.

Hamarinn ungmennahús hlaut nú á dögunum Grænfánavottun
Landverndar og varð þannig fyrsta ungmennahús landsins til að hljóta slíkan gæðastimpil.
Haustið 2019 sótti umhverfisnefnd Hamarsins um að gerast Grænfána ungmennahús
hjá Landvernd. Á sama tíma setti ungmennahúsið sér metnaðarfull markmið og
hefur staðið fyrir fjölda viðburða og funda sem snúa m.a. að umhverfismálum enda
yfirlýst markmið Hamarsins að vera leiðandi ungmennahús á landsvísu í þessum
málaflokki, sem öðrum. Aðalfundur húsfélags hússins var haldinn í gær 21.desember
og var á fundinum kosin ný og öflug stjórn í húsfélagið.

Nýja stjórn húsfélags
Hamarsins skipa þau:

  • Melkorka Assa Arnardóttir
  • Bjarki Freyr Ólafsson
  • Nicolas Leó Sigurþórsson
  • Ásbjörn Ingi Ingvarson
  • Tristan Flóki Arnarson
  • Vera Mist Magnúsdóttir
  • Björk Davíðsdóttir
  • Marín Helgadóttir
  • Thorvald Michael Vágseið
  • Valtýr Melsted


Ungmennin sjálf eru drifkrafturinn í starfinu

Hamarinn er ungmennahús fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára
í gömlu skattstofunni að Suðurgötu 14 og starfar eftir gildum jafnréttis,
vináttu og vellíðunar auk þess sem virðing fyrir náttúru og umhverfi er
undirliggjandi þáttur í allri starfseminni. Innri starfsemi byggir á þeim
forsendum að ungmennin sjálf séu drifkraftur í starfinu og þannig endurspeglar
starfsemi og verkefni hússins tíðaranda og áhuga ungmennanna sjálfra. Umhverfisnefnd
Hamarsins bjó þannig til umhverfissáttmála sem felur í sér þau mikilvægu
skilaboð að skilja við jörðina eins eða jafnvel betri en komið er að henni.
Þannig sé náttúran virt með nýtni og hófsemi, umhirðu og endurvinnslu að
leiðarljósi. Ný umhverfisnefnd mun vera kosin í upphafi á nýju ári og fær hún m.a.
það hlutverk að byggja ofan á þann góða grunn sem lagður hefur verið og gera
enn betur í umhverfismálum.

Markmið sem liggja að
baki fyrstu Grænfánavottun

  • Koma urðunartunnu í gagnið
  • Verða plastlaus
  • Huga að orkuneyslu og vera með endurnýjanlega
    orkugjafa
  • Auglýsa markmið út á við og fá fleiri til að
    taka þátt

Það er mat Landverndar að Hamarinn sé að standa sig vel og
hafi gert sitt til að uppfylla ofangreind markmið þrátt fyrir erfiðar aðstæður
á tímum Covid19. Umhverfisnefnd Hamarsins stóð m.a. fyrir fatamarkaði og fræðslukvöldum
um umhverfismál og verða slíkir viðburðir haldnir árlega. 

Ábendingagátt